Viljum að gestum okkar líði vel

Birna og Keran í Breiðavík hafa lagt áherslu á heimilislegan brag og góða þjónustu við göngufólk.
Breiðavík

Í Breiðavík reka hjónin Birna Mjöll Atladóttir og Keran Ólason ferðaþjónustu með fjölbreyttum gistimöguleikum og einkar góðri aðstöðu og ættu allir að geta fundið gistingu sem hæfir þeirra óskum og buddu. „Við bjóðum upp á fjórtán herbergi með baði,“ segir Birna en segir þau herbergi ekki vera inni á gömlu vistinni. „Við ætlum að halda kjarnanum eins og hann var hér á árum áður. Sá kjarni verður fyrir þá sem óska eftir svefnpokaplássi. Alls eru þau herbergi tíu, þannig að hér verður gisting fyrir og fimm manns.“ 

Birna Mjöll Atladóttir
og Keran Ólason.

Tjaldstæðið er einstaklega skemmtilegt og þjónusta þar til fyrirmyndar. „Við erum með sturtur, eldhús, matsal, þráðlaust net og þvottavélar fyrir þá sem gista á tjaldstæðinu hjá okkur, enda hefur það gengið einstaklega vel. Fólk er undrandi yfir því að við skulum leggja svona mikið í tjaldstæðið - en það er svo mikið af ungu fólki sem sækir þangað og ef það er ánægt, þá kemur það einhvern tímann aftur í gistingu hjá mér. Við viljum að gestum okkar líði vel og höfum hingað til fengið ákaflega góð viðbrögð frá þeim sem hafa dvalið hjá okkur.“ 

Skaðleg fjölmiðlaumfjöllun 
Þegar Birna er spurð hvernig gangi að selja aðra gistimöguleika, segir hún að þar séu útlendingar nánast einu gestirnir. „Það er svo skrítið,“ segir hún, „að þegar upptökuheimilið sem rekið var hér í Breiðuvík var tekið til umfjöllunar í fjölmiðlum, þá hringdi fólk öskureitt í okkur og afpantaði gistingu sem það hafði bókað hjá okkur í sumar. Það var afpantað fyrir heilu hópana og hefur sett dálítið strik í reikninginn hjá okkur. Við skiljum ekki alveg hvers vegna fólk er svona reitt út í okkur. Við keyptum staðinn löngu eftir að upptökuheimilið var lagt niður og berum engan ábyrgð á þeirri starfsemi sem hér fór fram. Og það skondna í þessu öllu saman er að í sumar erum við að fara að taka á móti hópi manna sem voru á sínum tíma vistaðir á heimilinu. 

Þeir eru ekkert bangnir við að koma aftur á þessar slóðir. Það er enginn svikinn af því að dvelja í Breiðavík og njóta þjónustunnar sem þar er í boði. Staðurinn er steinsnar frá Látrabjargi og náttúrufegurðin - ekki síst sólsetrið - er óviðjafnanleg. Veitingar eru gómsætar og á boðstólum er allur almennur heimilismatur. „Við bjóðum upp á allar veitingar frá morgni til kvölds, allt eftir þörfum gesta okkar,“ segir Birna og bætir við: „Og hér hefur kaffidropinn aldrei verið seldur. Við bjóðum öllum sem hingað koma upp á kaffi, meira að segja þeim sem aðeins stoppa til að fara á salerni - og þannig verður þetta á meðan við Keran rekum staðinn. 

Rútur fyrir trússferðir 
Frá Breiðavík eru magnaðar gönguleiðir sem eru jafn stórbrotnar að nóttu sem degi og Birna hefur, í samvinnu við bóndann sem rekur ferðaþjónustuna í Hænuvík, hannað göngukort fyrir heiðina sem liggur á milli þeirra. „Við höfum um hríð rekið sautján manna rútu til þess að geta betur þjónustað gesti okkar vegna þess að hingað kemur mikið af göngufólki og nýlega keyptum við Stjörnubíla á Ísafirði og ætlum að reka nokkrar rútur þaðan. Við sækjum hópa, nánast hvert sem er og trússum þá um svæðið. Það er algengt að fólk vilji nýta sér gönguleiðirnar hér á Vestfjörðum og fá okkur til að trússa farangurinn á milli.“

.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga