Greinasafni: List
Skúli Magnússon

Skúli Magnússon “Fógeti”
Skúli Magnússon var fæddur að Keldunesi í Norður Þingeyjarsýslu þann 12. desember árið 1711. Hann var sonur hjónanna Magnúsar Einarssonar, sem var prestur á Húsavík frá 1715, og konu hans Oddnýjar Jónsdóttur. Skúli starfaði við verslunarstörf á unglingsárum en hóf síðar nám hjá Þorleifi Skaftasyni prófasti í Múla í Aðaldal haustið 1727. Magnús faðir hans drukknaði í ársbyrjun 1728, þegar hann var að sækja rekavið, en tveimur árum síðar giftist móðir Skúla séra Þorleifi, sem útskrifaði hann með stúdentspróf árið 1731. Hann stundaði nám við háskólann í Kaupmannahöfn 1732-34 án þess þó að ljúka prófi.
“ Á unglingsárum var Skúli innanbúðarmaður hjá dönskum kaupmanni og kynntist þá gildandi verslunarháttum. Kaupmaður kallaði oft til Skúla: „Vigtaðu rétt, strákur“, en það þýddi að hann ætti að snuða viðskiptamennina, vigta laklega og hafa þannig ranglega af fátækum mönnum. Er sagt að honum hafi runnið í skap og strengt þess heit að verja kröftum sínum og lífi til þess að reka úr landi einokunarkaupmenn og bæta verslun landsmanna og lífskjör”.
Skúli varð síðar gerður að sýslumanni í Skaftafellssýslu árið 1734 og seinna í Skaga–fjarðarsýslu árið 1737. Þar bjó hann fyrst í Gröf á Höfðaströnd en lengst af á Stóru-Ökrum í Blönduhlíð.  Á fyrstu árum hans í embætti sýslumanns strönduðu hollenskar duggur í Skagafirði. Þegar skipsmenn urðu uppvísir að því að versla við landsmenn gerði sýslumaðurinn skútuflökin og farm þeirra upptæk og er sagt að Skúli hafi reist  bæinn Akrar þeim skútuviði sem hafði verið gerður upptækur.
Bjarni Halldórsson sýslumaður á Þingeyrum lét gera úttektargerð en þar kemur fram að Skúli hafi unnið gott starf, látið byggja upp töluvert af húsum staðarins, þar hafi hann hafi skilað af sér betra búi en hann tók við. Þá hafi hann útvegað nýtt letur til prentverksins, útvegað lærðan prentara og látið prenta bæði sumar og vetur. Skúli auðgaðist vel í Skagafirði og varð svo voldugur að hann tókst á við einokunarkaupmenn. Hann kærði Hofsóskaupmann fyrir að selja ónýtt járn og mjöl sem blandað var með mold, selja vörur hærra verði en leyft var og fleira. Urðu mikil málaferli út af þessu og var Bjarni Halldórsson málsvari kaupmannsins en Skúli hafði betur í málinu og aflaði þetta honum mikilla vinsælda meðal almennings.
Skúli var kallaður Skúli fógeti, þar sem hann gegndi embætti  landfógeta og varð síðar einn helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna. Skúli var oft nefndur faðir Reykjavíkur  þar sem hann var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi. Hann var mikill stórbokki og héraðsríkur og mikill áhugamaður um framfarir Skúli hafði forsjá Hólastóls eftir að Steinn Jónsson biskup dó árið 1739 og allt þar til að Halldór Brynjólfsson tók við því embætti árið 1746.

Innréttingarnar - Stofnun Hins íslenska hlutafélags
Árið 1749 var Kristjáni Drese landfógeta vikið úr embætti fyrir drykkjuskap og sjóðþurrð. Í desember sama ár var Skúli skipaður í hans stað, fyrstur Íslendinga. Sumarið 1750 fluttist hann suður á Bessastaði og hóf hann að berjast fyrir ýmsum framfaramálum og helst fyrir stofnun framfarafélags sem skyldi standa að ýmsum umbótum í búnaðarmálum og iðnaði. Hann vildi að Íslendingar eignuðust þilskip svo þeir gætu sótt á djúpmið.  Skúli fékk Viðey til ábúðar og var Viðeyjarstofa reist sem embættisbústaður á árunum 1753-55.
Félagið Innréttingarnar var stofnað af Skúla ásamt íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn íslenskra landshaga. Í janúar árið 1752, aðeins hálfu ári eftir að félagið var stofnað, fékk það fjárstuðning og sérleyfi konungs til framkvæmda. Þá var heiti þess breytt úr íslensku á dönsku, og nefnt: „Det Privilegerte Islandske Inter–essentskab”. Skammstöfunin var PII, sem stóð fyrir nafni félagsins bæði á dönsku og latínu.

Starfsemin
Við þessi þáttaskil efldist félagið mjög að fjármunum og verkefnum. Starfsemin varð fjölþætt, tók til jarðræktartil–rauna, brennisteinsvinnslu, ullarvefsmiðja, litunar, kaðla–gerðar, skinnaverkunar, skipasmíða og útgerðar svo það helsta sé nefnt. Starfsemin fór fram víða um land, en miðstöð framkvæmdanna var í Reykjavík og nágrenni. Þessar framkvæmdir voru á danskri tungu kallaðar „De Nye Indretninger”, eða „hinar nýju framkvæmdir”. Þaðan kom því heitið „Innréttingarnar” sem fór að festast við athafnir og verkstæði „Hins íslenska hlutafélags“.
Fyrsta áratuginn var flest það sem að ofan er nefnt í fullri starfsemi, en eftir 1760 tengdist Innréttingaheitið fyrst og fremst ullarvefsmiðjunum í Aðalstræti 10 en þær störfuðu til ársins 1803. Brennisteinsvinnslan hélt einnig velli fram yfir aldamótin 1800, fyrst í Krýsuvík en síðar á Húsavík.  Á Íslandi hefur oft verið talað um starfsemi Hins íslenska hlutafélags sem „Innréttingar Skúla Magnússonar landfógeta”, en í dönskum skjölum eru þær fremur nefndar „Hans Majestæt Høystsalig Kong Friderich den 5. stiftede Indretninger.” Á árunum 1751-58 fóru gripdeildir og þjófnaður mjög í vöxt vegna hallæris í landinu. Málið kom til kasta Magnúsar Gíslasonar amtmanns sem taldi að öruggasta ráðið til þess að losna við vandræði af völdum þjófa væri að reisa í landinu hegningarhús. Og í sama streng tók stiftamtmaður. Nokkrum árum áður hafði Skúli Magnússon landfógeti orðað sömu hugmynd í erindi til stjórnarinnar og lagt til að fangarnir yrðu látnir vinna að spuna og öðrum störfum fyrir innréttingarnar nýju.
Skúli lét af embætti fyrir aldurs sakir árið 1793 og lést þann 9. nóvember árið 1794 í Viðey. Eftirlifandi eiginkona Skúla var Steinunn Björnsdóttir prests í Görðum á Álftanesi. Árið 1954 var reist stytta af Skúla Magnússyni í Fógetagarðinum. Verkið gerði Guðmundur Einarsson frá Miðdal en það var Verslunarmannafélag Reykjavíkurborgar sem gaf Reykjavíkurborg listaverkið að gjöf í tilefni 100 ára afmælis frjálsrar verslunar á Íslandi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga