Greinasafni: Söfn einnig undir: Veitingar
Kaffi, eldgos og jarðskjálftar
Kaffi, eldgos og jarðskjálftar
Volcano House
Kaffihús, sýningarsalur, verslun og kvikmyndasalur: Allt þetta tilheyrir Volcano House þar sem gestir geta notið góðra veitinga og skoðað m.a. steina og bombur og horft á kvikmyndir sem tengjast eldgosum. Verið er að klára uppsetningu á jarðskjálftahermi þar gestir munu geta upplifað jarðskjálfta. Þá er yfir vetrartímann hægt að leigja veitinga- og kvikmyndasalinn.
Eigendur og rekstraraðilar Volcano House eru bræðurnir Þórir, Hörður og Svavar Gunnarssynir. Svavar býr í Svíþjóð en Þórir og Hörður þjóna sjálfir gestum og gangandi og í eldhúsinu ráða ríkjum eiginkonur, dætur og systur. Þetta er því sannkallað fjölskyldufyrirtæki upp á gamla mátann.
Hugað hefur verið að mörgum smáatriðunum við hönnun á Volcano House. Þegar gengið er inn í húsnæðið þá líkist það svolítið því að ganga á kolsvartri hraunbreiðu: Svart steinteppið á þarna vel við.
Þær eru nokkrar áherslurnar í rekstri fyrirtækisins og má þar fyrst nefna kaffihúsið. Þar fást heimabakaðar kökur og grænmetisbökur. Þess má geta að að hluta til verður um heilsusamlegar kökur að ræða; sumar glúteinfríar og jafnvel hveitifríar. Einnig er boðið upp á salat og súpu í hádeginu og á kvöldin. Í vetur er ætlunin að bjóða upp á lifandi tónlist og fyrirlestra sem tengjast náttúru Íslands og jarðfræði en Volcano House er meðal annars í samstarfi við Hamarinn, áhugamannfélag um jarðfræði, um fræðsludagskrá og fyrirlestra.
Tekkhúsgögn eru áberandi á kaffihúsinu. Róshildur Jónsdóttir og Snæbjörn Stefánsson eiga heiðurinn af hönnun Volcano House og var hugmyndin að hafa stílinn á kaffihúsinu í anda þess tíma þegar gjósa tók í Vestmannaeyjum snemma á sjöunda áratug síðustu aldar. Um gömul húsgögn er að ræða en búið er að gera þau upp  og yfirdekkja.

Úr eldgosi á 18. öld
Margir forvitnilegir steinar eru í sýningarsalnum þar sem allir eru velkomnir og ekkert kostar að skoða. Hluti steinasafnsins kemur frá Jóel Jóhannssyni og bróður hans sem hafa í áratugi safnað steinum úr íslenskri náttúru.     
„Við höfum einnig verið í samstarfi við Guðrúnu Larsen jarðfræðing en sérsvið hennar er eldfjalla- og gjóskulagafræði,“ segir Þórir Gunnarsson, einn eigenda staðarins. „Guðrún fór í ferð með okkur til að safna jarðsýnum og gjósku auk þess sem við höfum farið sjálfir í slíkar ferðir. Einnig höfum við fengið ýmsar áhugverðar gjafir. Við fengum til dæmis nýlega flottar bombur eða steinkúlur. Um er að ræða steina sem koma djúpt úr iðrum jarðar í eldgosum; þeir þeytast í loft upp og verða kúlulaga. Þessar tilteknu bombur eru úr eldgosi í Víti í Mývatnssveit sem hófst árið 1724 og lauk 1729.“
Auk þess er á sýnngunni  um 3000 ára gamall vikur úr Heklugosi og segir Þórir að fólki þyki merkilegt að sjá að um fimm tegundir af vikri er að ræða úr sama gosinu.

Kvikmyndasýningar

Áhugasamir geta borgað inn á kvikmyndasýningu og séð tvær kvikmyndir sem tengjast eldgosum. Sýningin tekur um 40 mínútur og er sýning á klukkutíma fresti.
„Fyrri myndin er um eldgosið í Vestmannaeyjum og sýnir m.a. baráttu eyjamanna við að halda höfninni opinni með því að dæla sjó á hraunið. Framvinda eldgossins er sýnd og uppbygging  eftir gos; sýnt er hvernig eyjamenn tóku höndum saman við að byggja bæinn upp og gera eyjuna græna og fallega á ný.
Í hinni myndinni, Volcano Island, eru sýndar eldstöðvar á Íslandi - flogið var t.d. yfir Lakagíga og sjást  margar íslenskar náttúruperlur en aðalatriði myndarinnar eru eldgosin í Eyjafjallajökli og á Fimmvörðuhálsi.“ Myndmeistari þeirrar myndar fékk tilnefningu til Emmy® verðlauna fyrir framúrskarandi kvikmyndatöku.
„Viðbrögð erlendu gestanna sem sjá myndirnar okkar eru yfirleitt:  „Amazing“. Fólk fellur alveg í stafi. Því finnst þetta ótrúlega merkilegt og spyr oft hvernig við getum eiginlega búið hérna.“
Í verslun Volcano House, sem er staðsett í horni safnsins, fást ýmsir minjagripir og hönnun sem tengist  eldgosum og jarðfræði Íslands.

Jarðskjálftahermir

Gert er ráð fyrir að eitt rýmið í húsnæðinu verði tilteinkað jarðskjálftum á Íslandi og verður það tilbúið snemma á næsta ári. Þar verður jarðskjálfahermir svo að gestir geti upplifað styrk þekktustu jarðskjálfta sem orðið hafa hér á landi. 
Hægt er að leigja veitingasalinn og kvikmyndasalinn yfir vetrartímann til einkanota. Kvimyndasalurinn er með hallandi, bólstruðum sætum, ekta bíósætum frá 1960, sem flutt voru inn frá Svíþjóð. Þar í landi eru í flestum bæjum svokölluð „folkets hus“ eða „hús fólksins“. Svavar, sá bræðranna sem býr í Svíðþjóð, keypti sætin og flutti þau til Íslands þegar verið var að gera upp eitt slíkt hús í nálægum bæ. Það sér ekki á þeim þrátt fyrir aldurinn og falla þau alveg inn í glæsilega hönnun staðarins.
Í kvikmyndsalnum er hægt að vera með glæru- og kvikmyndasýningar í háskerpugæðum.
„Volcano House er staður þar sem hægt er að eiga notalega stund, fá sér rjúkandi kaffisopa með gómsætri og heilsubætandi kökusneið, hlusta á áhugaverða fyrirlestra m.a. um jarðfræði, vörður og íslenska náttúru eða tónlist, skoða og fræðast um náttúru landsins á jarðfræðisafninu, kaupa fallegan eldfjallakerstastjaka til að prýða heimilið og bregða sér svo að lokum inn í jarðskjálftaherbergið til að upplifa örstutt alvöruna sem felst í því að búa á landi sem er í sífelldri mótun og hreyfingu; dálítið sem gestirnir okkar spyrja gjarnan um en við veltum kannski ekki oft fyrir okkur.“

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga