Yfir Látraheiði að Látravík

Frá Keflavíkurbjargi er hægt að ganga Látraheiðina að Látravík. Leiðin yfir heiðina er bugðóttur grýttur troðningur yfir lítt grónar urðir. Kennileiti á leiðinni er Gvendarbrunnur utan í Brunnhæð, sem er í 458 metra hæð yfir sjávarmáli. Gvendarbrunnur er vatnsuppspretta sem hlaðið hefur verið grjóti í kringum.

Brunnurinn er nefndur eftir Guðmundi biskupi hinum góða, en hann vígði Látrabjarg á sömu ferð sinni um Barðaströnd. Utan í Brunnhæð eru óteljandi litlar vörður því fyrrum var sagt að sá sem færi þarna um í fyrsta skipti ætti að hlaða þrjár vörður í grennd við brunninn. Myndi honum þá vel farnast á leiðinni. Slys hafa verði tíð við eggjatöku á Látrabjargi og nánast tók fyrir nytjar eftir að tveir menn hröpuðu í bjarginu 1926. 

Látrabjarg.
Ekki er vitað hve margir menn hafa farist í Látrabjargi frá upphafi, en fyrst segir frá slysum upp úr aldamótum 1200. Þá var sigmaður nokkur á leið niður bergið þegar út úr því kom loðin hönd sem skar sundur vaðinn, svo maðurinn hrapaði til bana. Öðru sinni um svipað leyti var maður í sigi þegar sú hin sama loðna loppa kom út úr berginu, hélt á kuta miklum og skar á vaðinn. Þó fór þriðji þátturinn ekki alveg í sundur. Sigmaður þorði ekki með nokkru móti að láta draga sig upp á einungis einum þætti vaðsins og var því enginn kostur að ná honum. Dó hann þar úr sulti, en menn komust þó svo nærri honum að þeir heyrðu hann kveða fyrir munni sér lágri röddu meðan hann reri bakföllum upp að berginu: „Héðan kemst ég hvergi, halla ég mér að bergi: Einhvers staðar verða vondir að vera.“ 

Sagt er að Gottskálk bóndi á Látrum sem var fjölkunnugur, en þó ekki nóg til að geta komið óvættinni fyrir, hafi fengið Guðmund biskup góða til að fyrirkoma bergbúanum. Það mun hafa verið um 1220. Gvendur biskup tók þessari beiðni vel, stefndi bjargbúanum fyrir sig og mælti harðlega við hann og heitaðist að reka hann úr bjarginu. Bjargbúi bað sér vægðar, vildi fá að hafa einhvern stað fyrir sig og mælti: „Einhvers staðar verða vondir að vera“. Þetta skildi biskupinn mætavel og gaf honum eftir þann hluta bergsins sem síðan heitir Heiðnabjarg og er sá hluti sem óhægast er að síga í.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga