Greinasafni: Orka einnig undir: List
Lýsingarhönnun er birtingarmynd ljóssins
Lýsingarhönnun er birtingarmynd ljóssins
- og er þar bæði átt við dagsbirtu og rafmagnsbirtu

Verkfræðistofan Verkís er öflugt og framsækið ráðgjafarfyrirtæki sem býður fyrsta flokks þjónustu á öllum sviðum verkfræðiráðgjafar og skyldum greinum. Þar starfa rúmlega 300 manns að fjölbreyttum verkefnum á Íslandi og erlendis.
Verkís rekur uppruna sinn aftur til ársins 1932 og fagnar því 80 ára afmæli á næsta ári. Áratuga reynsla og þekking skilar sér til viðskiptavina í traustri og faglegri ráðgjöf og fjölbreyttum lausnum.
Verkís hefur á að skipa mjög öflugu lýsingarhönnunarteymi, en það skipa þau Guðjón L. Sigurðsson rafmagnsiðnfræðingur og lýsingarhönnuður sem hefur starfað við lýsingarhönnum í 24 ár. Guðjón er formaður Ljóstæknifélags Íslands, formaður fagráðs um lýsingarhönnun í Tækniskólanum og er faglegur meðlimur alþjóðlegu lýsingarsamtakanna „Professional Lighting Design Association“.  Kristín Ósk Þórðardóttir er rafmagnsverkfræðingur, menntuð í Danmörku og er verðandi vottunaraðili  fyrir breska vottunarkerfið BREEAM sem er matskerfi fyrir vistvænar byggingar.  Reynir Örn Jóhannesson er tækniteiknari og lýsingarhönnuður og hefur starfað hjá Verkís síðustu 13 árin. Reynir lærði lýsingarhönnum í Tækniskólanum.  Rósa Dögg Þorsteinsdóttir lærði innanhússarkitektúr í Mílanó á Ítalíu en eftir nokkurra ára starf sem innanhússarkitekt kláraði hún lýsingarhönnunarnám í Tækniskólanum og hóf störf hjá Verkís eftir það.

Verkís vann Norrænu Lýs–ingarhönnunarverðlaunin árið 2006 fyrir lýsingarhönnun Lækningalindar Bláa Lónsins.

Lýsingarhönnun nýtur vaxandi athygli í nútíma þjóðfélagi og stöðugt fleiri gera sér það ljóst að jafnvel of mikil lýsing geta verið umhverfisspjöll og valdið ljósmengun. Með ljósmengun er átt við þau áhrif sem umhverfið verður fyrir af mikilli og óhóflegri lýsingu í næturmyrkri og verður sýnilegt sem bjarmi yfir borgum. En hvað veldur ljósmengun? Algengasta orsökin er slæmur frágangur á ljósastæðum í götu- og veglýsingu og þegar ljósið fer til spillis við flóðlýsingu mannvirkja.

Byggingareglugerð tekur til ljósmengunar

Í væntanlegri byggingareglugerð hefur verið bætt við klausu um ljósmengun þar sem menn eru hvattir til að huga að fyrirbyggjandi aðgerðum til að sporna gegn ljósmengun. Það skuli vera gert með því að tryggja að útilýsingu sé beint að viðeigandi svæði og gæta þess við uppsetningu og endurnýjun á götu- og veglýsingu að nota vel skermaða lampa sem varpa ljósinu niður og valda þar af leiðandi minni glýju og næturbjarma.

Lýsingarhönnun er birtingamynd ljóssins

Hvað er lýsingahönnun og hversu mikils virði er hún í byggingatækni í dag? Af hverju á yfirleitt að hugsa um lýsingarhönnum við nýbyggingar eða við endurnýjun stærri bygginga eða stofnana. Margir telja enn að þetta sé fyrst og fremst verkefni rafvirkja, er ekki nóg að búa til perustæði og skrúfa síðan einhverja peru þar í?
Guðjón L. Sigurðsson, sem jafnframt leiðir lýsing–arhönnunarteymi Verkís, segir að lýsingarhönnun sé birtingarmynd ljóssins og það á bæði við um dagsbirtu og rafmagnsbirtu.  Hlutverk lýsingarhönnuða er að vinna náið með og skilja óskir arkitekta og verkaupa, mæta kröfum um virkni og þægindi, uppfylla staðla og reglugerðir, velja búnað, reikna lýsinguna, skipuleggja uppröðun, uppsetningu og stýringar og gera kostnaðarútreikninga  „Lýsingarhönnun er tvímælalaust vistvæn hönnun.  Verkís veitir ráðgjöf vegna ,,architectural lighting”, en þar er m.a. átt við að nýta sér form mannvirkisins þannig að styrkur og eiginleikar ljóssins undirstriki formið og skapi rétta upplifun.  Það miðast ekki bara við að lýsingin sé þægileg heldur ekki síður að hún þjóni sínum tilgangi. Stundum eru þægindin ekki tilgangur lýsingarinnar, t.d. í tannlæknastól eða á á skurðstofu sjúkrahúss, heldur þarf að huga að hvaða lýsing hentar best við þær aðstæður sem hún á að þjóna. Stundum þarf að skapa ,,agressívt” andrúmsloft, eins og t.d. í yfirheyrslurými hjá lögreglunni.  Lýsingarhönnun kemur oft á tíðum mjög seint inn í hönnunarferlið en mikilvægt er að koma að hönnunarborðinu í byrjun verks, mikilvægast er náið og gott samstarf við arkitekta og aðra hönnuði. Góð lýsingarhönnun eykur virði mannvirkja og stuðlar að bættri notkun”.
Rósa Dögg Þorsteinsdóttir segir að við hönnun þurfi að huga að sjálfbærni.  Sjálfbærni er skilgreint í þrjá jafna þætti, þ.e. félagslegur-, umhverfis- og hagkvæmnisþáttur.  Oft sé hugsað um arðsemi lýsingar en hún skapast meðal annars af rekstri lýsingarkerfa. Alltof oft gerist það að þegar verktaki er að byggja sjálfur og hefur engan hag af því að ljósin séu hagkvæm í rekstri ræðst hans ákvörðun af stofnkostnaði og hvaða ljós eru ódýrust.  „Við reynum hins vegar alltaf að fá viðskiptavininn og aðra sem koma að verkefninu að hugsa til lengri tíma, að skoðaðir séu kostnaðarliðir með tilliti til reksturs og sjálfbærni.”
Er vakning í þá átt í þjóðfélaginu að huga betur að lýsingu, ekki síst með tilliti til vistvænnrar notkunar?

Ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar
Lýsingarteymi Verkís hefur hlotnast ýmsar viðurkenningar fyrir þá hönnun sem þar hefur verið unninn og ýmis erlend fagtímarit, s.s. „Professional Lighting Design“, „Mondoarc“, „Lyskultur“, „Lys“, „L+D“ og „Lightlife“ hafa birt myndir af mannvirkjum þar sem lýsingahönnun Verkís hefur notið sín og vakið alþjóðlega athygli.  Í nýútkominni bók um norræna lýsingarhönnun, „Nordic Light – Interpretations in architecture“ á Verkís m.a. þrjú verk af þeim 28 sem eru í bókinni eða Bláa lónið, Snæfellsstofu, Hörputorg og bílastæðakjallari við Hörpu.  Torgið við tónlistarhúsið Hörpu fékk ein af þrennum norrænu arkitektaverðlaununum sem afhent voru í Gautaborg fyrir skömmu en Verkís sá um lýsingarhönnun torgsins.


Guðjón segir að lýsingarteymi Verkís fái öðru hverju inn verkefni sem snúi að hönnun lýsingar  fyrir einstaklinga en fyrst og fremst séu verkefni þeirra tengd stærri mannvirkjum.  Viðhorf almennings mótist töluvert af auglýsingum frá framleiðendum eða umboðsmönnum þeirra og það verði oft að taka tillit til þeirra sjónarmiða.  Margir arkitektar segja að lýsingarhönnun sé fjórða víddin í hönnun mannvirkja og með vaxandi áhuga verkkaupa hafi þáttur hennar aukist umtalsvert.

Ýmsar alþjóðlegar viðurkenningar
Eins og kemur fram hér til hliðar hefur lýsingarteymi Verkís fengið ýmsar viðurkenningar fyrir hönnun sína  Þau nýlegustu voru afhent í Gautaborg fyrir skömmu þegar torgið við tónlistarhúsið Hörpu fékk ein af þremur norrænu arkitektaverðlaununum.  Landslag hannaði torgið í samstarfi við Batteríið arkitekta og í samráði við Henning Larsen Architects og Ólaf Elíasson listamann.  Verkfræðiráðgjöf var í höndum Verkís og Mannvits, en Verkís sá um lýs–ingarhönnun torgsins, hönnun rafkerfa og lagna svo sem snjóbræðslulagna.
Verkfræðistofan Verkís hefur einnig gefið út bækling um lýsingahönnun þar sem birtar eru myndir af ýmsum verkefnum.  Þar má nefna skrifstofur Straums við Borgartún og Norvikur á Bíldshöfða, bílaumboðið Öskju, áherslulýsingu á listaverk í garði listasafns Einars Jónssonar og á Stafkirkjuna í Vestmannaeyjum, skrautlýsingu á rafmagnsmastur skammt frá Straumsvík, bleika lýsingu fyrir fyrir Krabbameinsfélagið og lækningalind Bláa lónsins.
,,Við erum markvisst að gera lýsingarhönnun að sérfagi og m.a. er ég í nefnd alþjóðasamtaka lýsingarhönnuða, PLDA, sem stefna að því að fá lýs–ingarhönnun viðurkennda á heimsvísu.  Liður í því er að byggja upp nám við háskóla um allan heim og samræma menntun þeirra og námsskrár þannig að bæði fagið og námið verði viðurkennt. Ég tel að mjög stutt sé í að það takist en þetta starf er líka unnið í samvinnu við IALD, sem eru amerísk samtök lýsingarhönnuða og Evrópusambandið í formi reglugerða” segir Guðjón L. Sigurðsson.
Ljós og heilsa nátengd
Áður fyrr var lýsingarhönnun aðallega á verksviði raf–magnshönnuða eða rafvirkja og þá kannski takmarkað tekið tillit til dagsbirtunnar og mikilvægi hennar í lýsingarferlinu öllu.  Nú á allra síðustu tímum hefur hins vegar skapast rými til sérhæfingar lýsingarhönnuða sem kemur vegna þess að skilningur fer vaxandi á því í þjóðfélaginu að lýsing er mikilvæg og ekki er sama hvernig hún er hönnuð. Einnig er farið að gera kröfur um orkunýtni bygginga um að lýsingin fari ekki upp fyrir ákveðin vött á fermeter og ef það tekst ekki þá þarf að sanna hvernig hægt er að ná því til baka með ákveðinni stýringu.   Í Evrópu er krafa um að í öllum byggingum 1.000m² eða stærri sé tekið tillit til þessara krafna.
,,Það er líka að verða stöðugt ljósara að ljós og heilsa eru nátengd, því ljósið hefur mikil áhrif á líkamsklukkuna. Það er vísindalega sannað. Bláleitt ljós getur t.d. stuðlað að því að fólk sé meira vakandi, bláa ljósið er orkuríkara og mannsaugað því næmara fyrir því ljósi en öðru. Þessu er best lýst með vísun í dagsljósið og litbrigði þess, það er bláleitt þegar við vöknum á morgnanna og rauðleitt þegar við leggjumst til rekkju á kvöldin. Það sama gerist með raflýsinguna, bláleitt ljós heldur okkur vakandi og rauðleita ljósið veitir ró og undirbýr okkur fyrir svefn. Við höfum verið að halda þessum vísindum nokkuð að okkar viðskiptavinum og að velja ljóslit í samræmi við notkun í rýmum, t.d að nota frekar bláleitara, stundum kallað kalt ljós í skrifstofurýmum þar sem það hafi sýnt fram á að það auki afkastagetu . Kannski erum við að fara að vissu marki úr tækniöld inn í heilsuöld. Fyrir einni öld eða svo var það vísindalega sannað að ekki þurfti nema 30 lúx, sem er mælieining á ljósmagn, við lestur en í dag eru 500 lúx talin nauðsynleg samkvæmt stöðlum. Er þetta eðlileg þróun eða þarf að endurskoða staðla miðað við umhverfi okkar í dag þar sem lestur af upplýstum tölvuskjá er orðinn sífellt algengari” segja fjórmenningarnir í teyminu.
Það sem fyrir teyminu vakir er að kynna að þau mynda lýsingarteymi innan verkfræðistofunnar sem vinnur markvisst að því að auka veg lýsingar, enda sé lýsingarhönnun sérstakt fag í umhverfi sem gerir stöðugt kröfur um umhverfisvænna samfélag.  Hópurinn hefur til að mynda tekið að sér kennslu á námsbraut í lýsingarfræðum við Tækniskólann og áfanga í lýsingarfræði í meistaranámi við Rafiðnaðarskólann.  Með þessu telur teymið að það sé að fylgja hugmyndafræði frá alþjóðlegri lýsingarráðstefnu í Madrid þar sem þátttakendur voru hvattir til að snúa aftur til náttúrunnar, velja gæði umfram magn, dreifa þekkingunni og upplýsa almenning.

Víðtæk starfsemi Verkís
Starfsemi Verkís skiptist í sjö svið, þar af fimm markaðssvið sem annast hvert um sig einn megin þjónustuþátt verkfræðistofunnar, þ.e. vatnsorka og orkuflutningur en Verkís hefur í áratugi verið í fararbroddi við hönnun vatnsaflsvirkjana á Íslandi; jarðvarmi og veitur sem veitir alhliða verkfræðiráðgjöf vegna jarðvarmavirkjana og hitaveitna; umhverfi og framkvæmdir sem sérhæfir sig m.a. í hönnun samgöngumannvirkja sem og umhverfis-, öryggis- og heilbrigðisráðgjöf; byggingarsvið sem veitir alla tæknilega ráðgjöf sem lýtur að gerð bygginga; og iðnaðarsvið sem veitir hvers konar iðnfyrirtækjum alhliða þjónustu.
www.verkis.is

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga