Skálmarnes/Múlanes

Ein gönguleið liggur frá bænum Skálmarnesmúla sem stendur yst á nesinu vestanverðu undir Skálmarnesmúlafjalli. Bæinn er hægt að nálgast á jeppa, eftir 14 kílómetra löngum vegi sem liggur undir vesturhlíðum Skálmarnesmúla á austurströnd Kerlingarfjarðar og þaðan fyrir nesið.

Á bænum Skálmarnesmúla er lítil kirkja sem byggð var á árunum 1955-60. Gengið er frá bænum eftir vegi um friðsælt mólendi og er útsýnið yfir Breiðafjörð einstakt. Fuglabjarg er í Múlanesi. Yst á nesinu er Skálmarnesflugvöllur sem gengið er yfir út á Haugsnes. Þegar komið er yfir flugbrautina og stuttan spöl inn með hlíðinni er gott útsýni inn Skálmarfjörð og yfir að Svínanesi handan fjarðarins. Á Haugsnesi var annar maður Guðrúnar Ósvífursdóttur heygður eftir að hann drukknaði á Breiðafirði.

Stóristeinn
 
Er saga þessi gerðist átti kona að nafni Ingunn heima á Ingunnarstöðum á Múlanesi. Hún var fátæk og skuldaði prestinum í Skálmarnessmúla fé sem hún gat engan veginn goldið. Það eina sem vesalings konan átti var mjólkurkýr sem hélt lífinu í henni og börnunum. Presturinn var þekktur af öðru en að láta hlunnfara sig og vildi fá skuldina greidda og engar refjar. Þegar hann sá fram á að engan fengi hann skildinginn, tók hann kúna upp í skuldina – frekar en ekkert – og kvaddi Ingunni fálega. En þar sem klerkur kemur á milli Múla og Ingunnarstaða fellur steinn mikill ofan úr Múlanesfjalli og niður hlíðina þar sem hann stöðvaðist að lokum. Þar er steinninn enn þann dag í dag og undir honum hvílir presturinn. Af kúnni er það að segja að hún slapp ómeidd og skundaði heim á leið, húsfreyju til ómældrar gleði.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga