Kraumandi sköpunargleði - Kraum

Kraumandi sköpunargleði

Kraum
Í versluninni Kraum, sem er í elsta húsi Reykjavíkur, eru til sölu vörur eftir rúmlega 200 hönnuði. Nýjasta viðbótin er sala á konfekti frá Hafliða Ragnarssyni bakara sem verður í „suðurstofunni“ í gamla húsinu þar sem settar hafa verið upp innréttingar í gömlum stíl. Opnuð var í byrjun nóvember sýning á hönnun Péturs B. Lútherssonar húsgagnahönnuðar en hugmyndin er að settar verði reglulega upp sýningar á verkum hönnuða en húsnæði verslunarinnar gefur færi á ýmiss konar starfsemi.

Kraum hefur undanfarin ár verið starfrækt í björtu og nútímalegu verslunarrými á bak við elsta hús Reykjavíkur sem stendur við Aðalstræti 10. Seldar hafa verið hönnunarvörur svo sem skartgripir, nytjahlutir, skrautmunir og fatnaður. Fyrr á þessu ári tók verslunin yfir gamla húsið sem Skúli fógeti byggði. „Þetta ár, 2011, er sögulegt að því leyti að Skúli fógeti fæddist árið 1711 og Jón Sigurðsson árið 1811,“ segir Halla Bogadóttir, framkvæmdastjóri Kraums, en þess má geta að Jón gisti oft í „suðurstofunni“ svokölluðu þegar hann var hér á landi en bróðir hans, Jens, átti húsið um tíma.
Krambúð var rekin í húsinu í um 80 ár og við hönnun innréttinga á árinu var lögð áhersla á að búa til krambúðarstemmningu. Þar fást ýmsar smávörur svo sem úr íslenskri náttúru og má þar nefna lífrænt ræktaðar vörur, náttúrusalt, sultur, síróp og karamellur auk snyrtivara sem framleiddar eru hér á landi.

Spennandi nýjung

Konfekt frá Hafliða Ragnarssyni bakara hefur fengist um tíma í Kraum og á næstunni verður opnuðu sérverslun í „suðurstofunni“.
„Hugmyndin hefur lengi verið að opna litla konfektbúð í miðbæ Reykjavíkur,“ segir Hafliði sem rekur tvö bakarí. „Ég hef lengi leitað að hentugu húsnæði og þetta er æðislegt þótt það sé lítið eða 20 fermetrar. Mér finnst það bara mjög sjarmerandi. Það þarf að vera eitthvað meira í þessu en bara það að opna búð - það þarf að vera einhver sérstök stemmning og sjarmi og ég held að það náist í suðurstofunni. Stemmningin á að vera þannig að fólk komi inn í litla gúrmeibúð og hafi í öll horn að líta þó þau séu ekki mörg.“
Settar hafa verið upp innréttingar í stíl við húsið og Hafliði mun bjóða upp á ýmsar nýjungar hvað konfektið varðar. Fyrir utan úrval konfekts í kössum og pokum munu viðskiptavinir svo geta valið konfektmola sem settir verða í lítil kramarhús og verða þeir seldir eftir vigt.

Hönnunarsýningar
„Enn ein nýjungin hjá okkur er að nýta aðra hæðina í nýja húsinu sem sýningarrými fyrir hönnunarvöru,“ segir Halla. „Fyrsta sýningin var opnuð í nóvemberbyrjun og voru sýndir nýir lampar, sófar og hillueiningar sem Pétur B. Lúthersson húsgagnahönnuður hannaði; sumt er áfram til sýnis þótt sýningunni sé lokið.“
Segja má að sköpunargleðin kraumi á meðal starfsfólks Kraums sem og hönnuðanna: Kraum hefur verið virkur þátttakandi í HönnunarMars undanfarin ár og á meðal nýjunga er samstarf Kraums við fimm hönnuði sem munu á næsta HönnunarMarsi kynna vörur sem eru sérstaklega hannaðar fyrir Kraum og verða seldar í versluninni. Hönnuðirnir eru Ingibjörg Hanna Bjarnadóttir, vöruhönnuður og grafískur hönnuður, Sonja Bent fatahönnuður, Stefán Pétur Sólveigarson vöruhönnuður, Steinunn Vala Sigfúsdóttir skartgripahönnuður og Tinna Gunnarsdóttir vöruhönnuður.

Ræðubindi og spaghettímælir
Það má kannski líkja Kraumi við listasafn þar sem þar er hægt að skoða úrval íslenskrar hönnunar. Margir erlendir ferðamenn staldra við í versluninni og segir Halla að hugmyndauðgi hönnuða komi ferðamönnum á óvart.
Til að nefna dæmi um forvitnilega huti má nefna ræðubindi - hægt er að velja um ýmiss konar ræður s.s. þakkarræðu, hátíðarræðu... Sá sem er með bindið á sér þarf einfaldlega að lyfta því upp og lesa það sem á því stendur. Einnig má nefna spábollasett og nýjasti hluturinn er spaghettímælirinn „Ég gæti borðað heilan hest“.
Að varðveita söguna
Halla segist verða vör við að erlendir ferðamenn hafi mikinn áhuga á byggingarsögu gamla hússins. „Þeir vilja heyra um líf fólks fyrr á tímum og hvernig hús voru byggð.“ Hún segir góðan anda ríkja í gamla húsinu og hefur trú trú á að Skúli fylgist með.
Óhætt er að segja að Aðalstræti 10 sé í hjarta miðborgarinnar. Húsið stendur í nágrenni annarra timburhúsa sem gerð hafa verið upp og setja skemmtilegan svip á umhverfið. Halla bendir á nauðsyn þess að leggja rækt við miðborgina. „Ég fann það þegar ég fór að vinna í svona gömlu húsi hvað það er mikilvægt að við varðveitum sögu okkar. Ósk mín er að miðborgin haldi velli og verði áfram falleg - og verði fallegri með fleiri uppgerðum, gömlum húsum og fallegri lýsingu.“

Kraum
Aðalstræti 10 • 101 Reykjavík
+354 517 7797
kraum@kraum.is
www.kraum.is

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga