Greinasafni: Menntun
Morgunn lífsins eftir Kristmann Guðmundsson
Loksins, loksins
- Morgunn lífsins eftir Kristmann Guðmundsson
Nýlega gaf Lestu.is út bókina Morgunn lífsins eftir Kristmann Guðmundsson.  Er mikill fengur að þeirri útgáfu, því lítið hefur verið endurútgefið af sögum Kristmanns, sem verður að teljast nokkuð athyglivert þar sem Kristmann er eitt af stóru nöfnunum í íslenskri bókmenntasögu. Morgunn lífsins var fyrsta skáldsaga Kristmanns sem út kom á Íslandi. Það var árið 1932 en sagan hafði verið gefin út í Noregi þremur árum fyrr undir heitinu Livets morgen. Guðmundur G. Hagalín þýddi söguna á íslensku. Árið 1953 kom sagan út í þýðingu Helga Sæmundssonar og það er sú þýðing sem hér birtist. Er hún sérlega lipur og leikandi, orðalagið er sannfærandi og maður fær aldrei á tilfinninguna að þýðingin henti ekki verkinu og anda þess. 
Til marks um vinsældir bókariinar má geta þess að hún var margoft gefin út í Þýskalandi, og Þjóðverjar gerðu árið 1955 eftir henni kvikmynd sem sýnd var um víða veröld.
Kristmann kunni flestum öðrum betur að segja sögu. Frásögnin í Morgni lífsins líður áfram áreynslulaust að því er virðist, með fyrirboðum sínum og draumum – í anda fornra sagna. Kristmann kann líka að lýsa elskendum og ástum án þess að það verði væmið eða vandræðalegt. Hann nær strax taki á lesandanum og veit nákvæmlega hvað hann ætlar að segja. Hann skapar spennu strax í upphafi og heldur henni allt til enda.
Sagan fjallar um ástir en einnig um andstæðu ástarinnar, hatrið, hina „þyngstu byrði lífsins“. Og afbrýðisemin fær sannarlega sína umfjöllun og kemur m.a. fram í yngri kynslóð sögupersóna. Jafnframt er þetta saga um syndir feðranna, svik og blekkingu, kaldan veruleika og drauminn um hina sönnu ást.
Kristmann skrifar í anda Íslendingasagna og lætur verkin og atvikin tala, fremur en orðin sem mælt eru. Og sjálfskaparvíti Halldórs Bessasonar minnir um margt á Gunnlaug ormstungu eða Gretti Ásmundarson. Salvör, kvenhetja sögunnar, minnir á Guðrúnu Ósvífursdóttur og gæti vel hafa sagt eins og hún: „Þeim var ég verst er ég unni mest.“
Skemmtilegt er að velta fyrir sér stíl og framsetningu í sögunni. Byggingin er sterk. Fyrsta orðið gefur tóninn („Óveðrið“): það ríkir óveður í sögunni frá upphafi til enda, í sálinni og í náttúrinni. Óveðrið tengir saman afreksverkin þrjú sem unnin eru – en jökullinn birtist þegar rofar til og þá færist líka ró yfir anda hetjunnar. Jökullinn er leiðarstef í sögunni – og ef til vill hefur Halldóri Laxness verið hugsað til þessa jökuls þegar hann vann að verki sínu um Ólaf ljósvíking! Um bygginguna er því við að bæta að – líkt og í mörgum Íslendingasögum – verðum við vitni að vissum endurtekningum í lýsingu á þeim tveimur kynslóðum sem til umfjöllunar eru, sbr. t.d. ástamál feðganna, Halldórs og Gissurar.
 Fyrir nútímalesanda er aldarfarslýsing sögunnar merkileg heimild; við kynnumst bænda- og sjómannasamfélagi fyrri tíðar (seinni hluti 19. aldar) þar sem stöðnun ríkir og fólk býr við verslunarhöft og skort við hafnlausa strönd þar sem  hver bátsferð felur í sér mikinn háska. 
Já, það er löngu tímabært að Kristmann Guðmundsson fái þann sess sem honum ber.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga