Greinasafni: Afþreying
Samstaðan er okkar styrkur, segir Jón Ólafur Ólafsson
Samstaðan er okkar styrkur,     ( sjá myndband hér )
segir Jón Ólafur Ólafsson formaður Iðnaðarmannafélagsins í Reykjavík Það er líklega ekki á allra vitorði að á höfuðborgarsvæðinu er starfandi félag sem heitir Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Það á sér býsna langa og merkilega sögu; var stofnað 3. febrúar 1867 og reyndar á ekkert félag á Íslandi sér lengri samfellda sögu. Áður fyrr voru iðnaðarmannafélög víðar um landið en þau hafa öll lagt upp laupana nema Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík. Formaður þess er Jón Ólafur Ólafsson sem er menntaður húsamálari og arkitekt. Við mæltum okkur mót í gamla Iðnskólahúsinu í Lækjargötu 14 en þar á félagið stórt og einstakt rými sem nefnt er Baðstofa iðnaðarmanna. Ég bað Jón Ólaf fyrst um að segja mér frá húsinu og þessari sérstöku vistarveru. Húsið var reist af reykvískum iðnaðarmönnum í upphafi síðustu aldar, segir Jón Ólafur, og hér hófst skipulagt iðnnám sem var síðan flutt í Iðnskólann á Skólavörðuholti á 6. áratugnum. Í dag þekkja fleiri húsið sem hús dómkirkjusafnaðarins en Iðnaðarmannafélagið á enn Baðstofuna sem var hönnuð í þjóðlegum stíl árið 1926 og er meðal annars notuð fyrir fundi félagsins. Ég tek eftir útskornum drekasúlum og kyndlum í Baðstofunni. Einnig kvæðisbrotum með höfðaletri sem Jón Ólafur segir að hafi upphaflega verið handverk og hönnun Ríkarðs Jónssonar myndhöggvara. Reyndar stórskemmdist húsið í eldi árið 1986, segir hann, þar á meðal Baðstofan en hún var öll endurbyggð.

En ef við víkjum aftur til stofnárs félagsins: 1867. Þá var öldin önnur í henni Reykjavík, ekki satt?
Jú, mikil ósköp. Þá var allt annar bæjarbragur hér. Erlendur ferðamaður var á ferð í Reykjavík á þessu ári og lýsti bænum með þessum orðum: „Þessi höfuðborg Íslands mætti mér í kalsaroki og rigningu. Eyðilegri stað hef ég sjaldan eða nokkurn tímann séð ... Mér kom hún fyrir sjónir sem útnári á jaðri siðmenningar, undirlögð af hræðilegri lykt af rotnandi og þurrkuðum fiski.“
Á þessum árum var enn stundaður búskapur í bæjarlandinu sem var þó að breytast smám saman í þéttbýli og iðnaðarmenn mynduðu hluta af hinni nýju borgarastétt. Danskir iðnaðarmenn unnu mikið að húsbyggingum í Reykjavík og Iðnaðarmannafélagið var öðrum þræði stofnað til að sporna við áhrifum Dana á því sviði.

Var þetta þá eingöngu stéttarfélag?
Nei, alls ekki, segir Jón Ólafur. Það beitti sér ekki síður fyrir fræðslu- og menningarstarfsemi fyrir iðnaðarmenn. Meðal annars var ráðist í að byggja stórt samkomuhús við Reykjavíkurtjörn sem nefnt var Iðnaðarmannahúsið eða Iðnó í daglegu tali og varð fyrsta leikhús bæjarins eftir að Leikfélag Reykjavíkur var stofnað árið 1897. Þegar bygging Iðnós var komin í höfn var ráðist í að reisa stórt hús á horni Lækjargötu og Vonarstrætis. Hér tók iðnskóli til starfa árið 1904 sem varð mikið framfaraspor í iðnfræðslumálum. Þegar skólinn var fluttur upp á Skólavörðuholt tók íslenska ríkið við rekstrinum sem var orðinn félaginu ofviða.
Jón Ólafur segir að menn–ingarstarfsemi félagsins hafi ævinlega verið drjúgur hluti af félagsstarfinu: snemma á síðustu öld safnaði félagið fyrir styttunni af Ingólfi Arnarsyni, segir hann, eða standmynd eins og hún var kölluð á þeim árum og var hún færð íslenska ríkinu að gjöf árið 1924. Á aldarafmæli Iðnskólans árið 2004 gaf félagið skólanum listaverkið Mentor eftir Helga Gíslason myndhöggvara. Einnig hélt félagið iðnsýningar og jafnvel listsýningar og kom að stofnun Sparisjóðs Reykjavíkur árið 1932. Þannig hefur Iðnaðarmannafél–agið ævinlega látið góð verk og framfaramál til sín taka. Ekki má gleyma svonefndri borg–arstjórakeðju sem Leifur Kaldal smíðaði og félagið færði borginni að gjöf á aldarafmæli þess árið 1967. Við höfum alltaf lagt áherslu á það að borgarstjóri hvers tíma skarti þessari fallegu keðju á hátíðarstundum.

En hvernig reiddi þessu gamal–gróna félagi af í umróti síðustu aldar?
Þá komu ýmis stéttarfélög iðnaðarmanna til sögunnar svo kraftarnir dreifðust víða og við það breyttist hlutverk Iðnaðarmannafélagsins. En þessi aðgreining í einstök félög er að hörfa til baka, finnst mér, og ég tel að í framtíðinni verði meiri horft til heildarsamtaka eins og Iðnaðarmannafélagsins.

Hverjir eru helstu þættir félags–starfseminnar í dag?
Svonefnd nýsveinahátíð er mikilvægur liður í starfseminni. Einstök stéttarfélög senda okkur tilnefningar og síðan eru þeir verðlaunaðir sem hafa skarað fram úr á sveinsprófi með fagmannlegu og góðu handverki. Við höfum haldið þessa hátíð árlega frá 2007 og höfum  verðlaunað 78 sveina fyrir afburða vel unnin sveinstykki. Þessi verðlaunahátíð er horn–steinninn í starfi félagsins og forseti Íslands er verndari hennar. Við höfum líka veitt svokölluð nýsköpunarverðlaun og eigum fulltrúa í stjórn Tækniskólans.

En hvaða tekjustofna hefur félagið til að standa straum af félagsstarfinu?
Þar koma félagsgjöldin til sögunnar en einnig á félagið húseignir sem það hefur tekjur af.

Þið veljið einnig iðnaðarmann ársins, ekki rétt?

Jú, síðastliðin þrjú ár hefur stjórn félagsins valið iðnaðarmann ársins sem hefur unnið stétt sinni og iðnaðinum til heilla. Þeir sem hafa fengið þessi verðlaun eru Óðinn Jónsson járniðnaðarmaður, Björgvin Tómasson orgelsmiður og nú síðast Dóra Jónsdóttir gullsmiður.

Iðnaðarmannafélagið er eina félagið sinnar tegundar á Íslandi en eigið þið ekki systurfélög á hinum Norðurlöndunum?

Jú, það eru til slík félög í höfuðborgum allra hinna Norðurlandanna, segir Jón Ólafur, og við hittumst reglulega til að ræða sameiginleg hugðarefni. Slíkir fundir hafa verið haldnir hér á landi og hann verður reyndar haldinn hérlendis næsta sumar.

Hvað eru félagsmenn margir í Iðnaðarmannafélaginu í Reykjavík?
Í dag eru þeir 170-180 talsins, einkum faglærðir iðn–aðarmenn en einnig arkitektar, byggingafræðingar, verkfræð–ingar og tæknifræðingar. Þeir sem hafa unnið í þágu iðnaðarins eða stundað kennslustörf á sviði iðnfræðslu geta einnig sótt um inngöngu í félagið en félagsmenn koma af öllu höfuðborgarsvæðinu. Ég á von á því að Iðnaðarmannafélagið verði í vaxandi mæli sá farvegur sem iðnaðarmenn leita í til að vinna að framfaramálum sem eru öllum iðnaðarmönnum til heilla. Við fögnum öllum nýjum félagsmönnum því samstaðan er okkar styrkur, sagði Jón Ólafur Ólafsson að lokum.    
-BB

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga