Greinasafni: Söfn
Skemmtilegt safn Melódíur minninganna
Jón Kr. Ólafsson á Bíldudal hefur byggt eina dægurtónlistarsafnið á Íslandi
Melódíur minninganna á Bíldudal er án efa eitt skemmtilegasta safn landsins. Safnið, sem var opnaði 17. júní árið 2000 hefur að geyma fjölda gripa úr dægurtónlistarsögu Íslands; hljómplötur, plaköt, fatnað, skó, og skartgripi, svo eitthvað sé nefnt – og ekki er eigandinn, Jón Kr. Ólafsson til að eyðileggja heimsókn á safnið, því hann er heill hafsjór af upplýsingum um íslenska dægurtónlistarsögu frá upphafi.

Jón Kr. Ólafsson
í safninu
 
Ljósmynd: Dórothee Lubecki

„Ég opnaði safnið á þjóðhátíðardaginn okkar og afmælisdag, vinar míns, Svavars Gests sem hefði orðið áttræður í fyrra,“ segir Jón og bætir við: „En ég er búinn að vera mikið lengur að safna gripunum sem hér eru. Ég byrjaði skipulagða söfnun þó ekki fyrr en fimm til sex árum áður en safnið opnaði og ég er búinn að leggja alveg ótrúlega vinnu í þetta. Efniviðurinn var ekkert hér hinum megin við götuna. Ég var með tvo útsendara í Reykjavík – sem var mér mikils virði – en öll hlaupin og allur kostnaðurinn og snúningarnir í kringum þetta hafa verið alveg geggjuð. Ég var að vinna í rækjuvinnslunni hér í Bíldudal.“ 
Langir vinnudagar 
„Ég fór að vinna klukkan fimm á morgnana og til tólf á hádegi. Þá fór ég heim, fékk mér að borða og lagði mig síðan í klukkutíma áður en ég hóf vinnudag við safnið. Á meðan ég var við vinnu á morgnana var ég búinn að ákveða hvaða uppsetningar ég ætlaði að vinna þann og þann daginn. Ég var eins skipulagður og hægt var og er heldur betur að bæta við síðan. Nú er ég að athuga hvort ég get ekki fengið húsnæði úti í bæ, vegna þess að mig vantar geymslu. Ég þarf að stækka safnið, bæta við herbergi sem ég hef notað sem geymslu. 
Ég er með miklar uppsetningar, bæði myndir, plötur, plaköt, föt og skartgripi frá íslensku tónlistarfólki. Þetta væri allt farið á haugana ef ég hefði ekki safnað þessu. Og safn af þessu tagi er hvergi til annars staðar á landinu.“ Dægurtónlist hefur verið áhugamál Jóns frá fyrstu tíð „og ég hef alveg gersamlega gert þetta allt upp á mína buddu,“ segir hann. „Ég er ekki með neina styrki, er ekki á ríkisjötunni, hef ekki verið kostaður af Landsbanka eða neinum fyrirtækjum.“ 

Kjólar, skart og skór 
Á safninu gefur meðal annars að líta tónleikakjóla af Ellý Vilhjálms – sem hefur alla tíð verið í einstöku uppáhaldi hjá Jóni – Helenu Eyjólfs, Diddú og Svanhildi Jakobs. Þar er einnig hinn frægi rauði jakki af Hauki Morthens „og ekki má gleyma pallíettudressi af Hallbjörgu Bjarnadóttur og rosalega flottum skartgripum sem hún átti,“ segir Jón. „Svo er ég með jakkaföt af vini mínum, Ragnari Bjarnasyni – hinum eina og sanna, auk þess sem ég á skó af þessu fólki.“ Á liðnu hausti hélt Jón tónleika í FÍH salnum til styrktar safninu og fyllti salinn. „Þarna komu saman eðalsöngvara og hljóðfæraleikar sem unnu allt frítt,“ segir hann. „Þá var mér færður gullhringur sem Ellý Vilhjálms hafði átt, með grænum safírum. Þetta sagði mér að til væri fólk sem gæti hugsað lengra en fram fyrir tærnar á sér.“ Það er ekki erfitt að finna Melódíur minninganna – og þeir sem eru á leið út í Selárdal, keyra framhjá húsinu.

Í tónlistarsafni
Jóns Kr. Ólafssonar 
Ljósmynd: Dórothee Lubecki 

Á safninu er ótrúlega mikið af forvitnilegum og áhugaverðum hlutum sem gaman er að skoða. „Við erum alltaf að tala um menninguna, en svo hendum við öllu á haugana,“ segir Jón. „Ef ég hefði ekki safnað þessu, væri þetta allt horfið.“ Og það verður að viðurkennast að það er líklega rétt hjá honum. Safnið er opið á sumrin frá hádegi til klukkan 18.00 en Jón er ekki svo strangur á því. „Ég afgreiði fólk á öllum tímum vegna þess að ég fer varla út fyrir garðinn á sumrin.“ 
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga