Spennandi möguleikar
Vorum ákveðin í að Súðavík yrði að sýna frumkvæði og hafa forystu í uppbyggingu atvinnu- og byggðamála, segir Ómar Már Jónsson sveitarstjóri.

Ómar Már Jónsson sveitarstjóri.

Flestum er okkur í fersku minni þeir skelfilegu atburðir sem áttu sér stað er snjóflóð féllu á Súðavík árið 1995. Svo fersku að það er snúið að ímynda sér að svo lítið samfélag hafi náð að byggjast upp aftur – og það sem meira er, verða fremstur meðal jafningja í uppbyggingu ferðaþjónustu. 
Ómar Már Jónsson hefur verið sveitarstjóri í Súðavík frá árinu 2002 og segir að eftir flóðin hafi niðurstaða legið fljótt fyrir um að íbúar vildu byggja upp nýtt þorp á öruggu svæði. „Það svæði var innar í Álftafirði, á svokölluðu Eyrardalstúni. Í dag er þar risin nýtískuleg og falleg byggð þar sem eru allar helstu þjónustueiningar; grunnskóli, leikskóli, kirkja, veitingastaður, matvöruverslun, sparisjóður og heilsugæslusel. 
Á þessu svæði voru kirkjan og grunnskólinn fyrir.“ Byggðin flutt „Það fór mikill orka í uppbygginguna og flutning byggðarinnar á öruggt svæði. Þegar því verkefni lauk um árið 2001 var tími til að einbeita sér að atvinnumálum, ferðamálum, stækkun og eflingu byggðarinnar. Hér, eins og annars staðar á landsbyggðinni hafði orðið töluverð fækkun íbúa, ekki síst vegna snjóflóðanna og því mikilvægt að leita leiða til að snúa þeirri þróun við. Árið 2002 kom inn ný sveitarstjórn.
Eitt af okkar fyrstu verkum var að móta okkur stefnu um hvert við vildum halda með sveitarfélagið. Við héldum því íbúaþing í mars 2004 og í framhaldi var sest yfir stefnumörkun fyrir Súðavíkurhrepp. 
Niðurstaðan leit dagsins ljós ári seinna og var að miklu leyti byggð á íbúaþinginu og má segja að um mjög metnarfulla áætlun var að ræða og við sáum mikil tækifæri í sjónmáli. Við vorum m.a. ákveðin í að sveitarfélagið yrði að sýna forystu og frumkvæði sem fælist í uppbyggingu með sérstaka áherslu á byggða- og atvinnumál. Við komum með nokkrar athyglisverðar nýjungar sem fólu meðal annars í sér gjaldfrjálsan leikskóla. 
Við ákváðum einnig að ráðast í byggingu atvinnuhúsnæðis og byggðum tvö samtals 1.100 fermetra atvinnuhúsnæði. Þar sem við vildum fá inn ný fyrirtæki og efla þau sem fyrir væru var ákveðið að styðja við bakið á þeim með því að úthluta tímabundið sérstökum atvinnumálastyrkjum, allt að þremur milljónum árlega og til þeirra sem mundu hefja rekstur og/eða skapa ný störf í sveitarfélaginu. 
Framkvæmdin gengur út á að greiða tímabundið til launagreiðenda upphæð sem nemur greiddu útsvari sem til er komið vegna nýrra starfa. Auk þess ákváðum við að bjóða þeim stuðning sem vildu ráðast í byggingu íbúðarhúsnæðis, en hér var mikill og er enn skortur á leiguhúsnæði. Einnig má nefna leit að heitu vatni í Álftafirði sem er verkefni sem hófst sl. sumar þegar boraðar voru tíu tilraunaholur innarlega í Álftafirði. 
Niðurstöður lofa góðu og er ætlunin að halda áfram í sumar.“ Sjóstangþorpið Súðavík „Einnig var í stefnumörkuninni ákveðið að markaðssetja Súðavík sem sjóstangveiðistað. Ferðaþjónustan hefur verið stór hluti af atvinnuuppbyggingunni. 
Þar má nefna t.d. endurbætur á Eyrardalsbænum, sem var stórt og virðulegt hús sem byggt um 1896. Húsið var orðið illa farið og voru farnar að heyrast raddir um að einfaldast væri að brenna húsið. Aðrir vildu freista þess að fá fjármagn til að gera húsið upp og varð það niðurstaðan. 
Við höfum sl. þrjú ár verið í samvinnu við Húsafriðunarnefnd að endurbyggja húsið og nú er svo komið að búið er að finna húsinu framandi hlutverk. Ætlunin er að þar verði fyrsta refasetrið á Íslandi og ef vel gengur ætti það að geta verið tilbúið árið 2009 eða 2010.“ Íbúar í Súðavík eru um tvö hundruð. Ómar segir skort á leiguhúsnæði helstu ástæðuna fyrir því að íbúum hafi ekki fjölgað síðustu misserin. Á því tímabili sem uppbygging hafi staðið yfir, hafi sveitarfélagið orðið fyrir öðru áfalli þegar rækjuútgerð og vinnsla lagðist af í Súðavík. „
Það var stórt áfall, en þegar litið er til baka má sjá að fjórar rekstrareiningar í ólíkri starfsemi hafa hafið starfsemi í húsnæðinu sem rækjuverksmiðjan var í og eru að skapa störf í stað þeirra sem töpuðust. Annars konar auðlind Það vekur athygli hversu vel hefur gengið í uppbyggingu ferðaþjónustu í Súðavík og nágrenni. Sumarhúsabyggð, skemmtigarður, sjóstangaveiði, Ævintýradalurinn Heydalur, gönguferðir með leiðsögn, 
„Já, það hefur verið sérstaklega mikil uppbygging á gistimöguleikum og afþreyingarmöguleikum ýmiss konar, bæði í Súðavík og einnig í djúpinu. Athyglisvert hefur t.d. verið að fylgast með ungri athafnakonu í Súðavík, Vilborgu Arnarsdóttur, sem hefur undanfarin ár unnið við að gera fjölskyldugarð í ytri byggðinni. Garðurinn dregur að sér fleiri og fleiri gesti á hverju sumri enda bíður hann upp á mikla möguleika. 
Sjóstangveiðiverkefnið hefur gengið mjög vel þó svo að við séum rétt nýbyrjuð með það verkefni, en nokkur ár tekur að byggja það upp og miklir möguleikar felast þar,“ segir Ómar. „Það var verkefni sem var sett af stað í samvinnu við Tálknafjarðarhrepp og þýskt ferðasölufyrirtæki Angelreisen. „Eftir undirbúning sem hófst haustið 2005, tókum við á móti um þúsund manns í fyrra sem komu til Súðavíkur og Tálknafjarðar til að fara í sjóstöng og gisti hver hópur í vikutíma. Tímabilið var frá 1. maí og fram í miðjan september, eða um fjórir og hálfur mánuður, töluvert lengra en við höfðum átt að venjast. 
Sumarbyggð hafði til þess tíma nær eingöngu þjónustað innlenda markaðinn, en ferðamannatímabilið hefur minnkað nokkuð, m.a. vegna breytinga á skólaárinu og einnig hefur veðrið mikið að segja, en aðalferðamannatími innlendra ferðamanna hefur ekki verið nema um einn og hálfan mánuður. Með því að þjónusta sjóstangveiðimenn erum við að lengja ferðamannatímabilið úr einum og hálfum mánuði í fjóra og hálfan mánuð. Þessi nýja tegund ferðamennsku er því að gjörbreyta öllu rekstrarumhverfi ferðaþjónustu á Vestfjörðum og tel ég að það horfi mjög bjart fyrir ferðaþjónustuaðilum hér á Vestfjörðum ef rétt er á haldið. 
Í upphafi var stofnað hagsmunafélag utan um verkefnið, Fjord Fishing ehf, sem skildi verða samningsaðili við erlendar söluskrifstofur og undirbúa nýja staði fyrir komu sjóstangaveiðimanna. Eigendur að því félagi eru fjögur vestfirsk sveitarfélög, tvö fyrirtæki og einn einstaklingur. Sumarið 2006 tókst sérstaklega vel og skiluðum við af okkur mjög ánægðum viðskiptavinum. Við fengum jafnframt fullvissu fyrir því að við værum með gríðarlega auðlind í sjónum, umhverfinu og mannlífinu sem hér er að finna, sem í heild sinni myndar eftirsótta tegund ferðaþjónustu. Sjóstangaveiði er mjög ört vaxandi sport á heimsvísu og sem dæmi má nefna að talið er að um 400.000 manns komi í skipulagðar sjóstangaveiðiferðir til Noregs á hverju ári.
Markmiðið með stofnun Fjord Fishing ehf árið 2005 var að sem flestir firðir á Vestfjörðum myndu þjónusta þessarrar tegund af ferðamönnum og stöðum yrði bætt við eftir hversu hröð fjölgunin yrði. Við vorum með tvo staði í fyrrasumar og ætlunin var að vera með fjóra þjónustustaði á þessu sumri. Þær forsendur breyttumst og eru nú tvö aðskilin félög á Vestfjörðum sem taka á móti erlendum sjóstangveiðimönnum og ætla má að um 1.800 sjóstangveiðimenn komi til Vestfjarða í sumar. Til lengri tíma litið þurfum við að vera meðvituð um að svæðið ber bara ákveðinn fjölda sjóstangveiðigesta. 
Ef of mörgum sjóstangaveiðimönnum er hleypt inn á svæðið í einu fer fljótt að draga úr áhuga þeirra á svæðinu og eru dæmi um að kjörstaðir fyrir sjóstangveiði hafi verið eyðilagðir vegna of mikils fjölda.“ Mannlíf verður blómlegra „Ætla má að Vestfirðir ættu að geta borið 7-8 þúsund sjóstangaveiðimenn á ári. Veltuáhrifin sem þetta hefur og mun hafa á þessar litlu byggðir er gríðarmikil. 
Til gamans má geta þess að heildarveltan af sölu sjóstangveiðiferða til Vestfjarða, miðað við 8.000 gesti gæti hæglega numið 1,2 milljörðum á ári, að meðtöldu eyðslufé á stöðunum sem ætla mætti um 200-250 millj. Í þeim útreikningi eru flugferðir, rútuferðir, leiga á báti og húsi, söluþóknanir sem og neyslufé. Við höfum aðallega verið með þýska sjóstangveiðimenn til þessa og hafa þeir verið mjög ánægðir hjá okkur og ég tel að íbúarnir hér séu einnig mjög sáttir við þá. 
Það er gaman að segja frá því að sl. vor áður en sjóstangveiðitímabilið byrjaði var sett upp sérstakt þýskunámskeið fyrir þjónustuaðila og aðra áhugasama hér á staðnum. Námskeiðið var vel sótt og voru margir orðnir nokkuð sleipir í þýskunni þegar líða fór á sumarið. Allar líkur eru þó á því að við munum sjá sjóstangveiðimenn hér á Vestfjörðum frá fleiri löndum en Þýskalandi á næstu árum þannig að búast má við mjög blómlegu mannlífi hér þegar fram líða stundir.  
Vorum ákveðin í að Súðavík yrði að sýna frumkvæði og hafa forystu í uppbyggingu atvinnu- og byggðamála, segir Ómar Már Jónsson sveitarstjóri.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga