Greinasafni: Skipulag
Skipulagi komið á strandsjóinn - Viðtal við Sigríði Ólafsdóttur

-Viðtal við Sigríði Ólafsdóttur, fagstjóra haf- og strandsvæðastjórnunarnáms hjá Háskólasetri Vestfjarða
Háskólasetur Vestfjarða fór af stað með nýtt meistaranám í Haf- og strandsvæðastjórnun haustið 2008. Slíkt nám hefur ekki verið í boði hér á landi áður og segir Sigríður Ólafsdóttir, fagstjóri námsins, og að tími hafi verið kominn á nám af þessum toga hér á landi, enda hafi haf- og strandsvæðastjórnun fengið stóraukið vægi hjá nágrannaþjóðum okkar sem eru hvað mest háð strandsvæðum um afkomu og samgönguleiðir.

Í dag leggja 29 nemendur stund á námið, en öll námskeið meistaranámsins standa fagaðilum og öðrum áhugasömum opin

Sigríður segir að námið sé afar þverfaglegt og komi mikið inn á skipulagsmál. „Starfsemin á haf- og strandsvæðum er orðin svo miklu fjölbreyttari og meiri en áður var. Því hefur fylgt hnignun lífríkis og umhverfisgæða margra þessara svæða ásamt óumflýjanlegum hagsmunaárekstrum og deilum notenda. Margar strandþjóðir hafa brugðist við með gerð skipulags fyrir þessi svæði, svipað því sem tíðkast á landi,“ segir Sigríður.
 
Að sögn Sigríðar krefst skipulag á haf- og strandsvæðum kortlagningar á þeirri starfsemi sem fyrir er á svæðinu og gerð áætlunar um hvernig nýting skal vera til framtíðar. „Þannig geta þeir sem hafa hug á að byggja eða hefja einhverskonar starfsemi á þessum svæðum gengið að skipulagi fyrir svæðin. Þetta auðveldar þessum aðilum að finna staðsetningu sem hentar fyrir tiltekna starfsemi. Þar fyrir utan er þetta nauðsynlegt þegar horft til að burðargeta svæðanna og virkni vistkerfanna sem þarf að vera tryggð fyrir komandi kynslóðir, sem og samræma þarf ólíka starfsemi og nýtingu,“ segir Sigríður.

Sameign þjóðarinnar
Samþætt haf- og strandsvæðastjórnun hefur ekki verið áberandi í umræðunni hér á landi og segir Sigríður raunar að þegar hún hafi farið að rannsaka málið fyrir fjórum árum síðan hafi fæstir vitað um hvað málið snérist. „Ég finn þó að skipulagsyfirvöld og stofnanir eru að taka við sér. Æ fleiri stofnanir eru farnar að sjá mikilvægi þess að samræma nýtingu þessara svæða, sem og við áætlanir á landi. Það má því segja að boðskapurinn sé kominn út, en þetta snýst ekki bara um framkvæmdir á þessum svæðum, heldur snýst þetta líka um jafnrétti og lýðræði. Strandsjórinn er sameign þjóðarinnar og er það því vitaskuld réttmæt krafa að nýtingaráætlanir tryggi aðkomu almennings og arður af nýtingu auðlinda skili sér til almennings,“ segir Sigríður.
 
Hún nefnir til dæmis vel heppnað haf- og strandsvæðaskipulag Hjaltlandseyjar við Skotland. Nýting strandsvæðanna þar hefur verið kortlögð og stefnumótun og ítarleg framkvæmdaáætlun gerð. „Haf- og strandsvæðastjórnun Hjaltlandseyja er til fyrirmyndar, en þetta er fámenn eyja og afkoma eyjaskeggjanna byggir að mestu á þessum svæðum, rétt eins og víðast hvar hér á landi. Þarna er ýmislegt sameiginlegt, en nýtingaráætlanir hér á landi eru þó mun fátæklegri,“ segir Sigríður.
 
Skortur á heildarsýn
Í ljósi þess hve Íslendingar eru háðir auðlindum sjávar og auðlegð segir Sigríður að það megi ef til vill segja að undarlegt sé að haf- og strandsvæðaskipulagsmál séu ekki komin lengra hér á landi. „Það skýrist að hluta til af því að nýtingarflokkarnir eru á höndum margra stofnanna sem ekki hafa sameiginlega sýn og skýra stefnumörkun um nýtingu á þessum svæðum. Enn fremur gerir flókin og brotakennd lagaumgjörð og takmörkuð þekking á lífríki strandsvæða alla ábyrga stjórnun og hugsanlegt skipulag erfiðara um vik,“ segir Sigríður.
 
Að sögn Sigríðar nyti skipulagvinna við Faxaflóahafnir góðs af aðkomu aðila með menntun í haf- og strandsvæðastjórnun. „Skipulag Faxaflóahafna helgast að mestu af notagildi þeirra fyrir sveitafélögin og kröfu um arðsemi af starfseminni. Það er hinsvegar ljóst að skipulagið þarf að nálgast út frá miklu víðara samhengi eins og tíðkast víða erlendis. Þannig væri allur Faxaflóinn tekinn til skoðunar og mismunandi kostir útlistaðir og bornir saman. Í þeirri vinnu væri meðal annars horft til náttúrfarslegra aðstæðna, þörf fyrir nýtt hafnarmannvirki, samræmingu á hlutverkum og starfsemi hafna og áhrifum hafnarstarfsemi á aðra starfsemi og nýtingu í og við flóann, t.d. ferðaþjónustu, fiskveiðar, samgöngur, íbúðabyggð, útivist og verndun. Við viljum ekkert endilega hafa iðnaðarstarfsemi dreifða út um allan flóann, mun eðlilegara væri að hafa annars vegar skilgreind svæði þar sem væri minni atvinnustarfsemi og hins vegar svæði þar sem reynt væri að þjappa saman iðnaðar- og flutningsstarfsemi flóans,“ segir Sigríður.

Ýmislegt í farvatninu
Sigríður segist þó sjá fram á þónokkrar breytingar hvað haf- og strandsvæðastjórnun varðar. „Það er ýmislegt í farvatninu. Nú er verið að innleiða vatnatilskipunin ESB og það á ef til vill að taka upp haftilskipun ESB sem kæmi líka inn á stjórnun strandsvæða. Einnig liggur fyrir frumvarp að nýjum skipulagslögum. Þar er talað um landsskipulag sem stjórnvöld geta aðlagað og nýtt við gerð nýtingaráætlunar fyrir strandsvæði,“ segir Sigríður.
 
Sigríður segir að námið hafi þegar vakið góð viðbrögð og hafi skapað umræðugrundvöll sem áður var ef til vill ekki til staðar. Háskólasetur Vestfjarða hefur þannig þegar staðið fyrir tveimur málþingum og stendur til að halda fleiri við upphaf hvers skólaárs. „Þarna hafa fræðimenn, vísindamen og starfsmenn opinberra stofnanna haldið erindi þar sem lögð er áhersla á að nálgast þessi mál út fyrir þann ramma sem nú er skilgreindur. Við sjáum að fólk sem vinnur að þessum málum í ráðuneytum og stofnunum vinnur samkvæmt reglugerðum eða stefnumörkun, en á þessum málþingum sér það hlutina í miklu víðara samhengi, en ég held að það skili miklu,“ segir Sigríður.

„Virkni vistkerfa á haf- og strandsvæðum þarf að vera tryggð fyrir komandi kynslóðir.“
 
Jákvæð viðbröðg
Námið hefur vakið afar jákvæð viðbrögð að sögn Sigríðar, þó fagfólk úr geiranum frá höfuðborgarsvæðinu hafi ekki sótt mikið í námið enn. „Í dag leggja 29 nemendur stund á námið, en öll námskeið meistaranámsins standa fagaðilum og öðrum áhugasömum opin, að því gefnu að umsækjendur standist almenn inntökuskilyrði til námsins, en hvert námskeið er nefnilega kennt á þremur vikum og því alveg gerlegt fyrir fólk sem stundar vinnu að sækja einstök námskeið. Ég held að þegar þetta nám hefur sannað sig, sem það hefur í raun þegar gert, fari þetta fagfólk að láta sjá sig. Við fáum margar fyrirspurnir, jafnvel frá fólki sem þegar hefur sótt sér meistaragráðu og vill afla sér sérfræðiþekkingar á þessu sviði og skapa sér þannig sérstöðu,“ segir Sigríður.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga