Greinasafni: Menntun
Jóhann Magnús Bjarnason
Jóhann Magnús Bjarnason
– Dagbók metsöluhöfundar

Það hefur stundum verið haft á orði að við Íslendingar leggjum ekki nægilega mikla rækt við okkar gömlu rithöfunda; að þeir falli milli stafs og hurðar í bókmenntaumræðu samtímans.  Einn af þeim sem það á við um er vestur-íslenski rithöfundurinn Jóhann Magnús Bjarnason.  Jóhann Magnús Bjarnason er almennt talinn fremsta sagnaskáld Vestur-Íslendinga og er þá jafnan vísað til sögunnar Eiríks Hanssonar (1899–1903) en einnig Brasilíufaranna (1905–1908) en báðar sögurnar nutu gríðarlegra vinsælda bæði hér heima og vestanhafs. Þetta var á þeim tíma þegar íslenska skáldsagan var að slíta barnsskónum eftir langt hlé og jarðvegurinn var frjór fyrir slíkar tilraunir. Höfðu þessar sögur Jóhanns enda áhrif á marga þá íslensku höfunda sem á eftir honum komu. Í grein eftir Gyrði Elíasson um Jóhann tiltekur hann að höfundar eins og Gunnar Gunnarsson og Halldór Kiljan Laxness hafi sótt ýmislegt í smiðju til Jóhanns Magnúsar, og Laxness heiðrar minningu hins vestur-íslenska skáldbróður í riti sínu Í túninu heima árið 1975 og segist hafa orðið „hyltur og bjargtekinn“ af lestri verka hans. 
Jóhann Magnús Bjarnason fæddist 24. maí 1866 að Meðalnesi í Fellum í Norður-Múlasýslu. Foreldrar hans voru Bjarni bóndi Andrésson frá Hnefilsdal í Jökuldal og kona hans, Kristbjörg Magnúsdóttir frá Birnufelli í Fellum. Magnús fluttist vestur um haf með foreldrum sínum árið 1875 og dvaldi með þeim í Marklandi í Nova Scotia til ársins 1882 og naut þar skólagöngu um tíma. Hann hélt til Winnipeg og nam þar um skeið við „Collegiate“. En það var ekki fyrr en árið 1900 að hann útskrifaðist frá kennaraskóla í Winnipeg og hafði hann þá kennt við barnaskóla um árabil. Þetta var takmörkuð skólaganga, en þeim mun meira mun Magnús hafa menntast af bóklestri og sjálfsnámi. Hann var afar vel að sér í enskum og norður-amerískum bókmenntum eins og dagbókin ber vott um. Magnús kvæntist árið 1887 Guðrúnu Hjörleifsdóttur frá Dyrhólum í Mýrdal sem flust hafði tíu ára gömul með foreldrum sínum til Nýja-Íslands árið 1876. Magnús hóf barnakennslu árið 1889 í Árnesi við Winnipegvatn á Nýja-Íslandi, skammt norðan við Gimli, og færði sig fimm árum síðar í Geysisbyggð þar skammt frá og átti þar heima í níu ár og kenndi þar og í nágrannabyggð á Hnausum. Árið 1903 varð hann að láta af kennslu vegna heilsubrests og fór þá til Norður-Dakota. Haustið 1905 hóf hann kennslu á ný, í þetta sinn í Marshland-nýlendunni í Manitoba og var þar (og um tíma í Big Point) til 1912. Þá fluttust þau hjónin til Vancouver í British Columbia þar sem Magnús vann við skrifstofustörf í rúm þrjú ár. Árið 1916 fluttu þau hjón sig aftur til Manitoba og settust að í Otto, skammt fyrir austan Lundar. Magnús kenndi við Norðurstjörnuskólann til 1922 en varð þá að hætta kennslu af heilsufarsástæðum. Þá fluttust þau hjón til Elfros í Vatnabyggð í Saskatchewan-fylki og áttu þar heima til dauðadags. Guðrún kona Magnúsar lést 8. ágúst 1945 en Magnús lést 8. september sama ár.
Jóhann Magnús Bjarnason skrifaði öll sín verk á íslensku. Hann hugsaði sér dagbókina sem sitt lokaverk eins og kemur fram í minningargrein um hann í Heimskringlu 12. september 1945 sem vinurinn og nágranninn Sveinn G. Kristjánsson skrifaði. Þar segir m.a.: „Lokaritverkið átti að vera dagbók skáldsins. Lauk hann við hana 17. ágúst þó að heilsan væri ekki góð orðin. En bók þessari hafði hann lofað útgefandanum. Síðasta daginn sem hann vann að því að fullgera dagbókina fékk hann fjórum sinnum aðsvif. En henni lauk hann og naut ánægju þess er fylgir að hafa unnið starf sitt trúverðuglega áður en hann lagði í síðasta sinn frá sér  pennann.“
Hefur dagbókin ekki komið út fyrr en núna að Lestu.is gefur út 1. bindi hennar en samtals mun  hún koma út í þremur bindum.  Góða og gagnmerka formála að bókinni skrifa þeir Baldur Hafstað og Gyrðir Elíasson.
Dagbók J. Magnúsar nær frá 1902 til 1945. Veitir hún stórmerkilega innsýn í líf vestur-íslensks rithöfundar og mannvinar. Við kynnumst jafnframt íslensku þjóðarbroti í fjórum fylkjum Norður-Ameríku og skyggnumst inn í hugarheim Vestur-Íslendinga og áhugamál, fréttum af námi þeirra, afrekum og áföllum. Við fræðumst um ólympískan sigur Íslendinga, The Falcons,  í íshokkí, lesum um vestur-íslenska kraftamenn, fáum fregnir af löndum sem féllu á vígvelli, heyrum af afrekum Vilhjálms Stefánssonar eða lofsamlegum umsögnum innfæddra um söngsigra vestur-íslenskrar stúlku. Þannig greinir dagbókarhöfundurinn frá fólki af fámennri þjóð sem sannar sig í nýjum og framandi heimkynnum. Þessi þráður er vissulega einnig áberandi í öllu höfundarverki Jóhanns Magnúsar og má m.a. skilja sem hvatningu til landans vestra — og „sönnunargagn“ til landans austan hafsins um að þeir sem fóru hafi spjarað sig á nýjum vettvangi. Í rauninni má líta á dagbókina sem heildstæða sögu, ættarsögu Vestur-Íslendinga, þar sem fyrirboðar, tákn og draumar gegna sínu hlutverki og skapa eftirvæntingu og óhug; en jafnframt birtist þar þakklæti til mannanna og innileg lífsgleði.
Það er mikill fengur að því að fá loksins dagbók Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar á prent og ber að þakka útgefendum fyrir þetta verðuga framtak. 

Eiríkur Hansson
Sagan af Eiríki Hanssyni eftir Vestur-Íslendinginn Jóhann Magnús Bjarnason kom út í þremur hlutum á árunum 1899 til 1903. Önnur útgáfa birtist árin 1949–1950 og sú þriðja árið 1973. Um árabil hefur þetta töfrandi verk verið ófáanlegt en kemur nú út í þremur handhægum bindum og er þetta fyrsti hluti verksins (Bernskan) sem greinir frá brottför hinnar ungu söguhetju frá Íslandi og fyrstu árunum í nýju landi.
Eiríkur Hansson vakti strax mikla athygli beggja vegna Atlantshafsins og hlaut yfirleitt afar góða dóma. Oft hefur verið á það bent að í Eiríki Hanssyni sjáist ýmislegt sem tengist höfundi verksins beint. Jóhann Magnús ólst upp á sögusviði verksins í Nýja Skotlandi (Nova Scotia í Kanada), og hann minnist í dagbókum sínum á fjölmargt úr eigin lífi sem tengja má skáldsögunni. Þetta er þó ekki sjálfsævisaga, en fullyrða má að við fáum þarna afar sannfærandi mynd af gleði og sorgum hans og annarra vesturfara sem bjuggu á þessu svæði.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga