Reiðtúr um sandfjörur
Í Neðri-Tungu í Örlygshöfn reka þau Unnur. M. Hreiðarsdóttir og Róbert Rúnarsson einu hestaleiguna í Vesturbyggð. Örlygshöfn er við Patreksfjörð og þegar komið er að sunnan, er keyrt sem leið liggur í átt að Látrabjargi. Ekið er framhjá minjasafninu á hnjóti og skömmu síðar er komið að vegamótum, þar sem vísað er á Neðri-Tungu.
„Við getum tekið sex til sjö manna hópa, jafnvel fleiri í ferðir okkar,“ segir Unnur, „og bjóðum upp á leiðsögn ef fólk óskar þess. En ef fólk þekkir til hér og vill leigja sér hesta til að fara um svæðið, þá er það í góðu lagi - en yfirleitt förum við með. Við förum í styttri ferðir niður í fjöruna og ríðum um sandinn. Slíkar ferðir taka frá einum upp í tvo tíma. Það fer dálítið eftir veðri. Síðan erum við með lengri ferðir og förum yfir í Sauðlauksdal. Þær ferðir taka allt upp í sex tíma.“

Hestaleigan í Örlygshöfn hefur verið starfrækt í fimm ár og er opin á sumrin, frá 1. júní og fram í lok ágúst. Unnur segir starfsemina hafa gengið ágætlega - þótt veður ráði því hvort fólk velji hestaferðir úr þeim möguleikum sem eru á afþreyingu í Vesturbyggð. „Ef það rignir er fólk ekki mikið að fara í hestaferðir,“ segir hún – en fyrir þá sem finnst gaman að skreppa á bak, er reiðtúr um sandinn ævintýri líkastur. 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga