Þar sem sumarnóttin er lyginni líkust
Grímur Atlason bæjarstjóri segir einstaklega gaman að búa í Bolungarvík, þar sem uppátæki bæjarbúa eru oft furðuleg og gleðja sálina svo sannarlega.


Grímur Atlason bæjarstjóri.

Ég hef verið hérna í tæpt ár, er búinn að fjárfesta í húsi og kann vel við mig hér, sem og öll fjölskyldan,“ segir bæjarstjórinn í Bolungarvík, Grímur Atlason. „Hér er alveg yndislega fagurt núna, djúpið spegilslétt og maður horfir hér yfir á Snæfjallaströndina.“ Grímur segir Bolungarvík hafa upp á ótrúlega marga möguleika að bjóða. Hér er að finna hluti sem fólk þekkir, eins og Sjóminjasafnið Ósvör, sem og Bolafjall sem fólk gerir mikið af að fara upp á. Þangað eru bæði skipulagðar og óskipulagðar ferðir.“ Og víst er hægt að taka undir orð Gríms þegar hann segir: „Að fara upp á Bolafjall og horfa á miðnætursólina, sérstaklega í kringum Jónsmessuna, er lyginni líkast.“ 

Góð þjónusta við tjaldferðalanga
 
„Síðan eru hér alveg ótrúlegar gönguleiðir, bæði upp á Óshyrnu, Traðarhyrnu, frá Bolungarvík yfir í Súgandafjörð og yfir í Skutulsfjörð. Í Skutulsfirði kemur maður niður á skíðasvæði Ísfirðinga og það er mjög skemmtileg leið. Fyrir nútíma íslenska ferðamenn er hér mjög fullkomið tjaldsvæði, aðstaða fyrir húsbíla, fullkomin þjónusta með þvottavél og nettenging. Og vegna þess hversu fjölskylduvæn við erum, opnar hér um mitt sumar sundlaugargarður. Bolungarvík er svo auðvitað miðstöð ferjusiglinga í Jökulfirðina. Sú þjónusta er mjög vaxandi. Í fyrra fóru um tvö þúsund manns yfir, en 3-400 árið þar á undan, þannig að vinsældirnar eru mikið að aukast.“ Uppátæki Bolvíkinga hafa verið af ýmsum toga síðustu árin. Ekki svo að skilja að sérstæðum hugmyndum hafi verið hrint í framkvæmd til að laða að ferðamenn, heldur bara til að auðga mannlíf í byggðinni, skemmta sér vel og njóta lífsins betur. Hins vegar hefur raunin orðið sú, að uppátækin hafa orðið til þess að fólk verður forvitið um þetta merkilega samfélag og nýtir þau til að bregða sér í ferð vestur. Ein af þeim hugmyndum sem Bolvíkingar fengu, var að gera bæinn að heilsubæ. En hvað felst í því?

Góð heilsa, eðlileg bumba
 
„Heilsubærinn er mjög magnað átak,“ segir Grímur. „Menn taka eftir því þegar þeir koma til Bolungarvíkur, hversu margir eru hér alltaf að ganga. Þetta heilsubæjarátak byrjaði fyrir nokkrum árum og hefur smitast hratt út. Hér er mikið af hópum í alls konar hreyfingu, aktívu prógami í margar vikur í senn. Heilsubæjarverkefnið hefur staðið fyrir ýmsum viðburðum og framtakssemi. 
Núna er verkefnið að ganga alla þriðjudaga og síðan er endað í sundi. Einnig er verið að merkja gönguleiðir og búa til göngukort. Síðan hefur Solla frá Grænum kosti komið og haldið námskeið í eldamennsku. Það er mjög viðeigandi að þetta átak skuli vera einmitt hér vegna þess að hefur verið vestrænn kvilli að við hreyfum okkur lítið, keyrum allt.“ Þegar Grímur er spurður hvort allir séu þá mjóir og lekkerir í Bolungarvík, svarar hann: 
„Allir mjóir og hressir í Bolungarvík - nema sumir. En svo má ekki gleyma því að hér eru gríðarlega góðar kökur og sultur. Heilsubæjarátakið hefur haft þann kost að maður er að minnsta kosti bara með eðlilega bumbu hérna..“ 
Yfir sumarið eru þrjár lykilhátíðin í Bolungarvík. Fyrst er það sjómannadagurinn sem verður um helgina. Sá dagur er mjög öflugur og reyndar er öll helgin ein allsherjar hátíð, með allt frá þessum hefðbundna koddaslag, kappróðri og yfir í brjálað ball. Síðan er Markaðsdagurinn haldinn fyrstu helgina í júlí. Grímur segir hann vera klassískan markaður þar sem menn koma með allt sem þeir vilja selja, fá sér bás og drífa í viðskiptum. 
„Markaðsdeginum fylgir mikil tónlist og menning,“ segir hann og bætir við: Enda ekki skrýtið. Hér er alveg gríðarlega öflugur tónlistarskóli. Það er annar hver maður í hljómsveit eða stundar einhvers konar tónlistarlíf.“ 

Ástarvikan í ágúst
 
Og svo er það ástarvikan... „Já, ástarvikan er orðin landsþekkt. Þetta er róleg vika með ýmsu góðu. Konur eru að fá rósir á hverjum degi í vinnuna og síðan eru ýmsar uppákomur í kringum ástarvikuna. Bærinn er skreyttur og það eru haldnar rómantískar skemmtanir. 
Svo er alltaf spennandi að sjá hvort koma ástarvikubörn. Núna eru tvö nýkomin í heiminn frá því á ástarvikunni í fyrra. Núna 12. til 18. ágúst. Þá er aðeins farið að húma og miður ágúst er yfirleitt mjög fallegur hér fyrir vestan, blíður tími og hentar mjög vel fyrir allan þennan kærleik. 
Hann er svona lognið á undan storminum. Tilgangurinn held ég að sé að fjölga giftum til að koma á þorrablótið. Hér þurfa menn jú að vera í löggildri sambúð til að mega koma á þorrablótið og það eru konurnar sem bjóða mönnunum.“ 
Grímur segir alltaf mikið af fólki sem koma í heimsókn í ástarvikunni. „Hún er orðin vel þekkt og maður vill koma á staði þegar eitthvað er í gangi umfram það sem er venjulega. En svo er það alltaf þetta auka, fyrirlestur um konur eða fyrirlestur um karla eða sultugerð. 
Dagskráin er yfirleitt kynnt mánuði áður svo fólk veit á hverju það getur átt von. Við Helga Vala, konan mín, fluttum hingað í ástarvikunni í fyrra. Það var tekið á móti okkur af gríðarlega mikilli ást og það var mjög gaman. 

Magnað náttúrugripasafn 
Náttúrugripasafnið í Bolungarvík þykir sérlega skemmtilegt. Grímur segir nýbúið að taka það allt í gegn og safnkosturinn sé með því öflugasta sem til er á landinu. Þar er að finna mikið af fuglum og spendýrum, ísbjörn og allt hvað heitir og er.
 „Þeir sem eru að koma í safnið í fyrsta sinn verða dálítið undrandi vegna þess að það hefur ekki verið markaðssett mikið og fólk gerir sér ekki grein fyrir því hversu magnað það er. Í tengslum við Náttúrgripasafnið er komin upplýsingamiðstöð fyrir Bolungarvík. 
Þetta er allt staðsett niðri við höfnina, rétt hjá ferjunni. Í sama er handverksverslunin Drymla, þar sem finna má muni sem eru sérvestfirskir. Ég má líka til með að segja frá því að í gamla Einarshúsinu er að rísa mjög gott kaffihús og í kjallaranum er hugguleg krá sem alltaf hefur verið reyklaus. 
Þarna bjó Einar Guðfinnsson og Pétur Oddsson á undan honum. 
Þetta voru stærstu athafnamennirnir hér áður fyrr og þetta er eldgamalt hús með sál. Því fylgir mikil harmsaga og veitingastjórinn,. Ragna Magnúsdóttir, er alltaf til í að segja gestum sem þangað koma sögurnar. En þrátt fyrir söguna, trúi ég að þarna verði gott veitingahús í framtíðinni.“  

Grímur Atlason bæjarstjóri segir einstaklega gaman að búa í Bolungarvík, þar sem uppátæki bæjarbúa eru oft furðuleg og gleðja sálina svo sannarlega.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga