Greinasafni: Ferðaþjónusta
Fljótandi fjallakofi
Seglskútan Aurora flytur skíðafólk og göngugarpa, náttúruunnendur og kajakræðara milli hinna stórbrotnu fjarða á Vestfjörðum - og næst er það Grænland

Hugvitssemi Vestfirðinga virðast engin takmörk sett og þar hefur verið bryddað upp á mörgum nýstárlegum leiðum til að laða ferðamenn á svæðið. Á Ísafirði reka þeir Rúnar Óli Karlsson og Sigurður Jónsson seglskútuna Auroru, sem þeir gera út um gervalla Vestfirði mestan hluta ársins og geta því boðið upp á alla dýrðina, hvort heldur er í sól eða snjó. Aurora er sextíu feta seglskúta sem þeir Rúnar Óli og Sigurður nældu sér í fyrir ári síðan. 
„Skútan kom hingað í heimsókn vorið 2005 og um borð voru tveir fræknir kappar í þessum útivistar- og siglingabransa,“ segir Rúnar Óli. „Við Sigurður, sem er skipstjóri á skútunni, hittum þá og ræddum ýmsar hugmyndir. Það endaði með því að þeir seldu okkur skútuna.“ En hvers vegna seglskútu?
Skíði að vetri, fuglar að vori
 
„Við höfum gengið með þessa hugmynd í mörg ár; að gera út eina eða fleiri seglskútur þar sem leiksviðið er allt Norður Atlantshafið, austurströnd Grænland, Ísland, Jan Mayen og Svalbarði. Við höfum báðir lagt stund á ýmisskonar útivist; skíði, göngur, fjallamennsku og siglingar og fannst áhugavert að geta sameinað áhugamál og vinnu og geta boðið upp á ferðir á hinum ýmsu árstíðum. Við bjóðum til dæmis upp á skíðaferðir í apríl og maí þar sem við erum í Jökulfjörðum. 
Þetta eru ekki gönguskíðaferðir, heldur fyrst og fremst fjallaskíðaferðir þar sem leitað er að góðum skíðabrekkum og skíðað úr einum firði yfir í annan. Skipstjórinn flytur bátinn á milli fjarða á meðan ég er með fólkið á skíðum. Þessar ferðir hafa gengið mjög vel og það má eiginlega segja að það hafi verið fullt í þær frá 1. apríl.“ „Svo erum við með náttúruskoðunarferðir þegar fuglalífið er blómlegt á vorin, og þær nýtast vel til að skoða sjávarlífið, hvali og seli. 
Við erum með lítinn plóg og krabbagildrur til að geta náð í skeljar og krabba. Síðan erum við sjókajakferðir þar sem gist er um borð og skútan fylgir hópnum. Hún er eiginlega fljótandi fjallakofi. Þetta er konsept sem hefur verið að ganga mjög vel í norður Noregi og í Patagóníu – en er alveg nýtt hér á Íslandi Svo er auðvitað hægt að leigja bátinn með áhöfn hvert á haf sem er í lengri eða styttri ferðir.“ 

Skipstjórinn er eðalkokkur
 Aurora er stærsti seglbátur landsins. Í henni er pláss fyrir tíu gesti í fjórum káetum. Auk þess eru í henni borðsalur, eldhús, tvö salerni og sturta. Rúnar Óli segir hana þó ekki falla undir skilgreininguna lúxusbátur. „Ef við getum talað um lúxus,“ segir hann, „þá felst hann í því að við bjóðum upp á mjög góðan mat. Skipstjórinn er eðalkokkur og um borð er allt þurrt og snyrtilegt og náttúra Vestfjarða er auðvitað lúxus útaf fyrir sig.“ 
Aurora kemur sér vel fyrir þá sem vilja komast á fáfarnar slóðir, því eins og Rúnar Óli segir þá eru engir fjallaskálar sem hægt er að leigja í Jökulfjörðum og á Hornströndum. „Það er mjög lítið um gistingu en þarna erum við komnir með fljótandi gistiheimili.“ 
Og víst ætti enginn að vera banginn við að skella sér í ferð með Auroru. „Þetta er keppnisskúta sem er smíðuð í Bretlandi,“ segir Rúnar Óli „og hefur tekið þátt í fjórum keppnum hringinn í kring- um jörðina. Hún er því með mikla reynslu.“

Miklir möguleikar
 
Í sumar verður Aurora töluvert á ferðinni yfir til Grænlands, bæði að skutla fjallaleiðöngrum sem eru að fara að klifra hæstu fjöll landsins, sem og í sex daga ferðum sem fyrirtækið býður sjálft upp á. „Við bjóðum fólki upp á ferðir til að skoða þessa fallegu firði, borgarísinn og stórkostlegu fjöllin við austurströndina og það eru einungis 180 sjómílur yfir sundið.“ 
Rúnar Óli segir gesti Auroru skiptast nokkuð jafnt, til helminga Íslendingar og útlendingar – og þá helst Frakkar, Bandaríkjamenn, Kanadamenn og Bretar – enda hófst markaðssetningin í þeim löndum. Þegar hann er spurður hvort í bígerð sé að fjölga skipum, segir hann: „Það er alltaf draumurinn – en látum þetta dæmi fyrst ganga upp. Við erum alveg sannfærðir um að það eigi að vera hægt að vera með þrjá til fjóra báta í svipuðu konsepti og við erum að prófa. 
Það er nokkuð skemmtileg tilviljun að það var stofnað fyrirtæki í Bretlandi í nóvember sem er að koma hingað vestur með svipaðar ferðir á næstu dögum, þannig að það eru greinilega miklir möguleikar í þessari tegund ferðaþjónustu. Breska fyrirtækið sér greinilega möguleikana og það er bara jákvætt.“

Alltaf hægt að finna skjól
 
„Það má alveg segja að Vestfirðirnir séru vel til þess fallnir að boðið sé upp á skútusiglingar. Hér er svo mikið af fjörðum og víkum þar sem alltaf er hægt að finna skjól.“ Þegar Rúnar Óli er spurður hvernig honum lítist á sumarið ef hann ber það saman við fyrsta sumarið sem þeir Sigurður ráku Auroru, segir hann: „Við lítum reyndar á þetta sem fyrsta sumarið okkar vegna þess að í fyrra snerist starfsemin að mestu um að kynna ferðirnar.
Flestir okkar gestir voru aðilar frá ferðaskrifstofum, sem og fjölmiðlafólk. Og fyrir þá sem vilja vita meira um skútferðir um Jökulfirði og Hornstrandir í sumar, er bent á heimaslóðina: www.boreaadventures.com

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga