Gott samstarf og þjónusta í Vesturbyggð

Vesturbyggð samanstendur af þorpunum Patreksfirði og Bíldudal og sveitunum þar í kring. Soffía Gústafsdóttir er í ferðamálanefnd staðarins.


Soffía Gústafsdóttir

Íbúar í Vesturbyggð eru tæplega 1.000 í allt. Þó að Tálknafjörður teljist ekki til Vesturbyggðar er mikið samstarf þarna á milli. „Hér í Vesturbyggð er mjög góð þjónusta við íbúa og í raun og veru er mjög hátt þjónustustig hérna.“ Segir Soffía en á staðnum er að finna kvikmyndahús, heilbrigðisstofnun, heilsugæslu, grunnskóla, tvo golfvelli, nýbyggða sundlaug og íþróttahús með einu flottasta útsýni sem fyrir finnst, „Þetta er í rauninni líkamsræktarsalur sem væri hægt að selja stórstjörnum!“ Segir Soffía og hvetur alla til að prófa hann sem komast í það. Í haust verður boðið upp á framhaldsdeild í Vesturbyggð. Námið er á framhaldsskólastigi og verður þessi deild í samstarfi við Framhaldsskólann á Snæfellsnesi, sem er staðsettur í Grundarfirði, og Drifmenntun. Í Vesturbyggð er einnig að finna tónlistarskóla, leikskóla, elliheimili, íbúðir fyrir aldraða, tannlæknaþjónustu, bókasafn og fjórar matvöruverslanir. 

Besta bíópoppið 
Íbúarnir eru mjög stoltir af kvikmyndahúsinu sínu. „Kvikmyndahúsið er gamalt, byggt á milli 1940- 1950. Núna er verið að leggja síðustur hönd á viðbætur og endurbætur á því.“ Upplýsir Soffía, „Nýjustu myndirnar eru alltaf sýndar hérna og var meira að segja heimsfrumsýning á einni Star Wars myndinni hérna!“ Kvikmyndahúsið er mjög flott og hefur verið gert upp í upphaflegri mynd. „Svona bíó er ekki lengur til hér á landi.“ Fullyrðir Soffía, „Svo er líka besta bíópoppið á landinu hérna því það er handgert, engar fjöldaframleiðslupoppvélar.“ Sýningar eru alltaf á sunnudögum og líka á aukafrídögum. 

Ferðaþjónustan í Vesturbyggð er í mikilli uppbyggingu. „Hér er margt spennandi í boði og mjög miklir möguleikar í ferðamennsku.“ Byrjar Soffía enda er ósnortna náttúran fjársjóður út af fyrir sig. „Í fyrra fórum við af stað með gönguhátíð og verður hún aftur í ár eða síðustu helgina í júlí.“ Segir Soffía og má þess geta að þarna er að finna eitt fallegasta göngusvæði landsins. „Þetta er menningartengd gönguhátíð. Í fyrstu göngunni var farið á slóðir Gísla Súrssonar. 

Á einum staðnum dúkkaði svo upp sjálfur Gísli og var þetta leikrit á hans slóðum. Við skoðuðum líka byrgið sem hann faldist í í sjö ár.“ Segir Soffía, og heldur áfram, „Fólk kom víða að með jafnvel bara dagsfyrirvara, ein kom frá Egilsstöðum og margir ætla að koma aftur.“ Í boði eru gönguferðir sem ættu að hæfa flestum. Tvær göngur á dag, léttari og erfiðari. „Hátíðin er fjölskyldumiðuð og stefnum við að því að vera með dagskrá fyir börn og jafnvel barnagæslu. Þá getur fjölskyldan komið hingað og allir skemmt sér vel.“ Segir Soffía. 

Grænar baunir og sjómannadagur 
Fleiri hátíðir eru í gangi í Vesturbyggð yfir sumarið og má þar nefna Bíldudals Grænar Baunir, sem er bæjarhátíð Bíldudælinga, og svo er mikil hátíð í kringum sjómannadaginn á Patreksfirði. Á komandi árum verður líka mikil uppbygging í safnamálum Vesturbyggðar og er áætlað að opna þar Sjóræningjasafn og einnig er Skrímslasafn langt á veg komið. Verið að leggja drög að sjóræningjasafni. „Skrímslasafn er komið á fleygiferð og ætti að opna árið 2008. Það er byggt á margra ára rannsóknarvinnu á sögnum allt til þessa dags sem hefur sést til skrímsla hér í Arnarfriðinum sem þykir djúpur og dulur.“ Segir Soffía. „Í Vesturbyggðinni er saga bak við hverja þúfu og undir hverjum stein, að ekki sé nú talað um þessa stórbrotnu náttúru sem hér finnst, og ættu því allir, stórir og smáir, að una sér vel og hafa nóg fyrir stafni,“ lýkur Soffía máli sínu með.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga