Heitt vatn og veðursæld
Ferðaþjónustan R-nes við Ísafjarðardjúp

Í gamla heimavistarskólanum á Reykjanesi stýrir Guðbrandur Baldursson allstóru ferðabúi sem ber heitið Ferðaþjónusta R-nes. Hann tók við starfinu 1. febrúar síðastliðinn – og segist kominn vestur til að vera. Hann er fæddur og uppalinn í Vatnsfirði, hinum megin við hornið svo að segja og segir eigendur hótelsins hafa leitað til sín um reksturinn vegna þess að þeir hafi viljað fá heimamann til þess. 
Á Reykjanesi er aðstaða til að taka á móti gríðarstórum hópum, hvort heldur er í gistingu eða mat. „Við erum bæði með uppábúin rúm og svefnpokapláss í gamla heimavistarskólanum,“ segir Guðbrandur. „Herbergin eru misstór og í þeim eru ný amerísk rúm, allt upp í fjögur rúm í herbergi. Í gamla barnaskólanum eru stærri herbergi og í þeim er boðið upp á svefnpokapláss.“ Herbergjunum fylgja ekki sérbaðherbergi, heldur eru salerni á hverjum gangi og sturtuherbergi á milligangi, auk þess sem hægt er að bregða sér í sturtu í sundlauginni. Einnig eru setustofa og sjónvarpssalur í hótelinu, auk leikherbergis, til dæmis fyrir borðtennis.
„Við erum líka með ráðstefnusal sem er tilvalinn til námskeiðahalds og fyrirlestra,“ segir Guðbrandur og bætir við: „Við getum tekið á móti afar stórum hópum, til dæmis fjölmennum ættarmótum því við getum verið með 180 til 200 manns í mat í einu. Við höfum verið með 400 manna ættarmót. Þótt við höfum aðeins 82 rúm föst í húsinu, er hér gistipláss í húsi fyrir 140 til 150 manns og síðan annað eins á tjaldstæðinu.“ 
Og allir ættu að geta baðað sig vegna þess að við hótelið er sundlaug. „Hún er 52x12½ metri að stærð. Þegar hún var byggð árið 1925 var hún lengsta sundlaug á Íslandi og er það víst ennþá. Hér er mikill jarðhiti og vatnið sem kemur upp úr jörðinni 90 gráðu heitt. Matreiðsla var á sínum tíma kennd í skólanum á Reykjanesi. Þar er því eldhús sem gestir eiga aðgang að, án þess að nota aðaleldhúsið. 
Guðbrandur segir Farfugla, meðlimir alþjóðlegrar keðju fólks sem sér um sig sjálft og allan sinn mat á ferðalögum, fá aðstöðu í því eldhúsi. En hvað veitingar varðar, er í bígerð að ráða vana manneskju sem þá ákveður hvort boðið verður upp á rétti dagsins eða matseðil. Guðbrandur er bjartsýnn á sumarið og segir þverun fjarðanna koma til með að beina traffíkinni um hlaðið á Reykjanesi. Og þeim sem staldra þar við ætti ekki að leiðast. 
„Hér eru gönguleiðir um allt,“ segir Guðbrandur, „aðallega hér um Reykjanesið og hægt að fá leiðsögn um það. Síðan eru gönguleiðir um Snæfjallaströnd og Drangjökul og ekki langur akstur að komast að þeim. Síðan er hægt að fá sjóferð með leiðsögn um Djúpið, lengri og skemmri ferðir, út í Borgarey, Vigur og Æðey. Einnig er hér einstök aðstaða fyrir kafara. Sportkafarafélag Íslands með aðstöðu hérna. 
Í kringum nesið eru heitavatnshverir neðansjávar sem hafa myndað kóralrif í kringum sig. Þeir sem hafa tekið upp myndbönd hér neðansjávar, lýsa þessu sem mjög fallegu landslagi. Og auðvitað er aðstaðan fyrir kajakræðara einstök. Hér eru oft haldin kajak-róðranámskeið. Þá eru æfingar í sundlauginni, þar sem fólkinu er kennt að velta og snúa sér við og svo er róið hér út með. 
Það er mikil veðursæld hér, oft logn og mikil stilla á sjó, ekki mikið um hafrót og öldugang og kajakræðarar nýta sér það. En flestir virðist nýta sér staðinn sem heilsulind vegna aðstöðunnar sem heita vatnið og veðursældin bjóða upp á.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga