Greinasafni: Afþreying einnig undir: HeilsaMenntunSkipulag
Endurnýting byggingarefna á Ásbrú
Endurnýting byggingarefna á Ásbrú
Kadeco
Markmið og tilgangur Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, eða Kadeco, er að leiða þróun og uppbyggingu á Ásbrú, samfélagi frumkvöðla, fræða og atvinnulífs. Áhersla hefur verið lögð á hámarks endurnýtingu byggingarefnis þegar byggingar á svæðinu eru gerðar upp.


Þróunarfélag Keflavíkur–flugvallar hefur vakið athygli fyrir þann árangur sem hefur náðst við uppbyggingu á Ásbrú en tæplega 2.000 manns búa á Ásbrú og nær 60 fyrirtæki af öllum gerðum eru þar með starfsemi.
Um einstakt verkefni er að ræða á Íslandi á fjölmargan máta að mati Óla Arnar Eiríkssonar, verkefnisstjóra stefnumótunar- og markaðsmála hjá Kadeco.
„Hér er gríðarlegt magn af fasteignum tekið úr sínu upphaflega samhengi, sem er varnarstöð Nató, og fært yfir í annað, íslenskt samhengi. Þetta er í raun risastórt endurhönnunarverkefni. Það þarf að hugsa hverja byggingu upp á nýtt, ekki horfa á það hvað hún var, heldur á það hvað hún gæti orðið; hvernig getur hún nýst sínu umhverfi sem best? Við lögðumst í mikla skipulagsvinnu með samstarfsaðilum okkar og teiknuðum upp úr því nýtt skipulag sem tekur tillit til svæðisbundinna styrkleika Reykjaness.
Fyrir okkur er hönnun ekki takmörkuð við að skapa eitthvað glænýtt heldur snýst hún um að taka það sem fyrir er og umbreyta á þann hátt að nýtt samhengi skapist. Þetta erum við að gera með Ásbrú í heild sinni en hugmyndin er kannski sýnilegri þegar fólk skoðar ákveðnar fasteignir sem þjónuðu áður hernaðarlegum tilgangi en hýsa í dag gerólíka starfsemi. Gott dæmi um byggingu sem fær nýtt hlutverk er skotfærageymsla Nató en eftir umbreytingu þá eru þar tvö fyrirtæki með heilsutengda starfsemi: Listdansskóli Reyk–janesbæjar, Bryn Ballett og lífræni húðvöruframleiðandinn Alkemistinn.“

Mikill sparnaður

„Verkefni þróunarfélagsins voru hugsuð þannig að við myndum selja eignir og nýta það fjármagn sem kæmi úr sölu þeirra til þess að þróa næstu eignir og framkvæma umhverfisbætur á svæðinu. Frá upphafi voru sjálfbærni og endurnýting leiðarljós verkefnisins en þegar kreppti að þá höfðum við minna fjármagn á milli handanna og leituðum leiða til þess að halda verkefnum gangandi. Þá unnum við, ásamt verkfræðifyrirtækinu OMR áætlun um að endurnýta efni eins mikið og hægt væri, og þróuðum aðferðarfræði í kringum það. Þessi aðferð veldur því að vinnuliður verður hærra hlutfall af kostnaði en ella. Þetta krefst þess að smiðir vandi sig meira og gefi sér lengri tíma í verkið. Þrátt fyrir það höfum við fundið að mikill sparnaður er fólginn í þessu. Með þessari leið framkvæmum við sama verk fyrir færri krónur, framkvæmdin er umhverfisvænni og stærri hluti hverrar krónu fer í að borga laun.
Þegar aðilar koma til okkar og vantar aðstöðu fyrir fyrirtæki sitt eða verkefni þá skoðum við fyrst hvar það passar inn í skipulagið á Ásbrú. Í kjölfarið er lagt mat á það hvaða eignir gætu hentað þessari starfsemi. Svo greinum við hvernig byggingin liggur við ytra umhverfinu, göngustígum, bílastæðum og gatnakerfi. Við skoðum líka hverjar þarfir notenda hússins verða miðað við ákveðna starfsemi og hvernig byggingin getur svarað þeim þörfum. Í kjölfarið er kannað hversu vel núverandi skipulag hússins hentar undir starfsemina, hversu mikið af núverandi byggingarefni getur nýst við breytingar og ef það gengur mikið byggingarefni til hliðar, hvort það nýtist í aðrar framkvæmdir í framtíðinni.  Við viljum meina að þetta sé fyrirmyndarvinnulag og -viðbrögð við kreppu. Þetta er ágætis dæmi um það hvernig neyðin kennir naktri konu að spinna; að með minni pening í höndunum byrjuðum við að vinna á umhverfisvænni og ódýrari hátt en sköpuðum á sama tíma fleiri störf á hverja krónu.“

Kvikmyndaver í gömlu flugskýli

Óli Örn segir að Keilir sé gott dæmi um verkefni af þessu tagi en skólinn er í húsnæði þar sem herinn var áður með menntaskóla. Keilir var stofnaður árið 2007 og í fyrstu var gert ráð fyrir að uppbygging á framtíðar skólabyggingu myndi nema um tveimur milljörðum króna. „Skoðaðar voru hófsamari áætlanir í kjölfarið á kreppunni sem fólust í að nýta byggingu sem fyrir var á staðnum en það hefði samt kostað um milljarð að gera það húsnæði upp. Með því að fara í þessa hámarksendurnýtingu byggingarefna þá var endanlegur kostnaður undir 200 milljónum sem gerir þetta líklegast að alhagkvæmasta skólahúsnæði sem finnst á landinu.
Í menningarhúsinu Andrews á Ásbrú er flottur 500 sæta salur með stóru sviði. Það kostaði um 50 milljónir að koma húsinu í þetta flotta ásigkomulag og er það tiltölulega vel sloppið samanborið við ýmis frægari menningarhús.“ Óli Örn nefnir líka flugskýli sem notað var um tíma sem bifreiðaverkstæði en er í dag leigt út til kvikmyndatöku og vörusýninga. „Svo er það hinn sögufrægi Offiseraklúbbur sem búið er að skipta í tvennt. Annars vegar er um stóra veislusali að ræða sem gerðir hafa verið upp á upprunalegan hátt en síðan hefur hinn helmingurinn af húsinu verið opnaður upp og þar verður byggt upp safn um Kalda stríðið. Við sjáum fyrir okkur að þar gæti verið menningartengd ferðaþjónusta. Við teljum að það séu mikil verðmæti fólgin í því að reyna að endurnýta byggingar og byggingarefni eins og hægt er. Fólki finnst oft flottara að byggja nýtt án þess að skoða fyrst hinn möguleikann; auðvitað á það ekki alltaf við að gera upp og stundum þarf nýbyggingu til að uppfylla allar þær tæknilegu þarfir sem gerðar eru til starfseminnar. En það er víða hægt að spara með þessum hætti. Þegar fólk þarf að horfa í hverja krónu og það er mikið atvinnuleysi á sama tíma, þá hljóta menn að þurfa að gefa þessu, þó ekki nema sé örlítinn gaum.“


Kadeco
Skógarbraut 946 • 235 Reykjanesbæ
+354 425 2100
fyrirspurnir@kadeco.is
www.kadeco.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga