Greinasafni: List einnig undir: Arkitektar
Geometrísk form á sauðskinnsleðri

Geometrísk form á sauðskinnsleðri

Guðrún Stefánsdóttir
Guðrún Stefánsdóttir hannar leðurvarning undir eigin vörulínu að nafni Arkart samhliða störfum sínum sem arkitekt. Hönnun á svo ólíkri stærðargráðu getur vel átt sér marga sameiginlega fleti, enda má hæglega sjá hin geometrísku form arkitektúrsins í hönnun Guðrúnar.
Arkart-línan samanstendur aðallega af leðurtöskum af öllum stærðum og gerðum, sem og hálsfestum og eyrnalokkum úr sama efni. Guðrún hélt sig upprunalega við að sníða töskurnar en uppgötvaði svo sér til ánægju að það leður sem varð afgangs við vinnuna við töskurnar gat nýst til ýmiss brúks. Hóf hún því að hanna hálsfestarnar og eyrnalokkana úr afganginum með því að sníða hin ýmsu geometrísku form, svo sem hringi og ferninga, í mismunandi litum sem svo mynda fallega heild þegar þeim er raðað saman á festi eða lokk.
Vörur Arkart-línunnar bera þess ljós merki að um vanan og reyndan arkitekt er að ræða með greinilegar fagurfræðilegar áherslur. Einfaldleikinn sem og regufestan er í fyrirrúmi, eiginleikar sem eru prýði bæði fyrir hverja einustu byggingu sem og fallega hönnun.
Geometrísk form, sem svo mikilvæg eru við mótun fallegs umhverfis húsa og bygginga, einkenna hönnun Arkart-línunnar. En á sama tíma glæða hinir ýmsu ólíku litir hin einföldu form miklu lífi og tóna saman á skemmtilegan hátt. Allar vörur línunnar eru unnar frá grunni af Guðrúnu sjálfri. Vinnur hún töskurnar og skartgripina úr náttúrulegu, ólituðu sauðskinnsleðri.
Guðrún hafði lengi verið að vinna hluti úr leðri sér til yndisauka samfara störfum sínum sem arkitekt. Hana hafði dreymt um að geta eytt meiri tími í leðurhönnunina en það var ekki fyrr en harnaði á dalinum á Íslandi að sá tími gafst.  Áhuginn á arkitektúr hefur þó aldrei dvínað.
Hún nam arkitektúr við hin Konunglega Arkitektaskóla í Kaupmannahöfn, þaðan sem hún lauk námi árið 1986. Hóf hún vinnuferillinn hjá Guðna Pálssyni arkitekt en hóf sjálf rekstur eigin teiknistofu árið 1989 í samfloti við samstarfsmenn.
Að sögn Guðrúnar spanna verkefni hennar sem arkitekts allt litrófið, frá hönnun umhverfis til stórra bygginga. Mest hafi hún teiknað fyrir einkaaðila og þótt það skemmtilegustu verkefnin þegar hún fengi að hanna allt umhverfi fólks; byggingu sem og innréttingar hennar, garða og jafnvel sumarbústaði.
Sala á vörulínunni Arkart hefur gengið afar vel að sögn Guðrúnar og tók hún meðal annars þátt í sýningunni Handverk og hönnun í Ráðhúsi Reykjavíkur á dögunum. Hægt er að nálgast nánari upplýsingar um vörulínu Guðrúnar á arkart.is en hún er einnig til sölu í Listasafni Íslands og hjá Sædísi Gullsmiðju við gömlu höfnina í Reykjavík.

Nánari upplýsingar á www.arkart.is
Guðrún Stefánsdóttir.sími 8623355.
www.arkart.is   
Er á facebook
 

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga