Greinasafni: Afþreying einnig undir: List
Góður tækjakostur og mikil þekking
Góður tækjakostur og mikil þekking
Merking
Merking sér m.a. um prentverk og uppsetningu á sýningum og má þar nefna sýningarnar á Hrafnseyri, í Gunnarsholti, sýninguna 871±2 í miðbæ Reykjavíkur og Þjóðminjasafn Íslands. Fyrir eina sýninguna voru myndir prentaðar og límdar á plexígler, fyrir aðra var prentað á álplötur og fyrir þá þriðju var prentað á tau og pappír.


Fyrirtækið var stofnað árið 1976 og státar af góðum tækjakosti; þar af eru fimm öflugar prentvélar og getur sú stærsta prentað á allt að fimm metra breiðan flöt í einu.
Fagfólk með áratuga starfs–reynslu vinnur hjá fyrirtækinu og hefur það séð um fjöldann allan af sýningum í áranna rás.
„Við getum séð um allt prentverk og uppsetningu á sýningum,“ segir Jóhannes Frank Jóhannesson sölufulltrúi. „Í flestum tilfellum kemur viðskiptavinurinn til okkar með mótaðar hugmyndir - jafnvel teiknaðar upp eftir arkitekta og innanhússhönnuði - og vill fá tilboð í verkið eða þá að hann kemur til að fá verðhugmyndir. Við bendum þá viðkomandi til dæmis á nokkrar leiðir varðandi lausnir. Við fáum lítið að koma að sýningarhönnuninni fyrir fram sem er ákveðinn galli í mörgum tilvikum því við getum oft bent sýningarhönnuðum á hluti sem er kannski ekki hægt að framkvæma á landinu; við bendum þá á einfaldari, ódýrari og fljótvirkari leiðir eða að hlutir verða að vera gerðir á ákveðinn hátt svo ending og gæði haldist.“

Ýmsar aferðir

Engar tvær sýningar eru eins og segir Jóhannes Frank að það þurfi að finna ýmsar aðferðir fyrir hverja sýningu. „Þegar hugmynd kemur upp breytist hún oft í ferlinu þar sem oft þarf að finna upp aðrar aðferðir heldur en voru hugsaðar í byrjun.“
Hann nefnir nokkrar áhugaverðar sýningar þar sem Merking kom t.d. að prentverki og uppsetningu.
Umfangsmiklar endurbætur voru gerðar á Hrafnseyri við Arnarfjörð í tilefni 200 ára afmælisárs Jóns Sigurðssonar í sumar. 90 metra langur, gegnsær veggur úr plexígleri er umgjörð sýningarinnar en hugmyndin er komin frá Basalt arkitektum sem valin var eftir samkeppni. Þar er að finna myndir og upplýsingar um Jón auk þess sem gestir geta fengið aðgang að margmiðlunarefni.
„Ég veit ekki til þess að neins staðar í heiminum hafi svona mikið plexígler verið notað í eina sýningu með því að nota þá aðferð sem var beitt. Þetta var mjög flókin sýning. Allt myndefnið er prentað á sérstaka filmu sem er alveg tær og ósýnileg á plexíglerveggnum en þannig sést allt myndefni og texti mjög vel; við getum með sérstakri UV (Ultraviolet) prenttækni prentað á þessa filmu sem síðan er límd á plexíglerið sem Merking sá síðan um að setja upp á Hrafnseyri við Arnarfjörð. Veggurinn er límdur saman til að mynda eina heild þar sem hann hlykkjast meðfram veggjum húsins í beinum köflum jafnt sem bognum.

Notkun á taui að aukast

Jóhannes Frank nefnir líka sýningu á Gunnarsholti þar sem er sýning um sögu landgræðslu á Íslandi. Þar er texti og myndir á álplötum. „Í því tilfelli var prentað beint á plötur en ekki límt - það er munur frá því sem áður var. Í því tilfelli koma vélar meira að þessu heldur en mannshöndin; ein vél til dæmis prentar og önnur sker út álið. Útkoman er því önnur en áður þar sem allur skurður er mun nákvæmari og ekki er eins mikil hætta á að myndir flagni þar sem um er að ræða prentun beint á efnið.
Þessi aðferð að prenta beint á plöturnar gaf mjög góða áferð sem sýningahönnuðirnir voru mjög sáttir við, myndirnar eru síðan settar á veggi sýningarsalarins með festingum sem eru ekki sjáanlegar sem gefur myndum annað vægi og þær viðrast fljóta meira á veggnum. Þær eru einnig án ramma og nær myndefnið út í kant.“
Einnig má nefna sýninguna 871±2 í miðbæ Reykjavíkur þar sem Merking sá fyrir nokkrum árum um allt frá litlum myndum upp í lýsingu með díóðum sem voru þá að riðja sér til rúms hér á landi. Díóður (LED) eru einnig notaðar innanhúss í hinar ýmsu sýningar þar sem orkunotkun þeirra er lítil og þær gefa engan hita sem í mörgum tilvikum kemur sér vel þar sem oft er um að ræða viðkvæma sýningargripi.
Þá má nefna sýningu í Víkingaheimum í Reykjanesbæ þar sem Merking sá m.a. um að prenta texta á segl, álplötur og límfilmu.
Einnig sá Merking um uppsetningu og framleiðslu á núverandi sýningu í Þjóðminjasafni Íslands en þar var mikið af letri skorið í límfilmu.
PVC, ál, timbur, MDF og fóm er mikið notað í stafi, merki og fleira sem tengist sýningum. Merking getur framleitt úr öllum þessum efnum og sprautað í öllum litum en fyrirtækið hefur yfir að ráða mjög öflugum sprautuklefa sem gerir alla málningar og sprautuvinnu einfaldari.
„Notkun á taui er að aukast í sýningum og kemur það í stað pappírs og límfilmu og á næstu árum munum við sjá aukningu í þessa átt sem og aukningu á notkun á díóðum en þær verða sífellt hagkvæmari valkostur sem og að þær verða einnig minni og auðveldari í meðförum.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga