Bíldudalur: Bíldudals Grænar Baunir
Fjölskylduvæn hátíð á Bíldudal
Á Bíldudal er bæjarhátíð haldin annað hvert ár og svo skemmtilega vill til að hún verður einmitt haldin í ár. Hátíðin kallast Bíldudals Grænar Baunir og stendur yfir dagana 29. júní-1. júlí.
Þetta er í þriðja sinn sem hátíðin er haldin og það sem er hvað sérstakast við hátíðina er að öll skemmtiatriðin eru í umsjón Arnfirðinga, brottfluttra sem og búandi. Eins og allar almennilegar hátíðir hefst hátíðin á fimmtudagskvöldi en þá verður golfmótið Hamagangur á Hóli haldið og hægt verður að fara í miðnætursjóferð um Arnarfjörðinn. 

Á föstudeginum hefjast hátíðarhöldin klukkan 13:00 með fótboltamóti. Seinna um daginn er svo púttkeppni, krakkarnir geta komist í hoppkastala og klukkan 20:00 er hátíðin síðan sett. Eftir það er vísnakvöld og harmonikkutónleikar. Á laugardeginum verður hægt að fara og skoða grafreit í Hringsdal frá þjóðveldisöld. Eftir það bjóða íbúar Bíldudals gestum og gangandi inn í kaffi. Yfir daginn verður hægt að gera góð kaup í markaðstjaldinu og leikfélagið Baldur sýnir leikritið Rauðhetta og úlfurinn í tvígang, fyrst klukkan 11:00 og aftur klukkan 13:00. 
Aftur komast krakkarnir í hoppkastala og röð örtónleika verða hér og þar um þorpið. Klukkan 14:00 geta krakkarnir tekið þátt í karókíi á aðalsviðinu. Klukkan 13:00 verða körfuskot með tónlist, stöðvar, leikir og þrautir og kappakstursmót. Einnig verður þá opnað safnasýningar. Klukkan 15:00 verður keppt í Vestfjarðarvíkingnum. Um kvöldið verður svo langeldagrill og langeldasöngur og deginum lýkur með tónleikum á aðalsviði. 
Á sunnudeginum er hægt að kíkja í guðsþjónustu í Bíldudalskirkju. Klukkan 12:00 verður gróðursetning í Hátíðarlundi og kallast sú athöfn Festu rætur á Bíldudal. Helginni lýkur svo á dorgkeppni á bryggjunni. 
Bíldudals Grænar Baunir er mjög fjölskylduvæn hátíð og er margt og mikið í boði fyrir yngstu kynslóðina. 
 
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga