Þingeyrarkirkja

Þingeyrarkirkja var byggð á árunum 1909-1911 og vígð 9. apríl 1911. Áður stóðu kirkja og prestsetur á Söndum í Þingeyrarhreppi og höfðu staðið þar frá því snemma á 13. öld. Árið 1907, þegar ljóst var að byggja þurfti nýja kirkju, var ákveðið að færa kirkjuna inn á Þingeyri, því að kauptúnið var þá að byggjast upp og íbúar í Sandasókn voru 618.

Þingeyrarkirkja.
Ljósm: Sigmundur Þórðarson.

Prestsetrið var flutt til Þingeyrar árið 1915. Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari teiknaði Þingeyrarkirkju og er hún úr steini í gotneskum stíl en að innan er hún prýdd fögru tréverki. Rögnvaldur Ólafsson var Dýrfirðingur og réð hann útliti og staðsetningu kirkjunnar á kirkjulóðinni, sem Gramsverslun á Þingeyri gaf undir kirkjubygginguna. Kirkjuna lét arkitektinn snúa í norður og suður en ekki í austur og vestur eins og viðtekin venja er og var hún látin snúa svo sem hún gerir til að bera vel við þeim sem koma af hafi til Þingeyrar.

Altaristaflan í
Þingeyjakirkju
.
Ljósm: Davíð Davíðsson.

Þingeyrarkirkja er vel búin gripum. 
Altaristöfluna málaði Þórarinn B. Þorláksson, listmálari og sýnir hún Krist sem situr úti í íslenskri náttúru og hjá honum standa þrjár telpur. Myndefnið er: Jesús blessar börnin. Fyrirmyndirnar að telpunum eru dætur málarans. Skírnarfontur er útskorinn af Ríkharði Jónssyni, myndskera. Hjónin Gréta Björnsson listmálari og Jón Björnsson málarameistari máluðu og skreyttu kirkjuna með ýmsum trúarlegum táknum árið 1961. 
Sandakirkja var á kaþólskum tíma helguð heilögum Nikulási og hefur listmálarinn málað mynd hans hér í Þingeyrarkirkju vinstra megin við altarið og Pétur postula hægra megin. Þrír steindir gluggar eru á korgafli eftir glerlistakonuna Höllu Haraldsdóttur. Tvær ljósastikur fornar á kirkjan frá árinu 1656 úr Sandakirkju og fleiri gripi þaðan. Þá á Þingeyrarkirkja gripi úr Hraunskirkju í Keldudal, sem er aflögð.

Ólafur Ragnar Grímsson,
sr. Guðrún Edda Gunnarsdóttir og 
Dorrit Moussaieff ganga út úr
Þingeyrarkirkju eftir hátíðarmessu.
Ljósm: bb.is

Frá upphafi hafa kirkjunni borist fjölmargar góðar gjafir. Í fjöldamörg ár var Ólafur Hjartar móðurafi Ólafs Ragnars Grímssonar, forseta Íslands, meðhjálpari í Þingeyrarkirkju. Á bernskuárum sínum fylgdi Ólafur Ragnar afa sínum oft til kirkju, en hann ólst upp að hluta til á Þingeyri hjá móðurforeldrum sínum. 
Til fróðleiks má geta þess að kirkjan á fagran altarisdúk, sem Svanhildur Hjartar, móðir forsetans saumaði og gaf kirkjunni. Kort með mynd af altaristöflunni eru til sölu í handverkshúsinu Gallerí Koltru – Upplýsingamiðstöð ferðamála, Hafnarstræti.
Höf: Guðrún Edda Gunnarsdóttir 

Sjá myndband hér um Þingeyrarkirkju

  Á vori 2011 verður Þingeyrarkirkja í Dýrafirði 100 ára. Hún var byggð á árunum 1909 - 1911 og vígð 9. apríl 1911. Áður stóð kirkja á Söndum utan og ofan við Þingeyri a.m.k. frá því á 13. öld. Árið 1909 var ákveðið að byggja kirkju á Þingeyri því að kauptúnið var að byggjast upp. Íbúar í Sandasókn voru þá 618.

Rögnvaldur Ólafsson arkitekt og húsameistari teiknaði Þingeyrarkirkju. Hún er steinsteypt í gotneskum stíl en að innan er hún prýdd fögru tréverki. Rögnvaldur var Dýrfirðingur og réð hann útliti og staðsetningu kirkjunnar á kirkjulóðinni, sem Gramsverslun á Þingeyri gaf undir kirkjubygginguna. Arkitektinn lét kirkjuna snúa í norður og suður en ekki í austur og vestur eins og viðtekin venja er og var hún látin snúa svo sem hún gerir til að bera vel við þeim sem koma af hafi til Þingeyrar.

Yfirsmiður við steypuvinnuna við kirkjubygginguna var Bergsveinn Jóhannesson en Jóhannes Ólafsson þáverandi hreppsstjóri var yfirsmiður við trésmíðina. Auk þeirra unnu sex menn í byggingavinnu með þeim.
Að söfnuðinum tókst að ljúka kirkjusmíðinni á svo skömmum tíma sem raun ber vitni er vegna þess hve margir lögðu á sig fórnfúst starf í sambandi við vinnu og fjáröflun. Sérstaklega vann sóknarnefndin vel og skipulega að öllum undirbúningi. Fjöldi fólks vann í sjálfboðavinnu við bygginguna. Ein leið til fjáröflunar var sú að hver sjómaður á þilskipum var fenginn til að gefa einn fisk úr róðri og hver trilla einn fisk. Þá voru sóknargjöld hækkuð um helming meðan verið var að greiða niður kostnað við bygginguna.

Þingeyrarkirkja er vel búin gripum enda hafa góðar gjafir borist kirkjunni frá upphafi. Altaristaflan, stórt olíumálverk frá 1911, var gjöf Gramsverslunar og er hún máluð af Þórarni B. Þorlákssyni, listmálara. Altaristaflan sýnir Krist sem situr úti í íslenskri náttúru og blessar þrjú börn sem hjá honum standa. Skírnarfontur er útskorinn af Ríkharði Jónssyni, myndskera, en skírnarskálin er forn skál úr Sandakirkju. Hjónin Gréta Björnsson listmálari og Jón Björnsson málarameistari máluðu og skreyttu kirkjuna með ýmsum trúarlegum táknum á fimmtíu ára afmælisárinu 1961. Þrír steindir gluggar eru á kórgafli eftir glerlistakonuna Höllu Haraldsdóttur. Kirkjan á tvær ljósastikur úr Sandakirkju frá árinu 1656 auk fleiri gripi þaðan.

Miklar endurbætur fóru fram á Þingeyrarkirkju á árunum 2001 - 2005 til þess að hún mætti standa sem ný á 100 ára afmælinu. Þingeyrarkirkja er friðuð og þess vegna varð að fara eftir reglum Húsafriðunarnefndar við endurbæturnar. Sóknarnefnd kaus endurbótanefnd sem hafði umsjón með framkvæmdunum ásamt arkitektum frá Húsafriðunarnefnd. Þingeyrarkirkja var endurbætt að utan og innan og fjölmargir afar vandvirkir iðnaðarmenn lögðu fram krafta sína við þessar framkvæmdir til þess að allt yrði sem best úr garði gert og það tókst. Öllum eru þökkuð þeirra góðu störf við endurbæturnar á kirkjunni. Þær voru mjög kostnaðarsamar en kirkjan naut velvildar margra m.a. Jöfnunarsjóðs og Húsafriðunarnefndar við endurbæturnar. Þingeyrarkirkja er fagurt hús og merkilegt guðshús frá mörgum sjónarhornum séð og nauðsynlegt er að henni sé haldið vel við svo að hún fái staðið og þjónað söfnuðinum um ókomna tíð.

Kórsöngur:
Kór Akraneskirkju syngur tvö lög.
Myndir: Raivo og Krista Sildoja
Sjá myndband hér


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga