Greinasafni: Skipulag einnig undir: ListArkitektar
Vinna fyrir fjölda hönnuða - GÁ húsgögn
Vinna fyrir fjölda hönnuða
GÁ húsgögn hafa rúmlega 30 ára reynslu af sérsmíði húsgagna auk þess að taka að sér verkefni tengd bólstrun. Þá er fyrirtækið í samvinnu við fjölda hönnuða og sérsmíðar jafnvel húsgögn eftir óskum einstaklinga. Hjá fyrirtækinu starfa fagmenn með mikla reynslu og er lögð áhersla á vönduð vinnubrögð.

Grétar Árnason stofnaði GÁ húsgögn árið 1975 og er fyrirtækið eitt elsta húsgagnafyrirtæki landsins. Húsbóndastóllinn Kiwi var til dæmis lengi framleiddur og seldist vel og var það upphafið að framleiðslunni.
„Húsnæði fyrirtækisins hefur t.d. á síðastliðinum 15 árum stækkað mikið og í dag er það um 700 fm,“ segir Erlendur Sigurðsson framleiðslustjóri. „Starfsmannafjöldi hefur aukist, verslun var opnuð fyrir nokkrum árum og var byrjað að selja þar framleiðslu fyrirtækisins í staðinn fyrir að selja þau í öðrum verslunum. Þá getur viðskiptavinurinn talað beint við þá sem smíða hlutina.“
Fyrirtækið sérhæfir sig í framleiðslu á húsgögnum og bólstrun fyrir heimili, stofnanir, hótel og veitingahús. Lögð er áhersla á fagmennsku og hjá fyrirtækin starfa fagmenn með mikla reynslu og menntun. Fyrir utan að smíða og bólstra húsgögn flytur fyrirtækið inn að mestu leyti aðföng þau sem notuð eru til framleiðslunnar svo sem leður, áklæði og svamp.

Í samstarfi við hönnuði
GÁ húsgögn eru í samstarfi við fjölda hönnuða og arkitekta sem annaðhvort láta fjöldaframleiða húsgögn fyrir sig hjá fyrirtækinu eða láta sérsmíða fyrir fyrirtæki, stofnanir, hótel eða einstaklinga. Lögð er áhersla á góða samvinnu og vandaða vinnu.
„Hönnuðirnir koma til okkar með teikningar svo sem af sófum eða stólum. Starfsmenn GÁ húsgagna fara yfir þær með hönnuðunum og síðan smiðum og fylgjast hönnuðirnir síðan með ferlinu og að allt sé vel gert.
Stefnt er að því að framleiða vandaða og góða hluti sem eru samkeppnishæfir við erlenda vöru og þess vegna sækjast margir hönnuðir og arkitektar í að vinna með okkur.“
Á meðal nýjunga má nefna að GÁ húsgögn eru að fara að framleiða og selja „Sindra-stólinn“ í samstarfi við ekkju og fjölskyldu hönnuðarins Ásgeirs Einarssonar. Sóló-húsgögn framleiðir grindina og íslensk gæra kemur frá Loðskinni.

Séróskir einstaklinga
Ekki finna allir í verslunum húsgögn að eigin smekk og koma einstaklingar reglulega og biðja um sérsmíði. „Fólk kemur jafnvel með tvær til þrjár myndir af til dæmis stól eða sófa sem það fann á netinu og vill jafnvel blanda áherslunum í þeim saman í einn stól eða sófa. Sumir hafa rissað upp hugmyndir. Það er gaman að því þegar fólk hefur ákveðnar skoðanir og segist ekki finna neitt í búðunum. Húsgagnabólstrarar hjá GÁ húsgögnum líta á myndir eða fara yfir riss og teikningar og er algengt að hægt sé að útfæra óskir viðskiptavinanna með því að nota grunngrindur og útfæra síðan húsgagnið í samræmi við óskir þeirra.“

Einfaldleikinn
Starfsfólk GÁ húsgagna fer reglulega á sýningar erlendis til að skoða það nýjasta sem tengist t.d. áklæðum, verkfærum og saumavélum. „Við þurfum að velja fyrirtæki sem framleiða efni og áklæði til að flytja inn og fylgjumst með nýjungum til að sýna hönnuðum. Saumavélar skipta miklu máli í húsgagnabólstrun og reynum við að endurnýja þann tækjakost eins mikið og við getum.“
Erlendur segir það misjafnt eftir því hvort um til dæmis hótel eða einstaklinga er að ræða hvað einkenni efni og liti. „Einfaldleikinn og létt yfirbragð er vinsælla hjá einstaklingum en meiri litir og jafnvel mynstur sem í stíl sjöunda áratugarins eru vinsæl þegar kemur að hótel og veitingahúsum. Hönnuðir hafa jafnvel verið að koma með notuð húsgögn sem þeir láta gera upp á skemmtilegan hátt fyrir veitingastaði.“
Erlendur segir að meira sé að gera hjá hönnuðum - og þar með GÁ húsgögnum - þegar kemur að hótelum og veitingahúsum heldur en hönnun fyrir einstaklinga; hann bendir á að nóg séu um erlenda ferðamenn sem koma til landsins. „Það er heldur rólegra á heimilismarkaðnum heldur en var á góðæristímanum en þá sérhönnuðu hönnuðir til dæmis sófasett fyrir einstaklinga.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga