Greinasafni: Afþreying
Bókin sem kom ekki út
Bókin sem kom ekki út
Kleopatra Kristbjörg
Gefnar hafa verið út fimm bækur eftir Kleopötru Kristbjörgu. Þá er í pípunum að skrifað verði kvikmyndahandrit eftir einni bókanna.  Áfangastaður: Hollywood. Kleopatra á nær fullbúið handrit - sú bók átti að koma út þetta árið. En það var eitthvað í veginum.


Kleopatra Kristbjörg er ein glæsilegasta kona landsins en ólíkt öðrum glæsikonum þá virðist hún ekki spá mikið í útlit né annan hégóma. Hún er kraftmikil kona og mikill byltingarsinni og það virðist eiga hug hennar allan.
Fyrsta bók Kleopötru Kristbjörgu kom út árið 2005; það var bókin Daggardropar. „Bókin er komin með um–boðsmann sem hafði einhvern volgan sem vildi koma henni inn í Hollywood,“ segir Kleopatra Kristbjörg. „Þetta er í skoðun.“
Rithöfundurinn segir að bókin fjalli um sín fyrri líf. „Einhverjum úti fannst þetta spenannandi; nýtt viðfangsefni. Þetta er óplægður akur.“
Hermikrákuheimur kom út ári síðar en búið er að gefa báðar bækurnar út í Bandaríkjunum.
Hermukrákuheimur hefur reitt marga til reiði. „Hún er ekki bara andleg heldur líka ádeila á samfélagið og heiminn.“
Svo árið 2008 kom út bókin Þá var gott að deyja sem er sjálfsætt framhald bókarinnar Daggardropar. „Hún er um eitt líf í viðbót. Þetta eru líf sem ég hef upplifað sjálf. Þetta kemur til mín í gegnum drauma eða einhverju dulvitundarstigi var mér sagt. Þegar mig dreymdi þetta þá skrifaði ég draumana niður þegar ég vaknaði; þetta kom í mörgum bútum.“
Vetrarnótt kom líka út árið 2008. Sú bók er barnabók. „Þetta er bók eins og góðu barnabækurnar voru í gamla daga. Eins og litla stúlkan með eldspýturnar. Slíkar bækur sem fengu börn til að tengjast hjartanu í sjálfu sér, efla kærleikann og trú á guð. Börn hafa gott af því að lesa svona bækur en ekki þetta bull sem sumar barnabækur eru í dag sem fjalla t.d. um talandi bíla sem gerir börn heimsk og fyllir þau ranghugmyndum. Börn hafa gott af að kynnast sársaukanum og erfiðleikunum því þannig er lífið. Í dag eru börn illa uppalin því foreldrarnir vilja bara að þau hlæi en mega alls ekki gráta.“
Þá var það bókin Biðukollur útum allt sem kom út í fyrra en bókin er með sannsögulegu ívafi. „Hún vakti mikla aðdáun hjá mörgum en svo voru margir ofsalega reiðir. Ég viðurkenni að sú bók er skeflilega gróf en þetta ógeðslega í bókinni er sannleikur.“

Alkóhólismi

Kleopatra Kristbjörg segist alltaf hafa verið á móti því að segja frá sjálfri sér; hvað þá að skrifa um lífsreynslu sína. Hún segir að það hafi verið vegna fjölda áskorana sem hún hafi ákveðið að skrifa um erfiða reynslu sína sem tengist kynni sínum af alkóhólistum. „Ég ákvað líka að skrifa bókina vegna þess að ég hef mikinn áhuga á mannfólkinu og mér finnst heimurinn svo sjúkur. Ég ætlaði að láta gefa bókina út í haust og var nánast búin með uppkastið en þegar ég las það yfir fannst mér það svo hrikalega skelfilegt. Fólk getur hagað sér eins og skepnur en alkóhólismi getur staðið á bak við það.
Alkóhólisti sem ég skrifaði um í bókinni grátbað mig um að gefa ekki út þessa bók því það sem ég skrifaði um hann myndi leggja líf hans í rúst. Hann bað mig um að breyta nafni sínu og öllu um sig en ég vissi að ég yrði þá að breyta öllu öðru líka. Ég byrjaði á því en sá starx að það yrði svo mikil vinna að fljótlegra yrði að skrifa nýja bók en nennti því ekki. Hafði engan tíma í það. Þess vegna hef ég bara þess bók á „hold“ og skoða það á næsta ári hvort hún komi út næsta haust. Mig langar ekki að leggja líf þessa manns í rúst né nokkurs annars. Aumingjadómurinn er nægilegur hjá þessu vesalings fólki svo ég fari nú ekki að bæta þar á. Því er best að nafngreina engan ef ég kem með þessa bók.
Ég fékk mikinn áhuga á þessum sjúkdóm og þekki marga sem hafa orið fyrir barðinu á alkóhólistum en alkóhólistar hafa lagt líf margra sem ég þekki gjörsamlega í rúst. Ég skrifaði svolítið um alkóhólisma í Biðukollunum en ég vildi vekja fólk til umhugsunar um hvað þetta er mikið böl. Ég vara fólk við því að tengjast alkóhólistum. Það eru svo margir sem vita ekki hver sjúkdómurinn er og margir fara í samband með alkóhólista - fólk veit kannski að manneskjan er alki en það veit ekki hvað er á bak við þetta orð. Ég verð að skrifa um þetta og vara fólk við. Ég útskýri líka fyrir fólki hvað það er að vera alkóhólisti.“
Hún hefur skrifað um fyrri líf, andleg málefni og alkóhólisma. Hvað einkennir Kleopötru Kristbjörgu sem rithöfund? „Ég er ægilega beinskeytt. Ég vil bara koma því á framfæri sem ég vil segja og ég eiginlega tala við fólk í bókunum.“

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga