Greinasafni: Menntun
Býður uppá hundruð hljóðbóka
Býður uppá hundruð hljóðbóka
-á hlusta.is

Á undanförnum árum hefur það færst í vöxt að fólk velji sér það að hlusta á bækur upplesnar frekar en að lesa þær. Hentar það mörgum betur og þá er einnig hægt að hlusta samhliða því sem maður gerir eitthvað allt annað. Þannig nýtist tíminn betur og er oft fljótari að líða.  Með nýrri tækni og útbreiðslu ipodsins og annarra ,,spiladósa“ er líka svo auðvelt að verða sér úti um vandað efni til að hlusta á.
Einn af þeim aðilum sem bjóða upp á hljóðbækur og hefur gert um árabil er vefurinn Hlusta.is.  Aðalsteinn Magnússon er í forsvari fyrir vefnum og við slógum á þráðinn til hans og báðum hann að segja okkur nánar frá þessum vef. - Já, við fórum af stað með vefinn fyrir um þremur árum og eins og með aðra góða hluti hefur hann vaxið jafnt og þétt  bæði hvað varðar efni og almenna notkun, segir Aðalsteinn.  Einstaklingum sem eru áskrifendur fjölgar stöðugt og þá er vefurinn notaður víða í skólum og öðrum stofnunum.  Við leggjum enda áherslu á að bjóða upp á eitthvað nýtt í hverri viku og að bjóða upp á fjölbreytt efni þannig að allir geti fundið eitthvað við hæfi. Það er alveg ljóst og rannsóknir hafa sýnt fram á það, að mörgum hentar það betur að tileinka sé fróðleik og upplýsingar af ýmsu tagi með því að hlusta í stað þess að lesa.  Fyrir þá sem það á við er Hlusta góður valkostur.  Þá er það líka mikilvægt fyrir alla að temja sér ákveðna færni í að hlusta. Sú færni skilar sér á öðrum sviðum.  Við leggjum líka mikla áherslu á að halda áskriftarverðinu í lágmarki þannig að allir geta nýtt sér vefinn. Mánaðaráskrift kostar einungis 990 krónur og hefur ekkert hækkað frá því að vefurinn fór í loftið.
En hvers konar efni er að finna á Hlusta.is og hvað sækja Íslendingar helst í? – Já, eins og ég sagði þá leitumst við eftir því að bjóða upp á fjölbreytt efni fyrir ólíka aldurshópa. Það sem menn sækja þó mest í eru íslenskar skáldsögur frá ýmsum tímum. Íslendingasögur, Heimskringla, barnasögur og þjóðlegur fróðleikur. Þá hafa þýddar skáldsögur verið að sækja í sig veðrið.  Sígildar bókmenntaperlur; sögur eftir höfunda á borð við Jón Trausta, Einar Hjörleifsson  Kvaran, Torfhildi Hólm og Jóhann Magnús Bjarnason eru kannski það sem mest er sótt í þessa dagana. Fyrir stuttu buðum við t.a.m. upp á Sögur frá Skaftáreldum eftir Jón Trausta.  Flestir þekkja sögurnar af Höllu og heiðarbýlinu eftir hann og Önnu frá Stóruborg, en færri höfðu lesið Sögur frá Skaftáreldum og fengum við gríðarlega jákvæð viðbrögð við þeim upplestri. Þá vorum við setja inn söguna Morgunn lífsins eftir Kristmann Guðmundsson sem verið var að endurútgefa bók nú fyrir jólin. Af fyrstu viðbrögðum að dæma á hún eftir að verða mjög vinsæl.
Já, það er greinilega eftir mörgu að slægjast á Hlusta.is og um að gera fyrir alla að kynna sér þennan stórskemmtilega vef.


Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga