Greinasafni: Orka einnig undir: Arkitektar
Notkun upplýsingalíkana við mannvirkjagerð
Notkun upplýsingalíkana við mannvirkjagerð
Building Information Modeling, eða BIM
Upplýsingalíkön mannvirkja er íslenska heitið á hugtakinu Building Information Modeling, eða  BIM eins og það er oftast skammstafað. Þetta er aðferðafræði við undirbúning, hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja þar sem  hönnuðir setja upp rafræn, þrívíð og hlutbundin líkön af mannvirkjum. Við hvern byggingarhluta er síðan unnt að tengja ýmis konar upplýsingar um eiginleika hans.  Upplýsingalíkanið gefur því raunsanna mynd af þeim einingum sem notaðar verða í mannvirkið sjálft.  Á framkvæmdatíma nýta verktakar þær upplýsingar sem í líkaninu liggja og geta þeir m.a. tekið snið í mannvirkið hvar sem þeir kjósa, framkvæmt sértæka magntöluútreikninga og tengt tímaáætlun við einstaka byggingarhluta. Þegar framkvæmdum lýkur eru valdar upplýsingar úr líkaninu færðar yfir í svonefnt rekstrarlíkan sem auðveldar rekstraraðilum viðkomandi byggingar að fylgjast á kerfisbundinn hátt með t.d. viðhaldi á kerfum hússins.

Samþætting og samhæfing
Eitt af markmiðunum með notkun BIM er að samþætta hönnunarferli mannvirkja og samhæfa hönnunargögn betur til að auka gæði, nákvæmni og áreiðanleika þeirra. Allir aðilar verkefnis  vinna með rafrænar samræmdar upplýsingar í sameiginlegu upplýsingalíkani. Þannig er mögulegt að hafa réttar upplýsingar á hverjum tíma aðgengilegar í heildstæðu, rafrænu umhverfi. Ljóst er að í þessu nýja vinnuferli felst veruleg breyting frá hefðbundnum aðferðum við hönnun. Einn helsti kostur BIM aðferðafræðinnar er að misræmi sem getur myndast milli fagaðila minnkar verulega sem  aftur leiðir af sér nákvæmari hönnunargögn með færri mistökum og lægri byggingarkostnaði fyrir verkkaupa. Magnskrár verða nákvæmari, hönnunargögnin skýrari og óvissuþáttum fækkar.

Hvers vegna þarf breytingar ?
Kannanir sem gerðar hafa verið víða um heim á undanförnum árum og áratugum hafa sýnt að framleiðni í byggingariðnaði hefur almennt verið mun minni en í öðrum sambærilegum framleiðslugreinum.  Til að breyting geti orðið á þessu og að aukin framleiðni og gæði náist  þarf að verða grundvallarbreyting á aðferðafræði alls ferilsins.  Litið er til BIM aðferðafræðinnar sem verulegs framlags í þessu efni.  Á Vesturlöndum hafa opinberir verkkaupar í Bandaríkjunum, Finnlandi, Noregi, Danmörku og Hollandi tekið forystu í þróun, stöðlun og innleiðingu á BIM, en einnig hafa aðilar á einkamarkaði í ýmsum löndum innleitt þessa aðferðafræði í sínum verkum.  Utan Vesturlanda hafa t.d. Ástralía, Nýja Sjáland og Singapore verið virk í innleiðingu á BIM aðferðafræðinni.

Samstarfsvettvangur
Í ágúst 2007 var formlega stofnaður „Þróunarvettvangur á sviði mannvirkjagerðar“ (Icelandic Construction Technology Platform, ICTP).  Vefsetur Þróunarvettvangsins er hýst hjá Mannvirkjastofnun (www.mvs.is/ICTP).  Í framhaldinu var settur á fót vinnuhópur, BIM Ísland, í þeim tilgangi að kanna nánar kosti og galla þessarar nýju aðferðafræði og stýra innleiðingu hennar á Íslandi. Í mars 2009 var ráðinn starfsmaður til tveggja ára, Haraldur Ingvarsson arkitekt, til að leiða starfið.

Þátttakendur í BIM Ísland verkefninu og fjárhagslegir bakhjarlar þess eru eftirfarandi:
 • Fasteignir ríkissjóðs (FR)
 • Framkvæmdasýsla ríkisins (FSR)
 • Íbúðalánasjóður (ÍLS)
 • Landsnet (LN)
 • Landsvirkjun (LV)
 • Mannvirkjastofnun (MVS)
 • Nýsköpunarmiðstöð Íslands (NMI)
 • Orkuveita Reykjavíkur (OR)
 • Reykjavíkurborg, Framkvæmda- og eignasvið (RVK)
 • Samtök Iðnaðarins (SI)
Stjórn BIM Ísland skipa nú:
 • Óskar Valdimarsson, formaður (FSR)
 • Guðni Guðnason (NMI)
 • Hannes Frímann Sigurðsson (OR)
 • Rúnar Gunnarsson (RVK)
 • Vigfús Halldórsson (FR)

BIM Ísland – Stefna og markmið
Stjórn BIM Ísland hefur sett innleiðingarverkefninu eftirfarandi stefnu og markmið:

 • að innleiða notkun samhæfðra upplýsingalíkana við undirbúning, hönnun, byggingu og rekstur opinberra mannvirkja á Íslandi til að auka gæði hönnunar og nákvæmni upplýsinga um mannvirkið og ná með því fram lægri byggingar- og rekstrarkostnaði
 • að innan fárra ára verði það meginregla að nota BIM við byggingu allra stærri opinberra mannvirkja á Íslandi.  Á sama hátt munu aðrir framkvæmdaaðilar hvattir til að taka þessa aðferðafræði upp í auknum mæli.
 • BIM Ísland gerir ráð fyrir að skilakröfum á upplýsingalíkönum verði stillt í hóf í upphafi en kröfurnar auknar jafnt og þétt eftir því sem reynslan eykst.
Starfsemi BIM Ísland
BIM Ísland hefur síðastliðin tvö ár unnið ötullega að því að kynna sér þróunina í öðrum löndum og koma því áhugaverðasta á framfæri hérlendis.  Sóttar hafa verið ráðstefnur og fundir um BIM og stjórnin hefur haldið yfir 40 fundi þar sem málin hafa verið krufin til mergjar og línurnar lagðar. 
Á þessum tíma hafa verið haldnar um 40 kynningar og fyrirlestrar og svipaður fjöldi funda á stofum arkitekta og verkfræðinga.  Haldnir voru 12 fyrirlestrar á þremur mismunandi áherslusviðum BIM auk þess sem fyrirlestrar voru haldnir hjá LISU samtökunum, Skipulagsstofnun, Brunamálastofnun, Landmælingum Íslands, Samtökum Byggingarfulltrúa, Íbúðalánasjóði, Háskóla Íslands, Háskólanum í Reykjavík, Lista- háskólanum og Fasteignaskrá Íslands.
Þá hafa verið haldnar 5 ráðstefnur og einar tveggja daga vinnubúðir um BIM, þar sem hönnuðir í byggingariðnaðinum gátu skoðað helstu forritin sem notuð eru við gerð BIM líkana á Íslandi auk þess sem fyrirlestrar voru haldnir.  All breiður hópur mætti í þessar vinnubúðir, bæði arkitektar, verkfræðingar og tæknifræðingar auk nema úr háskólunum og fulltrúar verkkaupa og var húsfyllir báða dagana.  Að auki hafa stjórn BIM Ísland og starfsmaður samtakanna haft aðkomu að um 10 leiðsöguverkefnum, skrifað blaðagreinar og gefið út kynningarbæklinga. 
Sett var upp vefsíðan www.bim.is sem er vistuð hjá Nýsköpunarmiðstöð Íslands. Á henni eru ýmis konar upplýsingar varðandi BIM og meðal annars er þar að finna 4 blaðsíðna bækling sem nefnist BIM fyrir byrjendur.   Hluti af vefsíðunni er umræðusvæði (BIMWiki) þar sem hægt er að koma spurningum á framfæri  og hefja umræður um málefni tengd BIM.  
Gefin hafa verið út fjögur fréttabréf BIM Ísland sem eru á vefsíðunni en auk þess voru þau send út rafrænt samkvæmt póstlista. Í fréttabréfunum er rakið það sem var á döfinni hverju sinni og sagt frá þeim sem nýttu sér aðferðafræðina og verkefnum þeirra. Fjallað var um leiðsöguverkefni (pilot projects) sem bakhjarlar BIM Ísland höfðu komið af stað.
Stjórnin taldi mikilvægt að til væri almennt aðgengilegt rit á íslensku um BIM aðferðafræðina og því var ákveðið að láta þýða þýska bók um þetta efni. Í henni er gefin innsýn í aðferðafræðina og sýnt hvernig upplýsingalíkanið er byggt upp í mismunandi forritum.  Bókina má nálgast á vef BIM Ísland:  www.bim.is

Skilalýsingar
Framsetning á almennum skilalýsingum (requirements) BIM líkana fyrir íslenskan markað hefur verið á dagskrá hjá stjórninni frá því að innleiðingarverkefnið hófst.  Settur var á fót fjölbreyttur hópur fagaðila til að skoða skilalýsingar sem gefnar hafa verið út í öðrum löndum.  Niðurstaðan varð sú að skrifa ekki sérstaka skilalýsingu fyrir Ísland, heldur fá leyfi fyrir því að taka upp skilalýsingu Senate Properties í Finnlandi, sem er systurstofnun Framkvæmdasýslu ríkisins og Fasteigna ríkissjóðs. Skilalýsingin er í 9 bindum, en fyrir liggur að 10. bindið, sem fjalla mun um BIM og rekstur fasteigna, verði gefið út árið 2012.  Einnig hefur verið ákveðið að ný og endurskoðuð útgáfa af skilalýsingunum komi út árið 2012 og að sú útgáfa muni gilda fyrir finnska markaðinn í heild sinni.  Stjórn BIM Ísland ákvað að skilalýsingin yrði ekki þýdd á þessu stigi, heldur yrði tekin upp enska útgáfan af henni.  Skilalýsingin, með inngangsorðum stjórnar BIM Ísland,  er aðgengileg á vefnum:  www.bim.is.

Áhrif BIM á hönnunarferlið

Almennt má skipta hefðbundnu hönnunarferli bygginga niður í nokkur afmörkuð stig þar sem sú vinna sem fer fram á hverju stigi er skýrt afmörkuð og aðkoma mismunandi aðila er þekkt og skilgreind.  Ákveðin hefð hefur myndast við hönnun bygginga í 2D CAD tölvustuddu hönnunarumhverfi, t.d. á hvaða stigi ákvarðanir með mismunandi vægi eru teknar.  Reynslan sem fengist hefur í BIM leiðsöguverkefnum er að á hinu hefðbundna hönnunarferli hefur orðið meiriháttar breyting og að nauðsyn er á nánara samstarfi fleiri aðila en áður tíðkaðist fyrr í hönnunarferlinu.
Það er ljóst að BIM aðferða–fræðin hvetur til agaðri vinnubragða en áður og ríkara samstarfs hönnuða, en einnig á milli hönnuða og verkkaupa. Umskiptin frá því að vinna í hinu tvívíða  umhverfi yfir í umhverfi hlutbundinna upplýsingalíkana eru umtalsverð, enda vinnulagið og hugsunarhátturinn allur annar.  Það er almenn reynsla hönnunarteyma sem skipt hafa yfir í hugmyndafræði BIM að þessi aðferð hafi víðtæk áhrif á flesta þætti hönnunarferilsins. Samskipti aðila eru með öðrum hætti en áður hefur tíðkast, umgengni um og meðhöndlun gagna er önnur sem og uppbygging verkferla.  Ákvarðanataka, bæði verkkaupa og hönnuða, er með öðrum hætti og á sér stað mun fyrrí ferlinu.

Gæði og samræming gagna

Áður hefur komið fram að eitt af meginmarkiðum BIM er að auka öryggi og gæði gagna á hönnunarstiginu og þannig stemma stigu við þeim auka kostnaði sem oft verður til við mannvirkjagerð vegna galla á hönnunargögnum.  Þau vinnubrögð sem viðhöfð eru við vinnslu BIM líkana leiða af sér aukinn aga og nákvæmni sem eitt og sér eykur gæði gagna umtalsvert.  Annar mjög veigamikill þáttur snýr að samræmingu gagna innbyrðis og uppfærslu þeirra, en allar upplýsingar uppfærast sjálfkrafa þegar breyting er gerð á einhverjum stað í líkaninu.  Í BIM leiðsöguverkefnum hefur þetta verið sannreynt bæði hvað varðar innbyrðis samræmingu líkans viðkomandi hönnuðar sem og sjálfkrafa uppfærslu upplýsinga innan líkansins.
Reynsla sem fengist hefur í þessum verkefnum hefur sýnt hvaða ótvíræðu kosti þetta hefur í för með sér hvað varðar tímasparnað en fyrst og fremst hvað varðar sjálfkrafa samræmingu gagnanna innan líkansins.

Fyrirsjáanlegar breytingar á fleiri sviðum
Eins og komið hefur fram í þessari grein veldur innleiðing BIM aðferðafræðinnar tölu–verðum breytingum á verklagi við undirbúning, hönnun og byggingu mannvirkja.  Leiða má líkur að því að með þessu breytta verklagi verði þróun í forsagnargerð verkkaupa á þann hátt að henni verði skipt í tvennt.  Fyrri hlutinn er þá unninn áður en samningur er gerður við hönnunarteymið, og er grundvöllur samningsins,  en síðari hlutinn yrði síðan unninn í upphafi hönnunarvinnunnar í samvinnu við hönnunarteymið. 
Þá liggur fyrir að tilvist upp–lýsingalíkana á forhönnunarstigi auðveldar ýmsa útreikninga og greiningar er meðal annars tengjast vistvænni hönnun. Má þar til dæmis nefna orkuútreikninga og dagsbirtugreiningar.  Því má ætla að tilkoma BIM aðferðafræðinnar muni á komandi árum auðvelda, og þar með ýta undir, vistvæna hönnun bygginga á Íslandi.
Ekki er síður mikilvægt að endurskoða þá verkferla sem unnið er eftir þegar kemur að skilum á fullbyggðum mannvirkjum til notenda, en þar hefur til langs tíma skort verulega á ögun hvað varðar upplýsingagjöf, handbækur og reyndarteikningar.  Gera þarf til dæmis ráð fyrir meiri tíma til viðtökuprófana  og kennslu á kerfi viðkomandi byggingar áður en hún er tekin í notkun.  Tilvalið er að taka til hendinni á þessu sviði á sama tíma og öðrum verkferlum er breytt til samræmis við aðferðafræði BIM.
Að lokum má benda á að upptaka á BIM aðferðafræðinni kallar á að mjög fljótlega verði tekin ákvörðun um eitt flokkunarkerfi á Íslandi og mun stjórn BIM Ísland hafa forgöngu um að svo verði.
Ályktun stjórnar BIM Ísland 2011

Í ljósi þeirrar reynslu sem fengist hefur með leiðsöguverkum í notkun BIM á Íslandi, til viðbótar við þá reynslu sem fengist hefur erlendis í sambærilegum verkefnum, telur stjórn BIM Ísland að svo mikil reynsla og þekking liggi nú fyrir á þessari aðferðafræði að eðlilegt sé að gera eftirfarandi ályktun:

 • Upplýsingalíkön mannvirkja (Building Information Modeling, BIM) eru mikilvægt framlag til aukinnar framleiðni og gæðatryggingar í byggingariðnaði.
 • Sýnt hefur verið fram á það með fjölda raunverulegra dæma að með þessari aðferðafræði megi ná fram sparnaði við hönnun, byggingu og rekstur mannvirkja.
 • Mikilvægt er að við skil á líkönum sé unnið eftir opnum BIM sam–skiptastöðlum og er áhersla lögð á að miðað sé við hinn alþjóðlega IFC samskiptastaðal.
 • Opinberir verkkaupar sem og aðrir framkvæmdaaðilar eru hvattir til að kynna sér þessa aðferðafræði og innleiða hana í verkum sínum á komandi árum.
 • Lögð er áhersla á að á Íslandi verði sameinast um einn grunn fyrir BIM skilalýsingar og að til grundvallar verði lagt ritið: „BIM Requirements“ sem gefið er út af Senate Properties í Finnlandi.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga