Greinasafni: List einnig undir: Arkitektar
Fágað og stílhreint - Prologus
Fágað og stílhreint
Guðmundur heitinn Einarsson, iðn- og vöruhönnuður, stofnaði Prologus árið 1997. Hann vann til verðlauna og viðurkenninga fyrir hönnun sína og hjá fyrirtækinu fæst stór hluti af hönnun hans sem bæði er fyrir fyrirtæki og heimili.

Guðmundur Einarsson nam iðn- og vöruhönnun við Istituto di Design á Ítalíu auk þess að stunda framhaldsnám við Rhode Island School of Design í Bandaríkjunum. Eftir að heim kom vann hann m.a. við ráðgjöf, vöruþróun og hönnun fyrir fyrirtæki og stofnanir hér á landi og erlendis og á sama tíma vann hann að eigin vöru- og húsgagnahönnun sem varð grundvöllur að Prologus.
Fágun og fagmennska eru einkunnarorð Prologus og er fyrirtækið í samstarfi við mörg íslensk iðnfyrirtæki sem hafa mikla reynslu af framleiðslu og smíði. Hjá Prologus er boðið upp á fjölbreytt úrval húsgagna og fylgihluta fyrir fyrirtæki og heimili og má þar nefna stóla, sófa, skenka, skiltalínur, sýningaskápa, bæklingastanda og skrifstofuhúsgögn. Þá er boðið upp á sérhönnun og aðlögun fyrir hvern og einn viðskiptavin.

Skemmtileg smáatriði

„Að hanna og skapa var líf hans og yndi,“ segir ekkja Guðmundar, Fríða Björk Einarsdóttir. „Þetta hljómar eins og gömul lumma en hann var byrjaður sem lítið barn að fá hugmyndir, hann smíðaði, fór á ruslahaugana og bjó til hluti úr því sem hann fann þar. Það má segja að hann hafi haft þá eiginleika að geta búið til gull úr steini.
Hugmyndafræði Guðmundar hvað varðar íslenska hönnun og framleiðslu var m.a. að viðhalda íslensku atvinnulífi, þróa og hanna vörur og nýta þar af leiðandi þá þekkingu sem er okkur nálæg. Hann lagði áherslu á að notagildið færi vel við hönnunina auk þess að leggja mikla áherslu á gæði. Fágun, hreinar línur og einfaldleiki einkennir hönnun hans; hlutirnir virka fyrirhafnalausir. Smáatriði kóróna verk hans; einfaldleikinn er áberandi en svo eru í þeim skemmtileg smáatriði sem gera þau sérstök.“
Litirnir: Svart. Hvítt. Örfáir hlutir eru í öðrum litum. Áherslan var að hlutirnir stæðust tímans tönn.

Rökrétt samhengi

Tveir hönnuður vinna hjá Prologus. Það eru þau Guðberg Björnsson iðnhönnuður og Kristín Sigurðardóttir innanhússhönnuður.
„Guðmundur var natinn og oft og tíðum smámunasamur á jákvæðan hátt,“ segir Guðberg. „Smáatriðin í hlutunum gera góða hönnun betri. Eins og Fríða talaði um vildi hann byggja upp atvinnulífið með því að nota íslenskt hugvit auk þess að nota innlent efni ef því var komið við. Íslenskar viðartegundir hafa t.d. verið notaðar í einstökum hlutum.
Guðmundur byggði hönnunina upp á rökréttu samhengi - að það sé t.d. ástæða fyrir því að saumurinn í stól liggi á ákveðnum stað; hann í rauninni byggði þetta upp þannig að það sé ástæða fyrir öllum línum og ákvörðunum í kringum hlutina og að hægt væri að komast að niðurstöðu samkvæmt ákveðnu ferli.“

Vildi ögra
Kristín segir að Guðmundur hafi lagt áherslu á þarfagreiningu áður en hönnunarferlið sjálft hófst. „Hann var óhræddur við að eyða tíma í að spjalla við viðskipavininn og komast að því hverjar þarfir hans og óskir væru áður en hafist var handa.“
Hún segir að Guðmundur hafi haft íslenska náttúru í huga við hönnunina; hún talar í því sambandi um hreinleikann og formin.
„Hann vildi ögra; hann vildi jafnvel að fólk héldi að það hlyti að vera óþægilegt að sitja í ákveðnum stól en svo kom annað í ljós þegar það settist í hann. Guðmundur vildi alls ekki að þægindin væru augljós.“
Að meginhluta til er selt hjá Prologus það sem Guðmundur hannaði og það aðlagað að tilteknum verkefnum. Guðberg segir að af og til komi nýjar fyrirspurnir og þá komi þau Kristín með tillögur að útfærslum og nýjum vörum.
Erlendir aðilar hafa haft samband og sýnt hönnun Guðmundar áhuga og er verið að skoða hvort selja ætti hönnun hans í öðrum löndum þar sem vörurnar gætu átt vel heima í nágrannalöndunum.
Guðmundur Einarsson lést langt um aldur fram. Segja má að Prologus sé minning um mann sem í óeiginlegri merkingu hafi getað búið til gull úr steini.
www.prologus.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga