Greinasafni: Menntun
Fjöldi íslenskra rafbóka
Fjöldi íslenskra rafbóka
-á Lestu.is

Mikið hefur verið rætt um rafbækur að undanförnu og sýnist sitt hverjum. Flestir eru þó á því að slíkar bækur muni í framtíðinni gegna mikilvægu hlutverki bæði hvað varðar almennar afþreyingarbókmenntir og ekki síður í námi.  Upp á síðkastið hefur orðið mikil þróun í lestölvum af ýmsum gerðum og það aftur kallað á að útgefendur útbúi bækur sínar þannig að þær henti þessum tölvum. Þegar við fórum að kynna okkur hvernig þessum málum væri háttað hér á Íslandi rákumst við fljótt á fyrirtækið Lestu.is.  Lestu.is er til húsa á Laugavegi 163 og þegar við mættum þangað voru þeir Jökull Sigurðsson forstjóri og Ingólfur B. Kristjánsson ritstjóri í óða önn að útbúa Dagbók vesturfara (Dagbók Jóhanns Magnúsar Bjarnasonar) sem rafbók. Aðspurðir sögðu þeir félagar að Lestu.is væri fyrsta rafbókarsíðan á Íslandi en hún var opnuð formlega af Katrínu Jakobsdóttur menntamálaráðherra 11. Janúar 2011 og væri því að verða ársgömul. Þá væri hún nánast eina rafbókarsíðan þar sem hægt væri að nálgast íslenskar bækur.  Á þessu tæpa ári eru bækurnar orðnar um 70 talsins og í hverri viku bætist a.m.k. ein bók við. Í byrjun var einungis um áskriftarsíðu að ræða, þ.e. notendur gátu gerst áskrifendur og fengið aðgang að öllu efninu fyrir 1290 krónur á mánuði, en nú nýlega hafa þeir bætt við verlunarsíðu þar sem hægt er að kaupa stakar bækur. Hafa þetta einkum verið eldri bækur sem boðið var upp á, en með verslunarsíðunni verður í auknum mæli hægt að bjóða upp á nýrri bækur. 
En hvernig er aðsóknin að síðunni? Eru Íslendingar að nýta sér rafbækur? Já, viðtökurnar hafa verið betri en við þorðum að vona, segir Jökull. Í rauninni renndum við blint í sjóinn með þetta, því erfitt var að átta sig á hve margir ættu slík tæki hér á landi, en þeir eru greinilega fleiri en við hugðum og fer fjölgandi nokkuð hratt. Og svo má búast við að þetta verði jólagjöfin í ár á mörgum heimilum nú þegar virðisaukaskattur hefur verið lækkaður af tækjunum og þau þannig komin á viðráðanlegt verð. Það er heldur ekki amaleg jólagjöf að fá rafbók sem inniheldur sjötíu bækur ef áskrift af Lestu fylgir með.
Þeir félagar segjast munu halda áfram að setja í það minnsta eina bók inn á vefinn í hverri viku og það muni aukast jafnt og þétt. Við erum rétt að byrja, segir Ingólfur. Við höfum fram að þessu einkum verið að setja inn afþreyingarbækur, en nú stefnum við á að bjóða upp á fjölda námsbóka, bæði frá Skólavefnum og öðrum útgáfum.  Einnig ætlum við að bæta við  fjölda barnabóka.  Já, við hvetjum fólk til að fylgjast með á vefnum okkar enda ættu allir að finna eitthvað við hæfi þar og það er gott að kynna sér þessi mál strax frá byrjun því þetta er framtíðin.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga