Greinasafni: Skipulag
Staðið vörð um líf, heilsu, umhverfi og eignir almennings og atvinnulífs

-Viðtal við Dr. Björn Karlsson, brunamálastjóra
 
Brunamálastofnun gegnir mikilvægu hlutverki í skipulagsmálum og nær verkefnalistinn yfir síaukinn fjölda málefna. Dr. Björn Karlsson, brunamálastjóri, segir að stofnunin hafi í mörg horn að líta um þessar mundir og nefnir sérstaklega nýyfirstaðnar og fyrirhugaðar breytingar á lögum og reglugerðum sem hafa með Brunamálastofnun að gera.Þá séu verkefni á borð við aðgengi og flóttaleiðir fatlaðra, brunavarnir gamalla bygginga með menningarlegt gildi og sífellt flóknari brunahönnun nýbygginga inni á borði stofnunarinnar. Björn segir að þó svo bæði manntjón og fjárhagslegt tjón vegna eldsvoða, þegar miðað ef við mannfjölda og verga landsframleiðslu, sé lægra hér á landi en í öllum nágrannalöndunum, sé full ástæða til að halda uppi öflugu forvarnarstarfi vegna brunavarna.

Aðgengi fyrir alla
Björn segir kröfur um aðgengi og flóttaleiðir séu sívaxandi og leggur áherslu á að slíkt aðgengi nái til allrar tegunda fötlunar eða kvilla sem gætu leitt til þess að einstaklingar eigi erfiðara um vik að forða sér ef upp kæmi eldsvoði. „Það virðist augljóst að fólk með ýmiskonar fötlun eigi að geta yfirgefið húsakynni á öruggan hátt þegar hætta steðjar að, eins og til dæmis við eldsvoða. Gott aðgengi fatlaðra að mannvirkjum er lykillinn að þátttöku þeirra í samfélaginu og er því gert ráð fyrir aðgengi fyrir alla í byggingarreglugerðum flestra landa. Þó er alltof algengt að byggingaraðilar verði hissa í hvert sinn sem hönnuður vekur athygli á nauðsyn góðs aðgengis. Orsökin virðist vera að einhverjum þykir það vera svo fáir sem málið varðar og að það sé mjög dýrt að gera öruggar rýmingarleiðir fyrir einstaklinga með hreyfihömlun, skerta sjón, skerta heyrn eða aðra slíka fötlun. Hönnuðir og eigendur bygginga geta hins vegar ekki lengur horft framhjá öryggi rýmingarleiða fyrir hinn sístækkandi hóp þeirra sem á einhvern hátt eru fatlaðir. Það er því sífellt unnið að því að auka þekkingu á fjölda sviða sem þessu tengjast, en það eru fyrst og fremst öryggisráðgjafar í brunavörnum og þeir sem eru ábyrgir fyrir aðgengi og rýmingarleiðum bygginga, sem ber að reka þessi mál áfram gagnvart byggingaraðilum og öðrum innan byggingargeirans,“ segir Björn.

Björn segist fylgjast með fyrirhuguðu frumparpi til skipulags- og mannvirkjalaga. Ljósm Ingó

Sögulegar byggingar áhyggjuefni
Björn segir að eitt af helstu áhyggjuefnum Brunamálastofnunar sem tengist skipulagsmálum séu brunavarnir bygginga sem hafa menningarsögulegt gildi. „Eftir eldsvoðann í Austurstræti 22 og Lækjargötu 2 var settur saman vinnuhópur þar sem Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins, Húsafriðunarnefnd, Brunamálastofnun og Byggingarfulltrúinn í Reykjavík ákváðu að kortleggja stöðuna hvað varðar allar helstu byggingar sem hafa menningarsögulegt gildi. Í framhaldi af því vinnur nú mastersnemi í verkfræði að kerfi þar sem brunavarnir slíkra húsa eru metnar ásamt menningarsögulegu gildi þeirra. Nokkur fjöldi húsa mun verða metinn með þessari nýju aðferð og í beinu framhaldi af því verða lagðar til aðferðir til að auka brunavarnir þar sem það telst þörf,“ segir Björn.
 
Eigendur bera ábyrgð á brunavörnum
Þó brunavarnir hafi ekki verið komnar langt á árum áður segir Björn að nýbyggingar nútímans séu ekki alls kostar lausar við vandkvæði þegar kemur að brunamálum. „Í stórum og nútímalegum byggingum eru oftar en ekki notaðar flóknar brunatæknilegar lausnir til að tryggja ákveðið frelsi hvað varðar form og innra skipulag byggingarinnar. Hins vegar ber sífellt meir á því að eigendur bygginga séu alls óvitandi um forsendur brunahönnunarinnar og rekstur hinna flóknu brunavarna. Einnig er slökkvilið oft illa upplýst um kerfin og forsendur hvað varðar virkni þeirra, því er bráð nauðsyn á því að tryggja einfalda yfirsýn eigenda og slökkviliðs á rekstri og forsendum brunavarna í flóknum byggingum.
 
Hlutverk eiganda húsnæðis varðandi brunavarnir er í raun mjög skýrt í lögum, en hann ber ábyrgð á brunavörnunum og því að þær séu í samræmi við rekstur hússins á hverjum tíma og að þeim sé viðhaldið. Það er því ákaflega mikilvægt að húseiganda sé ljóst með hvaða hætti kerfunum skal viðhaldið,“ segir Björn.
 
Samstarf við Norðurlöndin og Evrópu
Björn hefur nýverið tekið við formannsembætti í vinnuhópi skipuðum af Norrænu ráðherranefndinni, sem hefur það að markmiði að auka einsleitni reglugerða á svið mannvirkjagerðar á Norðurlöndunum og segir Björn þar vera spennandi vinnu framundan. Einnig vill Björn vekja athygli á að Evrópusambandið hafði árið 2005 forgöngu um að settur yrði upp Evrópskur þróunarvettvangur á sviði mannvirkjagerðar (European Construction Technology Platform, ECTP), þar sem hagsmunaaðilar í mannvirkjagerð kæmu sér saman um helstu áherslur í þróun og rannsóknum á þessu sviði næstu áratugi (nánari upplýsingar má nálgast á www.ectp.org). Í kjölfarið settu flest allar Evrópuþjóðir upp eigin þróunarvettvang. Þannig er til norskur, danskur, sænskur og finnskur þróunarvettvangur á sviði mannvirkjagerðar. Nú hefur verið stofnaður íslenskur þróunarvettvangur á sviði mannvirkjagerðar (Icelandic Construction Technology Platform, ICTP) af helstu hagsmunaaðilum í mannvirkjagerð hér á landi (sjá www.brunamal.is/ictp). Björn segir að náið samstarf sé hafið milli norrænna aðila á þessu sviði og stefnt sé að því að sameina þá í einn Norrænan þróunarvettvang á sviði mannvirkjagerðar.
 
Yfirumsjón rafmagnsöryggismála
Snemma á þessu ári samþykkti Alþingi lög nr. 29/2009, um breytingu á ýmsum lögum vegna færslu eftirlits með öryggi raforkuvirkja, neysluveitna og raffanga frá Neytendastofu til Brunamálastofnunar. Með lögunum fær Brunamálastofnun yfirumsjón með rafmagnsöryggismálum á Íslandi, skoðunum á raforkuvirkjum, neysluveitum, öryggisstjórnunarkerfum rafveitna og rafverktaka og sinnir hluta af markaðseftirliti raffanga. Björn segir samlegðaráhrif vegna flutnings þessara verkefna vera mikil og jákvæð fyrir báða aðila.
 
Starfsemin styrkt
Björn segist einnig fylgjast af áhuga með framþróun frumvarps til nýrra skipulagsog mannvirkjalaga sem boðað hefur verið að lagt verði fram á komandi þingi. „Þar er lagt til að Brunamálastofnun verði falin veigamikil og nauðsynleg verkefni sem snerta breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Starfsemi Brunamálastofnunar hefur eflst mikið við flutning rafmagnsöryggismála og ef ofangreint frumvarp nær fram að ganga mun starfsemin styrkjast enn frekar.
 
Verðugt verkefni
Þó verður að hafa í huga að endurreisn efnahagslífsins er og verður fremsta verkefni stjórnvalda um nokkuð langt skeið og óvíst hversu fljótt sé hægt að ráðast í nauðsynlegar breytingar á stjórnsýslu byggingarmála. Tímabundnar efnahagsþrengingar breyta þó engu um þau meginmarkmið brunavarna að verja líf, heilsu, umhverfi og eignir almennings og atvinnulífs. Ljóst er að víða verður að hagræða í rekstri ríkis og sveitarfélaga, en öllum sem starfa að brunavörnum ber að standa vörð um þessi meginmarkmið og starfsmenn Brunamálastofnunar líta á það sem verðuga áskorun,“ segir Björn.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga