Á söguslóðum á Hesteyri
Á Hesteyri byggðist upp þyrping húsa á síðustu öld þegar Norðmenn byggðu þar síldar- og hvalveiðistöð árið 1894. Mörg þeirra húsa standa enn í dag, s.s. gamla skólahúsið, búðin og læknishúsið. 

Á Hesteyri hefur, eftir að ábeit sauðfjár var hætt, orðið æ gróðursælla með hverju árinu og fuglalífið er líka fjölskrúðugt. Selir eru tíðir gestir á staksteinum í firðinum og óteljandi fossar berja hlíðirnar inn eftir öllum firðinum. 
Bátsferðin yfir tekur rúman klukkutíma og að liðinni klukkustundar langri gönguferð um eyrina, þar sem komið er meðal annars við í kirkjugarðinum, eru kaffiveitingar á borð bornar í læknishúsinu. Ferðin tekur alls 4-5 tíma. 
Brottför: Mið, fös, sun (27/6-19/8) Tími: 14:00 Lengd ferðar: 4-5 klst. Innifalið: Bátsferð, leiðsögn og kaffiveitingar í Læknishúsinu. Verð: 4.700,a- 

Kajakferðir á Pollinum Kajakíþróttin hefur undanfarin ár rutt sér til rúms svo um munar. Marga dreymir um að fara í stutta siglingu og nú er tækifærið til þess. Hvernig væri því að smella sér á kajak í Skutulsfirði í tvo til þrjá tíma í fallegu umhverfi? Fátt er betra til að komast í snertingu við náttúruna og fuglalífið en kajakróður, enda eru kajakar hljóðlát fley og lipur. 
Kajakróður er auðveldur öllum sem hann reyna. Þátttakendur fá stutta leiðsögn í róðri og öryggismálum áður en haldið er af stað. Enginn ætti að hræðast kajakróður, enda öryggi tryggt og róðurinn allur innfjarða. Ísafjörður hefur á síðustu árum skipað sér sess sem kajakmiðstöð Íslands og æfa margir bestu ræðarar landsins á Ísafirði. Brottför: Daglega (Bóka þarf a.m.k. með dagsfyrirvara - Lágm. tveir.) Tími: 8:30 Lengd ferðar: Um 2 tímar Innifalið: Kajak og leiðsögn Verð: 5.500
 
Sjóstangaveiði Í Súðavík, Bíldudal og Tálknafirði er hægt að leigja sjóstangveiðibáta. Veiðistangir og annar búnaður er útvegaður á staðnum og það eina sem þarf að taka með er góða skapið. Brottför: 15 maí - 15 september Innifalið: Bátur, sjóstöng. Verð: Fimm manna bátur: 10.000 fyrir dag, 65.000 fyrir viku. 

Bátsferð í Skáleyjar með leiðsögn Skáleyjar eru eina eyjaröðin á Breiðafirði sem er enn í byggð fyrir utan Flatey. 
Siglt er frá Stað á Reykjanesi út í eyjarnar og þar farið í gönguferð með ábúendum sem segja frá staðháttum. Loks er dúnhreinsunarstöðin skoðuð. Hægt er að fara frá Stað til Flateyjar eða frá Skáleyjum til Flateyjar gegn aukagjaldi. Brottför: Miðvikudaga, laugardaga og sunnudaga (17/6-5/8 2007). 7 manna hópar og stærri geta farið utan þessa tíma. Tími: Mið. kl. 17:00, lau. og sun. kl. 16:00 Lengd ferðar: 3-4 klst Innifalið: Bátsferð og leiðsögn. Verð: 4.500 kr. - (aukagjald fyrir Flatey) 

Stærsta leyndarmál Stranda?
Grímsey á Steingrímsfirði er stærsta eyja fyrir Ströndum. Þjóðsagan segir að Grímsey hafi orðið til þegar þrjú tröll ætluðu sér að grafa Vestfjarðarkjálkann frá meginlandinu. Í Grímsey var fyrrum býli og fram á 20. öld höfðu menn vetursetu þarna og verbúðir. Í upphafi 20. aldar voru refir aldir í eyjunni og síðan veiddir þegar mest fékk fyrir skinnið af þeim. 
Í eyjunni var reistur viti 1915 og síðan endurbyggður 1949, eftir að Þjóðverjar höfðu eyðilagt hann með loftárás í síðari heimsstyrjöld. Boðið verður upp á bátsferðir í Grímsey frá Drangsnesi sem er einungis 10 mínútna sigling. Gengið er um eyjuna með leiðsögn þar sem bæði sögu eyjunnar og fuglalífi er sérstakur gaumur gefinn. Ef veður er gott er siglt hringinn í kringum eyjuna að göngu lokinni og færi dýft í sjó. 
Brottför er að öllu jöfnu frá bryggju á Drangsnesi, en ekki frá Kokkálsvík sem er leguhöfn um 2,5 km fyrir utan bæinn. Grímsey er mikil fuglaparadís og ættu áhugamenn um fugla ekki að missa af þessu, en talið er að það séu um 800- 900 þúsund lundapör í eyjunni. Brottför: Fimmtudaga og sunnudaga (15/6 - 10/8 2007). 

Farið eftir óskum hópa.
 
Tími: 14:00 Lengd ferðar: 3-4 klst Innifalið: Bátsferð og leiðsögn um eyjuna. Verð: 3.900 Hestaferð í Heydal 
Heydalur er kjarri vaxinn og eftir botni hans liðast Heydalsá með smáfossum og flúðum. Í dalnum eru nokkur stór gil sem setja svip á umhverfið. Styttri ferð: Riðið er um dalinn í einn til tvo tíma. Hentar vel fyrir óvana. Brottför: kl. 10.00 og kl. 14.00 Verð: 4.000. Tilboð fyrir hópa. 
Lengri ferð: Farið er inn í dalinn og upp á heiði fyrir ofan dalinn að Ausuvatni þar sem fallegur og bragðgóður urriði bíður þess að bíta á agnið. Brottför: 09:00. Lengd: 5-6 tímar. Innifalið: Hestur, leiðsögn, nesti, veiðileyfi og veiðistöng. Verð: 12.000. Tilboð fyrir hópa. Tími: 15.06 - 31.09.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga