Greinasafni: Afþreying einnig undir: Arkitektar
Rammahús Byko
Rammahús Byko
Grunnpakki að 32 fm húsi, sem inniheldur grind, glugga, hurðir, krossvið utan á hús, klæðningu og þakefni kostar 2,3 milljónir króna

Sennilega hefur aldrei fyrr verið jafn auðvelt að byggja sumarhús og með nýju Rammahúsunum frá BYKO, en rammi þeirra kemur forsniðin frá Lettlandi og tilbúinn í pakka. Gluggar í húsin eru verksmiðjuframleiddir í Lettlandi, og allir í standardstærðum. Húsin eru hönnuð í samræmi við íslenskar byggingareglugerðir og er hönnuður þeirra Magnús H. Ólafsson, margreyndur hönnuður á sviði eininga- og sumarhúsa. Allar bygginganefndarteikningar fylgja, og margar gerðir teikninga eru í boði. Engin tvö hús eru eins. Efnið í húsin er framleitt eftir ströngustu gæðakröfum sem gerðar eru til sumarhúsabygginga á Íslandi. Innifalið er gerð aðalteikninga, skráningartöflu, sérteikninga og burðarþolsteikninga að því gefnu að fyrir liggi samþykkt deiliskipulag eða ígildi þess hjá viðkomandi sveitarfélagi og afstöðumynd til notkunar við gerð aðalteikninga.
Efnispakkann má fá í mörgum stærðum, allt frá 14 upp í 49 fermetra rammahús. Þau byggja öll á sömu grindareiningunni og eru því öll jafn breið. Auðvelt er að stækka húsin sem einnig getur verið spennandi valkostur í ferðaþjónustu þar sem hægt er að hafa húsin sem lengju smærri gistirýma með allt að 2-12 íbúðum. Raflagnir og pípulagnaefni er ekki innifalið í efnispökkum.

Efnispakkar - veldu þitt byggingarstig
Burðarviður í húsin kemur tilsniðinn í réttum stærðum og lengdum ásamt festingum með greinargóðum leiðbeiningum en sperrur og gólfbitar koma samsett. Auk þess að geta fengið húsin í fjölmörgum stærðum þá er hægt að kaupa 3 mismunandi efnispakka fyrir hvert og eitt hús sem helgast þá af því hversu mikið eða langt er farið í byggingu sumarhússins. Minnsti efnispakkinn innifelur að allt efni til að gera húsið tilbúið að utan, fokhelt að innan. Næsti efnispakki innifelur að gera húsið tilbúið að utan og innan með innihurðum og gólfefnum. Þriðji efnispakkinn miðast við fullbúið hús með innréttingum og tækjum en sölumenn reikna pallaefni og skjólgirðingar eftir óskum hvers og eins.
Hönnuður rammahúsa BYKO er Magnús H. Ólafsson arkítekt FAÍ, sem kom til samstarfs við BYKO eftir að einn af hans viðskiptavinum kom í timbursölu BYKO og spurði hvað slíkur efnipakki mundi kosta eins og af sumarhúsi sem Magnús hafði teiknað. Þetta vakti athygli sölumanna BYKO sem leiddi til þess að Magnús var kallaður á fund sem varð byrjunin á því farsæla samstarfi sem er í gangi í dag milli Magnúsar og BYKO.

Forsniðið efni í frístundahús

BYKO á húseiningaverksmiðju í Lettlandi og það vantaði verkefni fyrir hana. Fram til þessa hafði BYKO í Lettlandi selt hundruðir einingahúsa sem eru allmiklu dýrari en þau rammahús sem nú er verið að bjóða upp á.
Starfsmenn BYKO hafa um alllangt skeið hugleitt með hvaða hætti væri hægt að bjóða ódýrari frístundahús en til þessa hafa almennt verið á markaðnum. Í þeim var farið að huga að framleiðslu á forsniðnu efni til húsbygginga sem er mun ódýrari kostur en þau einingarhús sem áður var verið að framleiða hjá BYKO. ,,Hingað kemur ramminn að húsinu ásamt gluggum og hurðum og kaupandinn fær svo keypt allt efni til þess að reisa húsið og innrétta það að fullu. Grunnpakki að 32 fm húsi, sem inniheldur grind, glugga, hurðir, krossvið utan á hús, klæðningu og þakefni kostar í dag 2.360.455 krónur eða um 73.764 kr/fm, en ef við bætist einangrun, panell, milliveggir, gólfefni, innihurðir, innréttingar og tæki í eldhús og bað er verðið 3.855.916 krónur. Þetta er nýjung á markaðnum,” segir Kjartan Long sölumaður.
Hönnuður rammahúsanna, Magnús H. Ólafsson arkitekt FAÍ, segir að fyrsta húsið hafi risið austur á Fljótsdalshéraði sl. vor og það hafi gengið nánast snuðrulaust. Síðan hafa risið fimm hús til viðbótar, auk þess sem tvö hús munu rísa nú í nóvember. ,,Þetta hús fyrir austan er tæpir 50 fm að stærð, en slíkt hús kostar í dag með innréttingum og tækjum um 5 milljónir króna. Reikna má með að sökklar og kostnaður við að reisa húsið sé um 2,5 milljónir króna. Það tók aðeins 10 daga að reisa það og svo skammur tími er auðvitað einnig hluti af hagkvæmni þess að kaupa rammahúsin hjá BYKO,” segir Magnús H. Ólafsson.

Samþykkt deiliskipulag er forsenda
Aðstoðið þið kaupendur sem ekki eiga land eða lóð undir hús við að útvega eða finna heppilegan stað fyrir rammahús sem yrði keypt af ykkur?
,,Nei. Það er forsenda fyrir lágu verði á þessum húsum að deiliskipulag fyrir það svæði þar sem það á að rísa liggi fyrir. Öll undirbúningsvinna og skipulag þarf að liggja fyrir staðfest af hálfu viðkomandi sveitarfélags. Við erum heldur ekki að fara inn á markað húsasmíðameistara með því að sjá um grunn fyrir húsin eða ganga frá sökklum og alls ekki að reisa húsin. Með hliðsjón af þeirri reynslu sem fékkst við að reisa fyrsta húsið höfum við bætt og lagfært listann yfir það sem þarf til, s.s. fjölda og stærð af skrúfum og fleiru sem til þarf enda er það mjög tímafrekt og dýrt ef eitthvað vantar til þess að hægt sé að reisa húsið hratt og öruggglega, og án nokkurra teljandi hnökra. Það er mikilvægt fyrir kaupandann fjárhagslega að húsasmíðameistarinn þurfi ekki að leggja á sig ferðalag í næstu byggingavöruverslun til að nálgast það sem á vantar. Það kostar sitt,” segir Kjartan Long.
Magnús H. Ólafsson segir að BYKO hafi kynnt fyrir félags–mönnum í Ferðaþjónustu bænda þennan möguleika og þegar hafi nokkrir feraþjónustubændur komið og kynnt sér málið og sýnt þessum ódýra möguleika mikinn áhuga. ,,Ferðaþjónusta bænda er ört vaxandi starfsemi og sá þáttur hennar að vera með lítil sumarhús sem eru búin öllum nauðsynlegum þægindum fer stöðugt vaxandi. Auk þess er hægt að reisa þessi hús á afar skömmum tíma, eða 2 til 3 vikum.”


Fulleinangruð frístundahús
!

Eru rammahúsin heilsárshús?
,,Þetta orð heilsárshús er rangyrði. Þetta eru fulleinangruð frístundahús. Með heilsárshúsi ertu að bera þessi hús saman við íbúðarhús í byggð en allt aðrar kröfur eru gerð til slíkra húsa samkvæmt byggingareglugerð. Til frístundahúsa eru ekki gerðar sömu kröfur í bygginga–reglugerð, t.d. hvað varðar stærð svefnherbergja og þau eru oft byggð á steyptum súlum en ekki á steyptri botnplötu,” segir Magnús H. Ólafsson.
Efnahagsvandi hefur steðjað að Íslendingum síðan árið 2008 sem ekki síst hefur komið niður á byggingum á frístundahúsum. Er að ykkar mati að vakna meiri áhugi á að byggja svona hús sem þá bendir til þess að efnahagur margra landsmanna sé að batna?
,,Það voru margir sem keyptu lóðir undir frístundahús fyrir upphaf kreppunnar en höfðu ekki aðhafst neitt, og því standa margar þessara lóða tómar í dag, þ.e. án sumarhúsa.  Þetta framboð BYKO hefur kveikt áhugann hjá mörgum, enda eru flestir sem hyggja á byggingu sumarhúss að hugleiða verð á slíkum húsum. Slíkur hugsanagangur var vart þekktur fyrir upphaf efnahagskreppunnar hérlendis. Þá var oft bara keypt, algjörlega burtséð frá verði. Húsin okkar eru afar góður kostur fyrir þá sem nú hugsa sér til hreyfings og vilja byggja sumarhús,” segir Kjartan Long, sölumaður hjá BYKO
.

Myndbönd

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga