Síðasti bærinn í dalnum

Í Heydal hefur fjósinu verið breytt í gistiherbergi og hlöðunni í matsal

Ferðaþjónustan í Heydal í Mjóafirði á sér ekki langa sögu en nýtur nú þegar mikilla vinsælda. Dalurinn, sem er sex kílómetra langur, er mjög gróinn og eftir honum liðast áinn. Það er óhætt að segja að umhverfið sé fallegt og friðsælt, þar sem enginn annar bær er í dalnum. 

Stella Guðmundsdóttir

Það var árið 2000 sem hjónin Pálmi Gíslason og Stella Guðmundsdóttir keyptu bæinn, ásamt sonum sínum. Þau áttu fyrir landið Galtarhrygg, í dalnum hinum megin við fjörðinn þar sem þau ætluðu að vera með skógrækt og fiskirækt. „Svo ákvað bóndinn hérna megin að bregða búi,“ segir Stella, „og við ákváðum að kaupa það.“ En það fer ekki allt eins ætla mætti. Í dag býr Stella ein í dalnum, ásamt starfsfólki sínu. Pálmi er fallinn frá og synirnir, sem hafa tekið fullan þátt í uppbyggingunni, búa fyrir sunnan, ásamt tveimur hluthöfum sem komu inn í hana.

Heydalur

Meiri vinna en við áttum von á 
Hlutafélagið sem stóð að Heydal ákvað fljótlega að ráðast í ferðaþjónustubúskap. Fjósið var innréttað og breytt í gistiherbergi, sem öll eru með sérbaðherbergi og hlöðunni var breytt í sal sem tekur hundrað manns í sæti. Einnig var borað eftir heitu vatni sem gerir Stellu kleift að hafa opið allt árið. En hvers vegna breyttu þau fjósi og hlöðu í stað þess að byggja nýtt? „Við fórum að spá í hvað við ættum að gera við útihúsin og þetta varð niðurstaðan,“ segir Stella. 
„Við vissum sem betur fer ekki hvað þetta var mikil vinna. Þetta hefur verið afskaplega skemmtilegt en ég er ekki viss um að við hefðum farið út í þetta ef við hefðum áttað okkur á því. Starfsemin hófst mjög smátt. Við tókum þessa ákvörðun haustið 2001 og vorið 2002 vorum við bara með herbergi leigð inni í húsi. 
Síðan höfum við smám saman verið að byggja okkur upp – og erum enn að. Við rekum staðinn sem heilsársþjónustu – en það koma afskaplega fáir yfir veturinn. Það er varla grundvöllur fyrir því að hafa opið, en þar sem ég bý á staðnum er það mögulegt. Ég er fyrrverandi skólastjóri úr Kópavogi – komin á eftirlaun – og get þess vegna leyft mér að leika mér svona.“ 

Hestaleiga og veiði í fjallavötnum 
Þjónustan sem í boði er í Heydalnum er nokkuð fjölbreytt og skemmtileg. „Við erum með hestaleigu, kajaka og veiði í fjallavötnum, góðar gönguleiðir og heitan náttúrupott. Við förum alltaf með á hestbak. Þetta eru stuttar ferðir, rúmur klukkutími. Síðan bjóðum við upp á dagsferðir í Ausuvatn þar sem hægt er að veiða í leiðinni. Þar er mjög fallegur fiskur og vænn. Kajakana erum við með á Mjóafirði. 
Hann er svo langur og mjór að þar eru oftast miklar stillur þannig að hann er mjög öruggur – enda höldum við okkur við ströndina þegar við erum með óvant fólk. En þar fyrir utan leigjum við kajakana út til fólks sem er mjög vant.“ Helstu gönguleiðir segir Stella að séu inn dalinn. „Það er afskaplega fallegt hér innst í dalnum; þar eru gil þar sem eru bergstandar. Svo höfum við merkt leið úr Skötufirði yfir til okkar. 
Ef menn vilja fara enn lengra, þá er hægt að ganga frá okkur yfir í Dýrafjörð. Síðan er ganga yfir í Laugardalinn. Það er líka fallegt að ganga úr Húsadalnum og yfir til okkar, frá Botni.“

Veitingasalurinn í Heydal

Tjaldstæði og svefnpokapláss 
Fyrir utan gistingu í húsi er boðið upp á tjaldstæði í Heydal og þar er leiksvæði fyrir börn og unglinga – og talandi páfagaukur sem vekur mikla athygli. Á tjaldstæðinu er bæði salerni og sturtur – en ekki þvottaaðstaða. 
„Ef fólk hefur þurft á því að halda, höfum við tekið þvottinn fyrir það og þvegið hann en ekki verið með sérþvottavél fyrir tjaldstæðið.“ segir Stella. Hvað nýtingu á tjaldstæðinu varðar, þá segir hún alltaf svolítið um tjaldferðalanga en nokkuð mikið hafi verið um um að í Heydalnum hafi verið haldin ættarmót og þá séu sumir í gistingu, aðrir í tjöldum. 
Auk þessara gistimöguleika er boðið upp á svefnpokagistingu í sumarbústað. „Ég held að ég megi segja að þeir sem koma sé mest sé fólk sem er flutt frá Vestfjörðum, á rætur hingað vestur,“ segir Stella þegar hún er spurð hvernig viðskiptavinahópurinn í Heydal sé samsettur og bætir við: „Íslendingar eru langfjölmennasti hópurinn hingað til – en í sumar virðist verða breyting þar á því það er mun meira bókað af útlendingum en verið hefur.“ 
 


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga