Blómlegt leiklistarstarf

Ísafjarðarbær er ríkur af leikfélögum og eru þar starfrækt þrjú áhugaleikfélög og eitt atvinnuleikfélag.

Fyrsta atvinnuleikhúsið á Ísafirði var stofnað árið 1997 og kallast Kómedíuleikhúsið. Á fyrsta starfsári leikhússins voru frumsýnd þrjú leikverk eftir meðlimi í Kómedíuleikhúsinu en síðan árið 2001 hefur það einungis sýnt einleiki og fer gott orð af þeim uppsetningum. 
Flestir einleikirnir eru eftir meðlimi leikfélagsins. Kómedíuleikhúsið stendur einnig fyrir einleikjahátiðinni Act Alone sem hefur verið haldin árlega síðan árið 2004. 


Skrímsli

ACT ALONE
 
Act alone er eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi. Hátíðin hefur vaxið hratt á þessum þrem árum sem eru síðan hún var haldin fyrst og í fyrra voru sýndir 13 einleikir og voru námskeið haldin. Í sumar verður hátíðin haldin dagana 27. júní - 1. júlí og er margt á dagskránni. Sautján einleikir verða sýndir, þar á meðal gestasýningar frá Eistlandi og Danmörku, og má nefna af íslensku sýningunum The Secret Face, Píla pína og Skrímsli, en Kómedíuleikhúsið frumsýndi í vetur verkið Skrímsli. Einnig verða tvö námskeið í boði, annað í einleik og hitt í brúðuleikhúsi. Heimildamyndin Leikur einn verður sýnd, málþing verður um einleikjaformið og fyrirlestur verður um þekkta einleikara, svo eitthvað sé nefnt. 

Litli leikklúbburinn
 
Litli leikklúbburinn er áhugaleikfélag og var stofnað árið 1965. Það er enn starfrækt en hefur verið í húsnæðiskröggum undanfarið en nú virðist sem allt sé að leysast í þeim málum og að leikfélagið fái framtíðarhúsnæði í Edinborgarhúsinu. Sýningar leikfélagsins hafa verið vinsælar og árið 2003 var sýning þeirra, Söngvaseiður, valin athyglisverðasta áhugaleiksýning ársins af nefnd Þjóðleikhússins og var því sýnda þá um vorið á stóra sviði Þjóðleikhússins.

Leikfélagið Hallvarður súgandi
 
Eins og nafnið gefur í skyn er leikfélagið staðsett í Súgandafirði, nánar tiltekið á Suðureyri. Leikfélagið var stofnað árið 1982 en hafði áður heyrt undir íþróttafélaginu Stefnir. Á árunum 1989- 1998 lagðist starfsemi leikfélagsins af en var svo endurvakið og hefur starfað óslitið síðan. Stefna leikfélagsins er að sýna að minnsta kosti eitt verk á ári og síðustu ár hafa verkin oftast verið frumsýnd á Sæluhelginni sem haldin er hvert sumar og markast upphaf hátíðarinnar af frumsýningunni. 

Leikfélag
Flateyrar 
Leikfélag Flateyrar var stofnað upp úr 1950 og er, eins og segir í nafni þess, staðsett á Flateyri. Það varð til upp úr líku starfi íþróttfélagsins Gretti og kvenfélagsins á Flateyri. Frá 1980-1998 var félagið mjög öflugt en síðustu misseri hefur starfsemin verið stopulli. Þó slæðist inn eitt og annað á vegum félagsins. 
 
.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga