Svínanes – gönguleið
Gönguleiðin er í nágrenni Skálmarfjarðar og er á strandlengjunni undir hlíðum Svínanesfjalls. Nesið heitir Svínanes og liggur austan Skálmarfjarðar. Leiðin er löng og erfið og ráðlegt er að taka fleiri en einn dag í ferðina og passa vel upp á að réttur búnaður sé með í för. Vindáttir eru nokkuð sterkar á þessu svæði og því nauðsynlegt að fylgjast með veðurspá og haga göngunni eftir því. Ríkjandi vindáttir eru úr norðaustri og suðvestri og því er yfirleitt heppilegast að hefja gönguna við bæinn Kvígindisfjörð í botni samnefnds fjarðar. 


Mynd af Þörungaverksmiðjunni rétt fyrir utan Reykhóla. Mats Wiber Lund

Á leiðinni er gengið fram á nokkur eyðibýli. Fyrst er Svínanessel sem stendur um mitt nesið að austanverðu. Fremst á nesinu er bærinn Svínanes sem fór í eyði um 1960. Þegar gengið hefur verið yfir nesið og nokkuð inn Skálmarfjörðinn er gengið um fallegt og hlýlegt bæjarstæðið á Selskeri sem fór í eyði árið 1954. 
Handan fjarðarins, aðeins innar, er bærinn Urðir sem kemur við sögu í Laxdælu. Á landnámsöld bjó þar galdrahyskið Kotkell og Gríma. Þaðan er gengið inn Skálmarfjörð þar til komið er að Illugastöðum, ekki langt frá fjarðarbotninum. 
Fyrir ofan Illugastaði er þjóðvegurinn. Á landnámsöld bjuggu Kotkell og Gríma og synir þeirra á bænum Urðum sem stendur á vesturströnd Skálmarfjarðar. Í Laxdælu er því haldið fram að þau hafi verið fjölkunnug og miklir seiðmenn. Til er saga af því þegar Þórður Ingunnarson, þáverandi eiginmaður Guðrúnar Ósvífursdóttur, stefndi Urðarfólki fyrir þjófnað og galdra og reyndi þannig að gera þau útlæg. 
Kotkell lét þá reisa seiðhjall þar sem heimilisfólkið framdi galdraseið sem varð til þess að Þórður drukknaði á Breiðafirði. Skip hans fékk á sig brotsjó og hvolfdi. Áhöfnin drukknaði öll og voru líkin heygð í Haugsnesi yst á Skálmarnesi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga