Ný tækni í malbiksviðgerðum
-Malbik og völtun flytja inn gashitara sem einfaldar holuviðgerðir svo um munar
 
Fyrirtækið Malbik og völtun hefur flutt til landsins nýjan tækjakost sem gerir viðgerðir og viðhald á malbiki mun skilvirkara og ódýrara. Valgarð Einarsson, forstjóri Malbiks og völtunar, segir að með tilkomu þessa tækis dragi verulega úr efniskostnaði við hvers konar malbiksviðgerðir, enda nýtir tækjakosturinn það efni sem fyrir er á staðnum.
Nýja tækið minnkar veglokun verulega á meðan viðgerðum stendur.

Samskeytalausar viðgerðir
Tækið er í raun risastór gashitari sem keyrður er yfir skemmda svæðið og hitar undirlagið upp í 140-160° hita á um það bil sjö mínútum. Ef þörf krefur er malbiki bætt ofan í skemmdirnar og svo bræðir tækið í raun saman það malbik sem fyrir er og það sem er bætt við. Að lokum er yfirborðið rakað til og svo valtað yfir.
 
Þetta gerir það að verkum að viðgerðin er samskeytalaus og er því mun endingarmeiri. „Veikasti punkturinn í svona viðgerðum hefur alltaf verið samskeytin, en það vill rifna upp úr þeim. Hér er alveg komið í veg fyrir það með því að bræða saman heitt malbik við heitt malbik, í stað þess að annar hluti samskeytanna sé kaldur og hinn heitur,“ segir Valgarð.

 
Mikill sparnaður í efnisnotkun
Einn stærsti kostur nýju tækninnar að sögn Valgarðs er sparnaður í efnisnotkun. „Áður þurfti annað hvort að fræsa eða saga flötinn sem gera átti við og fjarlægja allt það efni og setja nýtt malbik í staðinn. Með nýju tækninni náum við að endurvinna það efni sem er fyrir á staðnum. Það skilar sér svo vitaskuld í verði til viðskiptavinarins, þar sem efniskostnaðurinn hefur vegið lang þyngst í þessari vinnu. Það liggur ljóst fyrir að umtalsverður munur er á því að bæta við einum hjólbörum og að keyra ef til vill tvö tonn af malbiki í götuna,“ segir Valgarð.

Nýja tæknin minnkar allann tækjakost sem þarf við viðgerðirnar.

Tekur örfáar mínútur
Tækjakostur sem þarf við viðgerðirnar er einnig umtalsvert minni. Brennarinn er á stærð við hefðbundna bílkerru og má því hengja aftan í pallbíl, í stað þess að keyra gríðarstórar malbikunarvélar á staðinn. Það malbik sem gæti þurft að nota í viðgerðirnar geymist í heitum malbikunarkassa sem rúmast aftan á pallbíl. Þessi malbikunarkassi virkar einnig sem endurvinnsluvél, því gömlu malbiki má moka ofan í hann sem er endurhitað og verður endurnýtanlegt. „Þetta gerir það að verkum að öll lokun á götuni á meðan á framkvæmdum stendur minnkar verulega. Áður þurfti að loka stórum hluta götunnar í talsverðan tíma á meðan gatan var söguð og malbikið tekið upp, þar sem til þurfti stórar vinnuvélar sem taka mikið pláss á götunni. Þá gat oft liðið einhver tími á milli þess að sögun lauk og malbikið barst á staðinn. Með þessum hitara er þetta allt gert í einu og tekur í raun aðeins örfáar mínútur. Með því að minnka tækjakostinn með þessum hætti þjónum við svo auðvitað umhverfissjónarmiðum, því þarna næst gríðarlega mikill olíusparnaður,“ segir Valgarð.
 
Tækið má í raun nota í hvaða malbikað flöt sem er, hvort sem það eru bílastæði, gangstéttir eða göngustígar. Eðli málsins samkvæmt nýtist tækið þó ekki í undirlagsskemmdir þar sem undirlag malbiksins er ónýtt, en í þeim tilfellum verður að taka malbikið upp.

Dæmi um hvernig hellumunstur er stimplað í malbik.

Hellumynstur stimplað í malbik
Valgarð segir að í kjölfar kreppunnar hafi verkefni fyrirtækisins breyst og nú fái viðhald og viðgerðir aukið vægi. Fólk sýni aukinn áhuga á að malbika innkeyrslur, enda sé það ódýrari kostur en hellulagning. Malbik og völtun býður hinsvegar upp á þann kost að stimpla hellumynstur á malbikaða fleti. „Þá eru sérstakar víramottur settar á malbikið og valtaðar niður, en við það er mynstrið stimplað ofan í malbikið þannig að það lítur út eins og hefðbundinn hellulagður flötur. Flötinn má svo mála eftir hentisemi og annar augljós kostur er að með þessu er illgresi sem gjarnan sprettur upp á milli hella útrýmt. Með tilkomu gashitarans má svo hita upp gamalt malbik og stimpla munstur í það,“ segir Valgarð.

Nánari upplýsingar:

Malbik og völtun ehf

892 3524

malbikogvoltun@simnet.is


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga