Gufudalsháls – gönguleið

Önnur skemmtileg gönguleið er frá Gufudalskirkju upp frá botni Gufufjarðar, um Gufudalsháls yfir að bænum Galtará á austurströnd Kollafjarðar. Gufudalsháls var í alfaraleið fram undir miðja 20. öldina, áður en vegurinn fyrir Skálanes var lagður. Þetta var erfið leið og ferðamenn urðu að teyma hesta sína upp og niður sneiðingana.Ferðin hefst hjá gömlu timburkirkjunni í Gufudal, þar sem stefnan er tekin að fyrstu vörðunni í hlíðinni. Þaðan er gengið í sneiðing út með fjallinu þar sem landið hækkar stöðugt. Kennileiti á leiðinni er gil sem gengið er yfir. Þegar komið er í gróið gil upp í Heiðarhvammi er stefnan tekin til norðurs og gengið skáhallt upp hlíðina. Markmiðið er að ná vörðu sem stendur á brúninni á móts við bæinn í Gufudal. Á brúninni tekur við vel vörðuð gata yfir hálsinn með góðu útsýni til Reiphólsfjalla. 

Meðal þess sem fyrir augu ber er stór grænleitur steinn sem stendur á brúninni hinum megin. Er þar kominn Gullsteinn en þjóðtrúin segir að undir honum séu gull og gersemar. Fjársjóðinn er þó erfitt að nálgast því steininum fylgja þau álög að ef einhver vogar sér að velta honum, munu allir bæir í sveitinni brenna. Aðeins neðar í hlíðinni er varða hlaðin ofan á kletti. Hún heitir Gvendaraltari eftir Guðmundi biskup góða. Þaðan liggur leiðin niður á við um allbratta hlíðina og ógreinilega götu og er vissara er að fylgja vörðunum. 
Galtará fellur fram í gljúfri og meðfram henni er gengið niður reiðveginn þar til komið er niður á austurströnd Kollafjarðar.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga