Greinasafni: Söfn
Að gera söguna sýnilega - Leikmynd Björn G. Björnsson
Að gera söguna sýnilega
Björn G. Björnsson sýningahönnuður
Undanfarin 10-15 ár hefur orðið vakning í byggðum landsins í þá veru að draga fram sérstöðu sína með sýningum og setrum, gjarnan til að laða að ferðamenn og upplýsa þá um staðbundna sögu, atvinnuhætti, persónur eða viðburði. Við getum kallað þetta tilraun til að gera söguna sýnilega.

Hvað er það hér hjá okkur sem aðrir hafa ekki og við getum haldið á lofti okkur til framdráttar? Og svörin blasa við: Saltfiskur í Grindavík, Njála á Hvolsvelli, Eyjafjallajökull á Þorvaldseyri, Katla í Vík, Þórbergur í Suðursveit, jöklar á Hornafirði, Múlabræður á Vopnafirði, hvalir á Húsavík, þjóðlög á Siglufirði, kántrý á Skagaströnd, hafís á Blönduósi, selir á Hvammstanga, refir í Súðavík, galdrar á Ströndum, skrímsli á Bíldudal og jafnvel draugar á Stokkseyri.
Segja má að setravæðingin hafi hafist með Vesturfarasetrinu á Hofsósi 1996, þar sem vönduð sýning studdi vel við viðfangsefni setursins og kom Hofsósi „á kortið” með afgerandi hætti. Ári síðar tók Sögusetrið á Hvolsvelli til starfa með merkingu sögustaða og viðamikilli sýningu um tíðaranda sögualdar og efni Njáls sögu, en það var í fyrsta sinn að Íslendingasaga var viðfangsefni seturs af þessu tagi.
Mörg setur og sýningahús eru „gestastofur“ í eðli sínu (Visitor Centre) þar sem gestum er greint frá sérkennum og sögu svæðis eða einstaklings og bent á athyglisverða staði til að skoða og þau eru þannig hluti af hinni menningartengdu ferðaþjónustu.
Yfirleitt er ekki um söfn að ræða með þeim skyldum sem lögbundinni starfsemi safna fylgja, s.s. söfnun, skráningu, varðveislu og rannsóknum, þótt sum hafi orðið „safn“ í heiti sínu, heldur eru þetta fyrst og fremst sýningar. Oft á einhver söfnun muna sér stað í upphafi og svo ekki söguna meir. Dæmi um það er Bátasafn Gríms Karlssonar í Reykjanesbæ sem er í raun ekki safn heldur fastasýning á munum og sama má segja um Sögusafnið í Perlunni. Okkur hættir hins vegar til að kalla allt „söfn“ þar sem eitthvað er til sýnis.
Flest eru setrin utan byggðasafnanna og hinnar hefðbundnu minjavörslu, oft á forræði sveitarfélaga, samtaka og jafnvel einstaklinga. Nokkur hefðbundin söfn hafa sérstöðu hvað varðar vandaðar og fjölbreyttar sýningar sem draga að fjölda ferðamanna, t.d. í Skógum, á Seyðisfirði, Húsavík, Akureyri, Siglufirði, í Glaumbæ og á Ísafirði.
Með tilkomu setranna hefur orðið bylting í hönnun safna og sýninga. Meiri áhersla er á miðlun sögunnar og samhengi hlutanna en áður. Þar gegna m.a. textaspjöld með myndefni, kvikmyndir, gagnvirk margmiðlun og hljóðleiðsögn sífellt stærra hlutverki. Víða er staðið að verki af metnaði og smekkvísi og safngestir gera æ meiri kröfur til framsetningar sýninga, upplýsinga og upplifunar.
Engin söfn eru þó meira „lifandi“ en þau sem hafa lifandi fólk við leiðsögn, fólk sem kann sögu staðarins og handverk fyrri tíma, og er á engan hallað þótt Þórður í Skógum sé nefndur til sögu í því sambandi.

Afmæli Jóns Forseta

Á þessu ári var þess minnst að 200 ár voru frá fæðingu Jóns Sigurðssonar forseta og nokkrar sýningar settar upp af því tilefni. Flestar eru tímabundnar og standa út afmælisárið, en aðrar eiga sér franhaldslíf. Þannig er sýningin í Þjóðminjasafni Íslands hluti af grunnsýningu þess og verður þar næstu árin. Sýningin „Óskabarn – æskan og Jón Sigurðsson“ verður uppi í Þjóðmenningarhúsinu fram á sumar 2012 en fer þá væntanlega til skóla á landsbyggðinni.
Lengst líf á þó sýningin „Líf í þágu þjóðar“ á Hrafnseyri fyrir höndum. Hún var opnuð 17. júní s.l. og mun verða uppi á Hrafnseyri næstu tíu árin, ef að líkum lætur. Þar er þó aðeins opið yfir sumartímann, nema með undantekningum. Efnt var til samkeppni um hönnun sýningarinnar og Basalt arkitektar báru sigur úr býtum með hugmynd sem kallaðist „tímanna rás“. Áhersla var á léttleika og gagnsæi, speglun og dýptarvirkun í glerinu og dagsbirtan látin ráða ríkjum.
Sýningin er afar nýstárleg í framsetningu, en efni hennar birtist á 90 metra löngum, glærum vegg úr plexi-gleri; textar, myndefni, gagnvirk margmiðlun, umhverfishljóð og fleira. Framleiðsla sýningarinnar var nokkurt vandaverk þar sem m.a. þurfi að búa til margar „beygjur“ eða bogna fleti í plexi-gleri og svo að prenta sýninguna á filmur sem límdar voru á vegginn. Loks var sýningin flutt vestur í ótal bitum og sett upp í nýju og opnu rými þar sem áður var íbúð staðarhaldara á Hrafnseyri.
Aflað var tilboða í framleiðslu, prentun og uppsetningu sýningarinnar hér heima og í Bretlandi en það voru Format-Akron og Merking sem tóku verkið að sér. Vinnan við plexi-glerið og prentunina tók marga mánuði og sýningin var tilbúin viku fyrir Hrafnseyrarhátíð 17. júní þegar hún var formlega opnuð af forseta Íslands og forsætisráðherra. Guðjón Friðriksson sagnfræðingur er höfundur alls texta á sýningunni á Hrafnseyri og einnig sýningu í Jónshúsi í Kaupmannahöfn.
Hornsteinar arkitektar hönn–uðu breytingar á húsakynnum á Hrafnseyri og gerðar voru verulegar endurbætur á umhverfi hússins og aðgengi allra gesta bætt til muna. Sýningin dró að sér mikinn fjölda gesta þann tíma sem hún var opin í sumar og hún þykir bæði fróðleg, nýstárleg og vönduð.
Það var forsætisráðuneytið sem stóð straum af kostnaði við 200 ára afmælishald Jóns Sigurðssonar. Framkvæmdin á Hrafnseyri er eitt stærsta verkefni á sviði menningartengdrar ferðaþjónustu sem ráðist hefur verið í af hálfu hins opinbera mörg undanfarin ár og það langstærsta á Vestfjörðum.
Þessari umfjöllun fylgja ljósmyndir af nokkrum setrum og sýningum sem greinarhöfundur hefur unnið að á undanförnum árum.
www.leikmynd.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga