Látrabjarg

Látrabjarg er stærsta fuglabjarg landsins og jafnframt hið stærsta við norðanvert Atlantshaf. Bjargið er um 14 km langt og tæplega 450 m hátt þar sem það er hæst.

Í daglegu tali er bjarginu skipt í fjóra hluta - Keflavíkurbjarg, Látrabjarg, Bæjarbjarg og Breiðavíkurbjarg. Vestast á Látrabjargi eru Bjargtangar, sem jafnframt er vestasti tangi landsins og álfunnar.Vegur liggur að Bjargtangavita, vestasta odda Evrópu og þaðan má ganga inn með brún Látrabjargs. Á sumrin er haldið uppi reglubundnum áætlanarferðum milli Látrabjargs og helstu þéttbýlisstaða Vestfjörðum. Leiðin liggur út með Patreksfirði, um Örlygshöfn, þá yfir heiðina skammt ofan við Breiðavík og um Látravík út að Bjargtöngum. Allmikið æðarvarp er í Örlygshöfn og fjöldi vaðfugla og sjófugla niðri í víkunum. 

Margt votlendisfugla er í Breiðavík og þá er í Látravík óvenju mikið um sandlóu. Þegar ofar dregur ber einkum á snjótittlingi. Mönnum telst svo til að í Látrabjargi verpi yfir ein milljón sjófuglapara. Þarna verpa allar tegundir svartfugla sem halda til við Íslandsstrendur að haftyrðli undanskildum. Þess má einnig geta að við rætur Látrabjargs er mesta samfellda álkubyggð veraldar. Auk svartfugla ber mikið á fýl og ritu. Loks má geta þess að óvíða eru lundar gæfari en á Bjargtöngum og kippa sér lítt upp við mannaferðir. Þeir sitja oft kyrrir á bjargbrúninni þótt menn séu komnir nánast í seilingarfjarlægð við þá. Selir eru einnig algengir við bjargið og stundum má sjá hvölum bregða fyrir. Bjargið er hæst að Heiðnukinnarhorni. Þar er sléttlendi á brúninni og gott útsýni til allra átta. Aðgengi að bjarginu er gott og er akfært að vitanum á Bjargtöngum. Fyrir þá sem ekki eru lofthræddir er gaman að ganga með bjargbrúninni og skoða fuglalífið.


Látrabjarg hefur þótt nytjamikið allt frá landnámstíð. Eggjataka og fuglatekja eru hlunnindi sem sótt hafa verið í bjargið og voru þau mikilvæg fyrir nálæg byggðarlög. Slys voru þó tíð við eggjatöku og nánast tók fyrir sig í bjarginu eftir að tveir menn hröpuðu í bjarginu árið 1926. Í dag er eggjataka að mestu úr sögunni og voru síðustu stóru bjargferðirnar sennilega farnar í kringum 1960. Margar sögur eru til um lífið í bjarginu, en ein af þeim þekktari segir frá þegar Guðmundur biskup góði blessaði bjargið. Þá var Gottskálk nokkur bóndi á Látrum. Var hann talinn fjölkunnugur mjög en gekk honum illa að losna við óvætt, sem skar vaðinn fyrir sigmönnum, úr bjarginu. Gottskálk leitaði því til Guðmundar biskups góða sem vígði bjargið. 

Þegar Guðmundur biskup stefnir bjargbúanum fyrir sig biðst bjargbúinn vægðar, vildi fá einhvern stað fyrir sig og mælti: „Einhvers staðar verða vondir að vera“. Biskupinn var sammála því og gaf honum eftir þann hluta bergsins sem síðan heitir Heiðnakinn. Fjöldi skipa hefur farist við bjargið, oft með allri áhöfn. Síðasta skip sem fórst við bjargið var togarinn Dhoon sem strandaði við Flaugarnef, en heimamenn náðu að síga eftir skipbrotsmönnum niður í fjöru og var þeim sem eftir lifðu bjargað upp á brún. Minnisvarði, sem reistur var í tilefni af því að 50 ár voru liðin frá strandinu, stendur á brún Geldingaskorardals. Fjöldi manns tók þátt í þessu frækilega björgunarafreki sem nú hefur verið gerð kvikmynd um.


 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga