Hornstrandirnar heilla

Hornstrandir hafa í seinni tíð fengið á sig dulúðugan blæ. Með myndum eins og Börnum náttúrunnar hefur fólk fengið æ meiri áhuga á að kynnast þessu merka svæði. Í tímaþröng nútímans er því tilvalið að taka sér einn dag og fá örlítið sýnishorn af því hvernig fjöllin, húsin, gróðurinn og fjarlægðin frá gsm-sambandinu spila saman. 


Frá Jökulfjörðum.

Siglt er frá Ísafirði að Sæbóli í Aðalvík. Genginn er Staðardalurinn að kirkju sem þar stendur. Gengið er þaðan upp Fannadal og inn Hesteyrarbrúnir að Hesteyri. Á leiðinni sést vel um Djúp, Jökulfirði og upp á Drangajökul. 
Aðalvík er þrungin sögu og til dæmis er víkin umkringd tveim herstöðvum úr seinna stríði, auk þess sem Hesteyri er merkileg með sína hvalveiðistöð, svo fátt eitt sé nefnt. Dagsferð á Hornstrandir er tiltölulega létt ganga. Nauðsynlegt að hafa með sér nesti, gönguskó og skjólfatnað. Gott er að koma með vaðskó og flugnanet, en hið síðarnefnda er hægt að kaupa í bátnum á leið norður. 
Í Hornvík er náttúrufegurðin engu lík og víkin er umgirt stærstu fuglabjörgum Íslands. Í þessari ferð gefst m.a. tækifæri til að ganga á Hornbjarg og skoða stórkostlegt fuglalíf og búskap refa í friðlandinu. Á góðum degi sést alla leið suður að Geirólfsnúpi af bjarginu. Ferðin tekur um 12 tíma og þar af er dvalið í Hornvík í um 6 tíma. Farþegar þurfa að hafa með sér nesti, skjólgóðan fatnað og auðvitað myndavélina. 
Hornbjarg er strandberg austast á Hornströndum, eitt mesta fuglabjarg landsins. Hæstur tinda þar er Kálfatindur. Jörundur er norðar og líkist manni þegar horft er frá Hælavíkurbjargi. Hann er sagður bera nafn fyrsta landnámsmannsins á Horni. Hornbjarg hét. 
Í Flateyjarbók er sagt frá Þormóði Kolbrúnarskáldi og Þorgeiri Hávarssyni, er þeir voru á ferð á Hornbjargi og Þorgeir hrapaði. Hann greip í hvönn á leiðinni og hélt sér þar þangað til Þormóður kippti honum upp. Hornbjarg og Hælavíkurbjarg umlykja Hornvík. Hornbjarg að austan en Hælavíkurbjarg að vestan. Vestan Hælavíkurbjargs er Hælavík en austan Hornbjargsins er Látravík og Hornbjargsviti.
Hælavíkurbjarg er þverhníptur hamraveggur sem rís í 258 metra hæð. Bjargið dregur nafn sitt af klettadrangi sem stendur upp úr sjónum framan við bjargið og heitir Hæll. Annar drangur við hlið hans heitir Göltur. Í Hælavíkurbjarg austanvert gengur dalhvilftin Hvannadalur. Neðan við hann ganga fallegir berggangar, Langikambur og Fjöl, með þrönga vík sem heitir Kirfi á milli. Skammt frá, undir bjarginu er þriðji berggangurinn, Súlnastapi, sem stendur í sjónum laus frá bjarginu. Ein frægasta urð Hælavíkurbjargs er Heljarurð en sagan segir að hún hafi fallið á átján Englendinga sem höfðu stolist í bjargið eftir nytjum. 
Var sagt að hinn færgi galdramaður Hallur á Horni hafi verið ábyrgur fyrir skriðunni. Að Látrabjargi undanskildu eru Hornbjarg og Hælavíkurbjarg mestu fuglabjörg landsins. Á vorin verpa þar fjölmargar tegundir bjarg- og sjófugla. Einnig eiga aðrar tegundir fugla sér varpstaði í grasbölum og urðum sem myndast hafa ofan og neðan við björgin. Þegar á heildina er litið er mestu svartfuglabyggð á landsins að finna í Hælavíkurbjargi en Hornbjarg er talið aðalbústaður langvíu, en auk þeirra má sjá stuttnefju, máva og ritu í milljónatali. 
Aðrar fuglategundir sem er vert að nefna er hvítmávur, álka, fýll, æðarfugl, svartbakur, hávella, toppönd, óðinshani, lundi og teista. Hornbjarg er þéttsetnast af fugli á Jörundi og í þræðingum Dyraskarða sem liggja milli hans og Kálfatinda.

Myndband frá Hornstöndum eftir Jón Ó Sigurjónsson tannlækni sjá hér


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga