Við rætur vestfirsku alpanna
Þingeyri er elsti verslunarstaður á Vestfjörðum 
 
Þingeyri – stendur miðja vegu við sunnanverðan Dýrafjörð og er elsti verslunarstaður á Vestfjörðum og reyndar einn sá elsti á landinu öllu. Náði hann um tíma frá Ísafjarðardjúpi og yfir alla Vestur-Barðastrandarsýslu.

Þingeyri

Stendur þorpið á samnefndri eyri undir Sandafelli, við rætur „Vestfirsku alpana“, en svo er fjallgarðurinn milli Arnarfjarðar og Dýrafjarðar stundum kallaður. 
Dýrafjörður hefur verið mikilvæg höfn frá þjóðveldistíma. Í þá daga var Dýrfirðingagoðorð eitt þriggja goðorða á Vestfjörðum og venja var að Vestfjarðargoðin kæmu saman á vorin á Dýrafjarðarþingi áður en riðið var til Alþingis. Eins og nafnið Þingeyri bendir til er líklegt að þingið hafi verið háð á eyrinni þar sem kauptúnið er nú. Á Sturlungaöld var Dýrfirðingagoðorð undir yfirráðum Sighvats Sturlusonar og sona hans. 
Á síðmiðöldum var það síðan aukin skreiðarverslun sem hélt uppi mikilvægi Dýrafjarðar sem verslunarhafnar Verslun hélt áfram í Dýrafirði næstu aldirnar. Á eftir Norðmönnum fylgdi verslun Englendinga, síðan Þjóðverja og að lokum Danir sem einokuðu verslunina í valdi konungs. Þá hafði mikilvægum höfnum vítt og breitt um Vestfirði fjölgað, en Þingeyri hélt áfram að vera mikilvægasta fiskihöfnin á Vestfjörðum með verslunarumdæmi sem taldi á þriðja þúsund manns á svæði sem náði frá Önundarfirði að Suðurfjörðum Arnarfjarðar. 
Föst búseta hefur verið á Þingeyri frá lokum 18. aldar, en þéttbýli byrjaði fyrst að myndast þegar Daninn N. Chr. Gram keypti Þingeyrarverslun árið 1866. Hann var mikill athafnamaður og byggði mörg af fyrstu húsum kauptúnsins, m.a. myndarlegt verslunarhús árið 1872 sem nú hýsir Kaupfélag Dýrfirðinga. Gram var jafnframt konsúll Norðmanna, Bandaríkjamanna og Frakka. 
Norski landkönnuðurinn Fridtjof Nansen og menn hans gistu í verslunarhúsinu árið 1888 þegar hann og menn hans biðu eftir skipsferð til Grænlands. Á þessum árum var m.a. rekið seglsaumaverkstæði og lýsisbræðsla á Þingeyri og jafnan voru tvær skútur gerðar út á hákarl. Á síðasta áratug 19. aldar stunduðu Bandaríkjamenn lúðuveiðar hér við land og höfðu bækistöðvar fyrir skip sín á Þingeyri.
Franskar duggur voru tíðir gestir og Norðmenn settu upp hvalstöð í Framnesi andspænis Þingeyri. Fyrir ofan bæinn stendur fjallið Sandafell, hægt er að aka þangað upp og njóta stórfenglegs útsýnis. Þar uppi er útsýnisskífa. Hæstu fjöll Vestfjarða liggja að Dýrafirði og eru mörg þeirra brött og hrikaleg. 
Gísla saga Súrssonar gerist að verulegu leyti í firðinum. Á Þingeyri sést marka fyrir tóftum sem talið er að geti verið fornar búðatóftir Dýrafjarðarþings. Við bæinn Ketilseyri innar í firðinum er að finna tertíerjarðlög með plöntusteingervingum í norðurhlíð fjallsins Töflu. Við botn fjarðarins er stórbrotið landslag með jökulhvilftum, árgljúfrum og fjölskrúðugu kjarr- og skóglendi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga