Fuglar og fögur náttúra

Reykhólhreppur er innst í Breiðafirði og nær yfir alla Austur-Barðastrandasýslu. Nær frá Gilsfjarðarbotni og vestur í Skiptá í Kjálkafirði. Hlynur Þór Magnússon þykir manna fróðastur um hin ýmsu mál sem við koma sveitinni.


Mynd af krökkum í
heita pottinum.


Í Reykhólahreppi búa 250 manns, þar af eru 120 sem búa í þorpinu að Reykhólum. Þar er starfræktur leikskóli, Hólabær og grunnskóli, Reykhólaskóli, en í kringum 40 nemendur stunda þar nám á veturnar í 1.- 10. bekk. Skólasel kallast frístundaheimili fyrir krakka í 1.-4. bekk og fara krakkarnir þangað þegar skóla lýkur klukkan 13:00 og geta verið þar til 16:00. Íþrótthús og sundlaug eru á staðnum og þar starfar íþróttafélagið UDN. Bókasafn er til húsa í skólanum. 
Barmahlíð kallast hjúkrunarheimili sem starfrækt er í Reykhólahreppi og er þar pláss fyrir 13 í hjúkrunarrými og 2 í dvalarrými. 

Mynd af sundlauginni
á Reykhólum. 


Grettislaug heitir sundlaugin á Reykhólum. „Hún er 60 ára gömul en fyrir nokkrum árum var öll aðstaðan gerð upp. Þessa dagana er verið að gera hana að einhverju leyti upp, gera hana snyrtilega og fína,“ segir Hlynur um sundlaugina. Laugin heitir eftir Grettislaug sem er aðeins fyrir ofan nýju laugina. Sú laug var lítill hver sem hlaðið var í kringum og Grettir sterki Ásmundsson á að hafa brúkað. Laugin var grafin upp 2006 og gerð sýnileg og merkt. Sundlaugin er 25 x 12,5 metrar og er mesta dýpi 2,75 metrar. Einnig eru þar tveir heitir pottar. 

Aðkoma að sundlauginni
á Reykhólum

Fuglaskoðunarskýli við Langavatn
 
Á hverju sumri er Reykhóladagurinn haldinn hátíðlegur en það er bæjarhátíð heimamanna. „Hann hefur alltaf verið haldinn snemma sumars en þetta árið verður hann nær hausti og er líklegast að hann verði 1. september,“ segir Hlynur. Á þessum degi er margt gert sér til gamans og taka brottfluttir og gestir einnig virkan þátt í hátíðarhöldunum. Fuglaskoðunarskýli er við Langavatn á Reykhólum. „Það eru tvö ár síðan skýlinu var komið upp. Á þessu svæði er eitt fjölbreyttasta fuglalíf á landinu. Ástæðan er fjölbreytni náttúrunnar hérna. Allt þetta náttúrulendi á þessu litla svæði gerir þetta að kjörlendi fyrir fugla á Íslandi,“ segir Hlynur. 

Traktor á
traktorasafninu. 


Fuglaskýlið er hannað þannig að mannfólkið fæli ekki fuglana. Raufir eru á skýlinu til að horfa út um og getur fólk því notið þess að fylgjast með þeim án þess að þeir styggist. Einnig er hægt að ganga „fuglaskoðunarstíginn“ sem liggur meðfram vatninu og er þriggja kílómetra langur. Alls konar fugla er hægt að sjá á þessum stað og er þarna mikið af lómi. Einnig er þetta staðurinn þar sem líklegast er að koma auga á haförn. „Á þessu svæði hefur helmingur af íslenska arnarstofninum aðsetur og má sjá örn á flugi hérna flesta daga sumars,“ segir Hlynur. Mikill áhugi er á að koma upp arnarskoðunarstöð í Reykhólasveit. Stöðinni mun vera komið upp nálægt arnarsetri sem mun verða vel sjáanlegt með kíki, auk þess sem einhvers konar safn og fræðsla yrði rekið með stöðinni. Eins og er, er vinnan í kringum hugmyndina komin frekar skammt á veg og því í raun ekki mikið vitað um hvenær megi búast við að hægt verði að nýta sér stöðina.

Traktorasafn og iðjuver
 
Traktorasafn er staðsett á bæ sem heitir Grund rétt fyrir ofan þorpið. Þar er búið að safna saman fjölda af gömlum traktorum, gera þá flesta upp og er megnið af þeim gangfærir. Einnig eru þar til sýnis gamlar búvélar og tæki en þau eru hætt að virka. Rétt hjá Reykhólum, eða í Karlsey, er að finna eitt vistvænasta iðjuver í heiminum. Það er Þörungaverksmiðjan. Hún er knúin af jarðhita og er þar framleitt mjöl úr ómenguðum gróðri sjávar. Mjölið er að mestu leyti flutt út og er notað sem hleypiefni við matvælavinnslu, áburður fyrir landbúnað og skrúðgarða og fóður fyrir húsdýr og gæludýr.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga