Búseturéttur tryggir öryggi, sjálfstæði og þjónustu
-Búseti býður upp á hagkvæman kost fyrir fólk í húsnæðisleit
 
Þegar kemur að því að velja sér búsetuúrræði virðist valið standa um kaup eða leigu hjá flestum, jafnvel þó svokallaður búseturéttur sé vel þekkt fyrirbæri á Norðurlöndunum og víðar.Gísli Örn Bjarnhéðinsson, framkvæmdastjóri Búseta, segir að með ákveðinni einföldun megi útskýra búsetturéttarformið þannig að félagsmenn eru eigendur að félaginu og kaupa eignarhlut í íbúð og borga síðan rekstur á kostnaðarverði samkvæmt þeim reglum sem ákveðnar eru. Það er gerður greinamunur á búseturétthafa og hefðbundnum leigjendum þar sem búseturéttarhafinn er frekar eins og eigandi. Fyrirmyndina má rekja til Norðurlanda en uppruni hugmyndafræðinnar var í Bandaríkjunum 1917 á Manhattan þar sem enn er mikið af svona íbúðum. Búseti á um 700 íbúðir, þar af um 560 búseturéttaríbúðir og er með 24 ra íbúða fjölbýlishús í byggingu.
 
Svipað og að kaupa fasteign
Gísli segir að víða erlendis sé litið á búseturétt svipað og að kaupa sér fasteign. „Með búseturéttinum færð þú öryggi, sjálfstæði og þjónustu. Lítið eigið fé þarf að leggja fram til að skapa sér sitt eigið heimili og búseturéttareigandi hefur mjög sambærilega stöðu og hefðbundinn fasteignareigandi. Hann fær vaxtabætur og ræður miklu er varðar sitt umhverfi. Þá nýtur hann þess óskipt að fasteignin er keypt undir markaðsverði og því er kostnaðarverðið lægra, þ.e. lægri lán. Hann hefur hins vegar ekki þessa hefðbundnu eignamyndun eins og eigandi. Segja má að hans eignamyndun felist í því að hann greiðir lægra endurgjald fyrir þau húsnæðisgæði sem hann nýtur heldur en ef hann hefið keypt sambærilega eign,” segir Gísli.
 
Óeðlilegur fasteignamarkaður
Gísli segir að fólk sé almennt að verða opnara fyrir nýjum leiðum þegar kemur að húsnæðismálum. „Umræðan virðist samt mest snúast um kaup fasteigna og því miður virðast margir vera fastir í því að eina leiðin til að eignast heimili sé að kaupa það. Þegar málið er skoðað nánar eru flestir í raun aðeins að leigja húsnæðið af bankanum eða íbúðalánasjóði og veðja á hækkun fasteignaverðs umfram hækkun lána. Þetta er óraunhæft þegar horft er til lengri tíma og eðlilegs ástands, en fasteignamarkaðurinn hefur hegðað sér mjög óeðlilega síðastliðin ár. Að jafnaði ætti húsnæðisverð ekki að hækka meira en sem nemur hagvexti. Þá gleymir fólk að taka inn í dæmið ýmsa kostnaðarliði þegar það reiknar húsnæðiskostnað svo sem kostnað við lántöku, kaup og sölukostnað og viðhald,” segir Gísli.
 
Vantar skýra stefnu í húsnæðismálum
Þrátt fyrir að stjórnmálamenn hafi í ræðum vitnað til húsnæðiskerfa eins og Búseturéttarformsins segir Gísli að enn vanti að stjórnvöld móti skýra stefnu í húsnæðismálum. „Það er eins og litið sé á húsnæðismál sem aukaatriði þrátt fyrir að húsnæðiskostnaður vegi þyngst í útgjöldum heimilanna og sé eitt mikilvægasta velferðarmálið. Best væri að húsnæðismarkaðurinn geti boðið upp á mismunandi leiðir eins og leigu, kaup, búseturétt, kaupleigu og jafnvel fleiri form. Þá ætti að einfalda húsnæðisbótakerfið og hafa eina gerð húsnæðisbóta, óháð húsgerð eða formi sem viðkomandi velur sér. Einungis ætti að horfa á eignir og tekjur viðkomandi og tengja þetta skattaframtali. Þannig sætu allir við sama borð óháð búsetuformi eða hvernig þeir velja að búa.
 
Í umræðunni um húsnæðismál má ekki heldur gleyma því að vaxtakostnaður, lántökugjöld og stimpilgjöld skipta töluverðu máli. Það er sama hvaða kost þú velur, allir þurfa að greiða þennan kostnað og því til mikils að vinna að lækka vexti og skapa umgjörð sem lækkar húsnæðiskostnað. Hjá Búseta er það aðallega þrennt sem skapar sérstöðu og lækkar húsnæðiskostnaðinn.
 
Félagið er: (1) rekið án hagnaðarsjónarmiða (án álagningar), (2) kaupir fasteignir á lægra verði (magnkaup) og (3) tekur lán til lengri tíma. Þetta verður til þess að greiðslubyrði er lægri en ef keypt væri sambærileg eign þar sem íbúinn nýtur þessara þátta. Síðan er kaup- og sölukostnaður nánar enginn og einfalt að breyta þurfi maður minna/stærra húsnæði.
 
Skammtímasjónarmið ráðandi á leigumarkaði?
Gísli segir að samanborið við nágrannaþjóðir sé réttur leigjenda hérlendis bágari og að algengast sé að litið sé á leiguformið sem skammtímalausn. „Framboð á leiguhúsnæði er takmarkað og oft og tíðum lélegt. Í dag er aukið framboð á leiguhúsnæði aðallega vegna fasteigna sem ekki seljast og ég leyfi mér að fullyrða að verulega margir leigusalar munu segja upp leigunni um leið og hægt er að selja enda þeir flestir með neikvæða afkomu. Búsetuöryggið er því mun meira í búseturéttaríbúð og mánaðargjaldið eltir ekki markaðsleigu,“ segir Gísli.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga