Greinasafni: Afþreying einnig undir: List
Gróft, óbeislað og fallegt Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður hja Sign

Sign

Sigurður Ingi Bjarnason gullsmiður er eigandi og aðalhönnuður Sign þar sem framleiddir eru skartgripir og seldir í um 20 verslunum. Hönnunin er undir sterkum áhrifum frá íslenskri náttúru.


Sigurður Ingi stofnaði Sign árið 2004 og í fyrstu var lögð áhersla á að veita verslunum þjónustu með viðgerðum á skarti en auk þess smíðaði Ingi, eins og hann er oftast kallaður, skartgripi og seldi í verslunum. Hann hannaði í kjölfarið skart–gripalínuna „Eldur og ís“ sem var fyrst og fremst hugsuð fyrir erlenda ferðamenn, bæði sem eins konar minjagripi sem tengjast og minna á íslenska náttúru og sem flott skart sem stendur algjörlega fyrir sínu sem slíkt.
Umsvifin hafa aukist jafnt og þétt frá stofnun og í dag eru vörur Sign seldar í um 20 verslunum og er langt frá því að eingöngu sé um að ræða vörur fyrir ferðamenn.
„Ég er leiðandi hönnuður á verkstæðinu og smíða flestar prótótýpurnar,“ segir Ingi, „samhliða því sem ég hitti viðskiptavini sem koma til mín og vilja sérsmíði. Við hönnum og smíðum fyrir einstaklinga, fyrirtæki og félagasamtök og höfum átt miklum vinsældum að fagna sem við erum þakklát fyrir enda leggjum við metnað í að veita góða þjónustu og reynum að koma til móts við þarfir viðskiptavinanna.“

Dulúð veðráttunnar

Þegar Ingi er beðinn um að lýsa hönnun sinni segir hann: „Hún er líklega gróf, óbeisluð, sjálfsörugg og auðvitað falleg.“ Hann segir hugmyndirnar að hönnuninni koma að miklu leyti úr íslenskri náttúru. „Oft er það þannig að ég sé eitthvað sem hrífur mig þegar ég geng eða ek um landið. Ég er hrifinn af íslenskri náttúru og allri þeirri fjölbreytni sem í henni finnst. Þá er ég að tala um form, áferð, liti og dulúð sem íslensk birta og veðrátta eiga stóran þátt í að magna upp.”
Varðandi hönnunarferlið segir Ingi sumar hugmyndirnar lengi að gerjast og taka á sig mynd í huga hans en að aðrar spretti fram nærri því fullbúnar. ,,Ég hanna oft í lotum og er þá jafnvel búinn að ganga með hugmyndirnar, allt að því fullbúnar, í margar vikur.“

Eðalmálmar

Sign framleiðir nokkrar skart–gripalínur: „Signs by Sign“, „Eldur og ís“, „Mystic“, „Piece of Iceland“, „Rock“ og „Straumur“ auk þess sem framleiddir eru krossar og trúlofunar- og giftingarhringir. Einungis eðalmálmar eru notaðar í skartgripi fyrirtækisins og er meirihluti þeirra úr silfri. Silfrið er varið með rhodiumhúðun sem tefur fyrir því að falli á skartið. Þá er hægt að gylla allt skart frá Sign og fæst gyllingin án aukagjalds.
„Í skartgripunum má oft finna samspil andstæðna og ólíkra þátta sem lifa samlífi í íslenskri náttúru; gróft mætir mjúku, heitt mætir köldu, svo dæmi séu tekin. Gróft mætir glansandi fleti sem kallast á við svart hraun og bláhvítan ísjakann.”
Ingi segir að þó að línurnar hans hafi allar sín sérkenni tvinnist þær engu að síður saman. ,,Ég er alltaf að fást með einhverjum hætti við íslenska náttúru en línurnar draga út og beinast að ólíkum þemum. Mystic-línan leggur til dæmis sérstaklega upp úr dulúð náttúrunnar, á meðan Eldur og Ís-línan dregur út andstæður hins heita og kalda. Ég hef gaman af þeim öllum,” segir Ingi og bætir við að hann reyni að einbeita sér aðeins að einni línu í einu. ,,Ég er til dæmis búinn að vera upptekinn í Mystic-línunni undanfarið en hún er seinsmíðuð af ýmsum ástæðum og hægar breytingar í henni.“

Öskubuska og álfkonan
Hvað ætli eðalmálmar og eðalsteinar séu í huga Inga? „Ég ætlaði að segja gamalt grjót en... Eðalsteinar eru í mínum huga fyrirheit um fegurð. Óunnir og óslípaðir eru þeir svolítið eins og Öskubuska sem bíða eftir að álfkonan, sem verður víst að vera ég í þessu samhengi, geri þá að því sem þeir geta orðið svo þeir geti fengið notið sín og aðrir geti notið þeirra.“
Spurður um hvort hann upplifi hönnun sem gefandi starf koma vöflur á Inga. ,,Ég hef bara aldrei leitt hugann að því. En nú þegar ég er spurður og reyni að sjá fyrir mér hvernig það væri að hanna ekki, sé ég bara fyrir mér einhvern annan mann. Það að hanna gefur mér þá í öllu falli stóran hluta af því sem ég er. Mér finnst mjög gaman að hanna og gæti ekki hugsað mér að vera án þess. Það gefur mér kraft - kraft til að takast á við fleiri verkefni og fá hugmyndir, þróast og þroskast bæði sem hönnuður og persóna.“

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga