Perlan í Djúpinu

Ferðir út í Vigur á Ísafjarðardjúpi eru með vinsælli ferðum sem Vesturferðir bjóða upp á. Í Vigur eru byggingar sem margar hverjar voru reistar á 19. öld. Elst er vindmylla sem var byggð í kringum 1840 og var síðast notuð árið 1917

Myllan var í eigu ábúenda fram til ársins 1983 en þá afhentu þeir Þjóðminjasafni Íslands hana til eignar og varðveislu. Viktoríuhús var byggt í Vigur árið 1862 af Sumarliða Sumarliðasyni gullsmið fyrir eiginkonu hans, Mörtu Kristjánsdóttur. Viktoríuhús var flutt inn frá Noregi og þótti á sínum tíma afar vandað og mikið hús. Það dregur nafn af Viktoríu Kristjánsdóttur sem bjó í húsinu á árunum milli 1890 og 1900.
Árið 1992 gerði Þjóðminjasafnið húsið upp og byggðu ábúendur við það gestastofu sem nýtt er til ferðaþjónustu á sumrin. Í Vigur er einnig happafleytan Vigur-Breiður, áttæringur sem hefur verið í eynni frá því um aldamótin 1800. Vigur-Breiður var þar til fyrir skömmu notaður á hverju ári. Gamlar sagnir eru til um bátinn frá 1829, er hann var notaður til að sækja rekavið norður á Strandir. 
Vigurmenn hrepptu fárviðri á bakaleiðinni og þeir urðu að hleypa Vigur-Breiði upp í Skálavík ytri. Engin slys urðu á bátsmönnum en báturinn skemmdist þó nokkuð. Vigur-Breiður er notaður á hverju ári við að flytja fé í land og út í eyju. Hjá Vesturferðum er boðið upp á sex ólíkar ferðir, flestar dagsferðir. Meðal annars er boðið upp á morgunkaffiferð, hádegisverðarferð og kvöldverðarferð. Allt árið er boðið upp á ferð sem nefnist Póstferðin í Djúpið en vinsælasta ferðin er Perlan í Djúpinu. Nýjasta ferðin í sumar er svo Ljósmyndaferð í Vigur.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga