Furufjörður í Barðsvík um Göngumannaskörð
Furufjörður í Barðsvík um Göngumannaskörð

Þessi tíu kílómetra gönguleið er talin allerfið og víst ber þar margt að varast. Þegar haldið er frá Furufirði er mikilvægt að leggja af stað á fjöru til að komast fyrir svonefnda Bolungavíkur ófæru sem er utar í firðinum vestan megin. Yst í Furufirði austanverðum er drangur sem gefur nesinu og víkinni sem hann stendur í nafn. Þjóðsagan segir hann vera annað tröllahjóna sem döguðu upp er þau áttu leið um Hornstrandir. 


Kletturinn Kanna.

Drangurinn í Drangsnesi er karlinn og sést bátur hans í klettunum skammt undan. Yst vestan megin í firðinum er hins vegar kletturinn Kanna. Kanna er talin vera silfurkanna kerlingarinnar sem dagaði uppi undir Furufjarðarnúpi. Á leiðinni út fjörðinn er komið að ánni í Landinu. Það svæði sem nefnt er Land er þó nokkuð utar þar sem láglendi er meira. Farið er yfir ána þar sem kletturinn Mávaberg stendur og gengið á grónu landi þar til komið er að Bolungavíkurbjargi. Þá verður göngumaður að ganga fjöruna. Hinum megin við tvo kletta sem gengið er á milli er Ófærubás og gegnt honum er Ófæran. 


Furufjörður

Bolungavíkurófæra er hár klettastapi sem gengur langt niður í fjöru. Ef göngumaður hefur ekki náð Ófærunni á fjöru er til önnur leið. Sú leið er erfið yfirferðar og varla fyrir lofthrædda. Þá er þræddur mjór stígur út á Ófæruklettinn og klöngrast niður urðina hinum megin. Bolungavíkurmegin er hún jafnvel enn ógreiðfærari en Furufjarðarmegin. Yst á firðinum er Drangsnes með lítilli samnefndri vík umkringd háum bökkum. Í miðri víkinni er drangur sá sem Drangsnes heitir eftir. Þjóðsagan segir hann vera tröllkarl sem dagaði uppi. Eftir að komið er framhjá Drangsvík er komið inn í Bolungarvík og þaðan hækkar landið smám saman upp á Bolungavíkurheiði. Úr Bolungavík liggur slóði yfir í Álfastaðadal í Hrafnsfirði, Norðan megin í víkinni er Skarðsfjall sem endar í yst á Straumnesi. Þá leið er hægt að komast yfir í Barðsvík en er frekar varhugaverð. 


Furufjörður.

Leið ferðamanna til Barðsvíkur lá frekar um Göngumannaskörð fyrr á tímum og ágætt er að fylgja því fordæmi. Í skarðinu Þrengsli upp af Barðsvík er Þrengslavatn. Þar býr náttúrusteinamóðirin. Hún kemur upp úr vatninu hverja Jónsmessunótt og hristir af sér hina göfugustu steina - gimsteina, huliðshjálmssteina og óskasteina. Tveir menn eru sagðir hafa reynt að ná þessum steinum en báðir misstu þeir vitið við þær tilraunir. 
Fyrst er gengið upp bratta og grösuga brekku upp á Bæjarhjalla ofan Bolungavíkursels og er leiðin frekar torsótt. Þaðan er fylgt varðaðri leið upp Selhjalla. Dálítið tottar í á þeirri leið því sumir hjallanna eru býsna brattir. Göngumannaskörðin sem eru tvö eru einn brattasti fjallvegur á Vestfjörðum. Gengið er í lægra skarðinu sem liggur utar. Skarðið nær 366 metra hæð og útsýni þaðan er vítt og breitt. 
Til norðurs sér að Hornbjargi í 17 kílómetra fjarlægð. Á milli Barðsvíkur og bjargsins eru Almenningar, grasi vaxnir og mýrlendir með malar- og sandsvæði við ströndina. Í suðaustri er útsýnið yfir Bolungavík, hömrum krýnda og handan hennar yfir mynni Furufjarðar og yfir Þaralátursnes til Geirólfsgnúps handan Reykjafjarðar. Örnefni í Bolungarvík eru mörg hver tengd þjóðsögum. Fyrir ofan býlið í Bolungavík eru Tvísteinar en það eru tveir stórir álfasteinar. Þar máttu börn vara sig á að vera með læti, enda eru þekkt dæmi um slæmar afleiðingar þess. Nokkrir unglingar áttu eitt sinn að hafa verið þarna að leik og þegar foreldrar þeirra sinntu ekki kvörtunum álfanna hefndu þeir sín með að æra einn drengjanna. Fannst hann seinna látinn inn undir heiði. 
Bolungavíkurheiði liggur upp frá Bolungavík að Álfsstöðum í Hrafnsfirði og var fjölfarinn fjallvegur fyrr á öldum og sæmilega greiðfær. Skammt fyrir neðan heiðina Bolungavíkurmegin eru Vatnalautir, öldótt land með fjölmörgum smávötnum. Fyrir ofan þær eru tveir stórir steinar sem heita Dvergasteinar. Gamlir menn segja að til forna hafi dvergar búið þar. 
Eitt sinn vildi svo til í Bolungavík að barn tók mikla sótt og einkennilega. Ekki var nokkur vegur að ná í lækni, fyrir hríð og veðurofsa. Faðir barnsins leitaði þá á náðir dverganna í Dvergasteinum. Gekk hann þangað í hríðarbylnum og bað dvergana að koma út og tala við sig. Ekkert fékk hann svarið en ákvað þó að doka við. Biðin varð ekki löng, fljótlega skaust dvergur út úr steininum. Með nokkrum eftirgangsmunum fékkst hann til að hjálpa bónda og fór með honum til Bolungavíkur. Er dvergurinn hafði skoðað barnið og gefið því lyf og smyrsli, kvaddi hann og fékk gullpening og tvær flöskur af víni að launum. Barnið náði brátt bestu heilsu og urðu þeir kærir vinir upp frá því, bóndinn og dvergurinn, og áttu oft viðskipti. 
Smyrsl það sem dvergurinn skildi eftir var lengi varðveitt í Bolungavík og aðeins notað þegar mikið lá við. Þótti það öruggt við meiðslum og margvíslegum sjúkdómum.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga