Selskinnsfatnaður og hreiður

Á Reykhólum er starfrækt á sumrin hlunnindasýning í gamla mjólkurstöðvarhúsinu. Hlynur Þór Magnússon hefur yfirumsjón með sýningunni.
Á hlunnindasýningunni er sýnt það sem nýtt var til sjávar og lands, en það var aðallega fugl og selur,“ segir Hlynur. „Ástæðan fyrir því að sýningin er staðsett þarna er sú að þetta er eini staðurinn sem aldrei hefur orðið hungursneyð á Íslandi, eins og til dæmis í móðuharðindunum. Því var að þakka sú fjölbreytni sem er í náttúrunni hér um slóðir. Hingað streymdi fólk að sunnan og austan í harðindum því hér var búpeningur eins og annars staðar en að auki selirnir og fuglarnir sem gerðu gæfumuninn þegar búfénaður féll. Fyrir sunnan var þá ekki upp á slíkt að hlaupa því þar eru ekki allar þessar tegundir af náttúrugæðum.“ 
Á sýningunni er sýnt hvernig þessar nytjar voru nýttar, til dæmis veiðar á sel, hvernig hann var verkaður og nýttur, dúntekja og vinnsla á dúninum, fuglaveiði og eggjataka. Sýnd eru margs konar hreiður og egg, ýmsar tegundir fugla, uppstoppaðir selir, selskinn, fatnaður og töskur úr selskinni auk þess sem þar ber að líta uppstoppaðan haförn. „Svo eru til sýnis gripir sem við koma vinnslunni á náttúruafurðunum, eins og gömul verkfæri,“ segir Hlynur. Sýningin samanstendur af veggspjöldum með skýringum á því sem sýnt er og í sýningarsalnum eru sjónvarpsskjáir sem sýna kvikmyndir um lífríki í Breiðafirði og hvernig þessi gæði voru nýtt. Sýningin er í gamla Mjólkurstöðvarhúsinu sem byggt var fyrir 40 árum en varð aldrei mjólkurstöð.

Mynd frá Bátasafninu
í Reykhólum.


Á samastað er verið að koma á fót Bátasafni Breiðafjarðar og er búið að safna um 20-25 bátum úr Breiðafirði og verður það opið samhliða hlunnindasýningunni. Í sama húsi er einnig upplýsingamiðstöð, vísir að byggðasafni og sýning á handverki heimamanna.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga