Minjasafn Jóns Sigurðssonar
Minjasafn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð er opið alla daga klukkan 13.00 til 20.00 frá 17. júní til 1. september.

Jón Sigurðsson forseti fæddist að Hrafnseyri 17. júní 1811. Árið 1911 var reistur að Hrafnseyri bautasteinn með andlitsmynd af forsetanum eftir Einar Jónsson myndhöggvara. Á safninu er ljósmyndasýning um líf og starf Jóns og fæðingarbær hans hefur verið endurgerður. 
Faðir Jóns var prestur og hjá honum lærði Jón til stúdents. Hann var síðan sendur, átján ára gamall, til Reykjavíkur þar sem hann tók stúdentsprófið. Árið eftir stúdentspróf vann Jón við verslunarstörf en síðan var ráðinn skrifari hjá Steingrími Jónssyni, biskupi í Laugarnesi. 
Í Laugarnesi fékk Jón áhuga á gömlum handritum, og áhugi hans á fornfræði og sögu vaknaði, en auk stjórnmálaafskipta helgaði hann líf sitt þeim málum. Árið 1833 lofaðist hann Ingibjörgu Einarsdóttur og sama ár fór hann út til náms í Kaupmannahafnarháskóla. 
Ingibjörg sat heima í festum í tólf ár en þau giftust ekki fyrr en Jón kom aftur til landsins 1845. 
Stuttu eftir komuna til Kaupmannahafnar tók Jón að sér störf fyrir Árnastofnun, Bókmenntafélagið, Fornfræðifélagið og fleiri. Viðurnefnið forseti fékk Jón af því að hann var forseti Hins íslenska bókmenntafélags. 
Jón lagði kapp við að safna bókum og handritum er vörðuðu Ísland og var safnið keypt til Landsbókasafnsins árið 1877. Jón var kosinn þingmaður Ísfirðinga 1844 og hélt því þingsæti til dauðadags. Hátindi ferils síns náði Jón á þjóðfundinum 1851 en þar kom hann fram sem fremsti leiðtogi þjóðarinnar og á næstu áratugum eftir lagði hann grunninn að þjóðfrelsisbaráttu Íslendinga og sótti fast fram. 
Með stöðulögunum 1871 og stjórnarskránni 1874 fengu Íslendingar flest þau réttindi sem Jón Sigurðsson hafði barist fyrir í yfir 20 ár. 
Jón Sigurðsson lést í Kaupmannahöfn 7. desember 1879 og Ingibjörg, kona hans níu dögum síðar. 
Þau eru jarðsett í kirkjugarðinum við Suðurgötu í Reykjavík. Fæðingardagur Jóns var síðar valinn sem þjóðhátíðardagur Íslendinga. Hrafnseyri er kennd við Hrafn Sveinbjarnarson sem var höfðingi á 12.-13. öld. 
Um hann má fræðast nánar í Sturlungu og Biskupasögum, en samkvæmt þeim ritum mun Hrafn hafa verið eitt mesta stór- og göfugmenni Íslandssögunnar. Hann er einnig talinn fyrsti menntaði læknir á landinu, var lærður bartskeri frá Salerno á Ítalíu. Hrafn byggði virki umhverfis bæ sinn en engar minjar sjást nú um þá framkvæmd. Þó er talið að sjáist votta fyrir jarðgöngum niður úr bökkum fyrir neðan bæinn, en þessar minjar eru nú allar friðlýstar. 
Veitingasala og minjagripabúð er á safninu.
 
 Minjasafn Jóns Sigurðssonar Minjasafn Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð er opið alla daga klukkan 13.00 til 20.00 frá 17. júní til 1. september.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga