Stólaðu á okkur
Stólaðu á okkur
EG skrifstofuhúsgögn:
Góð skrifstofuhúsgögn eru skilyrði fyrir góðu starfsumhverfi og ánægðum starfsmönnum


Fyrirtækið EG Skrifstofuhúsgögn var stofnað í apríl 1996. Eigendur eru hjónin Einar Gylfason og Sigríður Magnúsdóttir. Fyrirtækið flutti í eigið 400 m2 húsnæði að Ármúla 22 í október 2003 og um leið var nafni þess breytt í EG Skrifstofuhúsgögn sem lýsir betur vöruvali þess. Markmið EG Skrifstofuhúsgagna er að sjá fyrirtækjum fyrir húsbúnaði og að hafa afgreiðslutíma stuttan og þjónustuna góða auk þess sem vörur séu smekklegar, traustar og á hagstæðu verði. Boðið er upp á teikniþjónustu án endurgjalds og felur það í sér að sölumaður kemur og máltekur, teiknar og gerir fast og bindandi tilboð miðað við uppsett húsgögn. Einnig er hægt að fá skrifborðsstóla lánaða til prufu í viku án skuldbindinga. Fyrirtækið býður fyrst og fremst upp á fjölbreytt úrval stóla, skrifborða, skápa, skermveggja auk taflna.

Þið hafið allt frá upphafi lagt áherslu á að vera með vörur sem viðskiptavinunum líður vel í, á eða við, þ.e. hvort sem um setið er í stólum eða setið við borð. Hefur það verið svolítið vörumerki fyrirtækisins?
,,Já, við hugsum mikið um það, að vörurnar passi inn í það umhverfi eða húsnæði þar sem á að nota þær og vinnuaðstaðan sé þægileg, góð og heilsuvæn. Þeir stólar sem við erum að selja eru markaðssettir sem slíkir stólar, þ.e. miðað við heilsuvænar lausnir, en séu jafnfram góð, traust og sterk vara. Norsku stólarnir frá HÅG eru með 10 ára ábyrgð og það er eilífðarábyrgð á hæðarpumpum stólanna og flest skrifborðanna bera 5 ára ábyrgð, en þau koma frá Póllandi og Spáni.
Ég fer á vörusýningar og fylgist með markaðnum og hef náð þeim samböndum sem ég hef gegnum slíkar sýningar. Ákveðnar sýningar eru leiðandi í skrifstofuhúsgögnum, einna helst í Þýskalandi. Nú eru vörur frá Kína að flæða inn á markaðinn en gæði þeirra stenst engan samanburð við það sem við þekkjum frá evrópskum fyrirtækjum. En vissulega er þetta ódýr vara, og einhverjir horfa til þess. Ég læt mína viðskiptavini alltaf vita af því að þeir séu að kaupa vöru frá Kína, gæðin séu oft ekki í samræmi við útlit vörunnar. Ég vil frekar missa viðskipti eða viðskiptavini fremur en að hann verði óánægður með þá vöru sem hann er að kaupa hér hjá okkur. Ef viðskiptavinur er t.d. að kaupa skrifborðsstól spyr ég undantekningalaust hvernig á að nota hann og hvar. Sölumennska er ekkert annað en þjónusta.”
Stólarnir frá HÅG framkalla nauðsynlegt blóðflæði hjá þeim sem hann notar

Kemur fólk hér inn vegna þess að það er slæmt í baki og vantar stól sem hentar því vegna þess?
,,Já, hingað koma margir á þeim forsendum. Hingað kemur líka fólk sem er sent hingað af sjúkraþjálfurum, og við höfum líka verið hér með fyrirlestra hér í versluninni og verið þar með þekkta fyrirlesara á sviði sjúkraþjálfunar.”
Einar Gylfason segir stólana frá HÅG vera umhverfisvæna. Eftir t.d. 15 ár þegar stólnum er hent verður eigandinn að greiða förgunargjald og það byggist á efnunum sem í hann eru notuð. Hægt er að taka stólinn í sundur og flokka efnið úr honum, t.d. málma, plast og fleira svo mest af efninu í stólunum er endurnýtanlegt, eða allt að 98%. Hluti af stólunum sem framleiddir eru í dag eru endurunnu efni, t.d. er skelin inni í stólunum unnin úr flöskutöppum. Tekið er við gömlum stólum þegar keyptur er nýr stóll, hann tekinn í sundur og sendur í endurvinnslu.
,,Stólarnir eru hannaðir með það fyrir augum fyrst og fremst að þeim sem í honum situr líði vel, blóðflæði um líkamann sé gott sem fæst með því að hann er ákaflega hreyfanlegur sem fyrst og fremst stýrist af fótunum sem við hreyfinguna framkalla aukið blóðflæði sem er ákaflega mikilvægt fyrir þann sem situr við skrifborð megnið af vinnudeginum. En til að ná fram hámarks þægindum væri best að skrifborðið sem setið er við sé hæðarstillanlegt, því viðkomandi getur setið við það í þeirri hæð sem hann velur eða staðið við það. Fari þetta saman ætti viðkomandi að vera með þeirri bestu hugsanlegu vinnuaðstöðu sem þekkist í dag, ákaflega holla. Vondir stólar geta einfaldlega verið ógn við heilsu þess sem hann notar að staðaldri, t.d. ef þeir halla til hliðar, því þá er líkaminn alltaf í átaki til að rétta sig af.
Kosturinn við nýjasta stólinn frá HÅG, CAPISCO PULS er að viðkomandi getur setið í honum á marga vegu, bæði framarlega og ofarlega og að staðan á baki viðkomandi sé sem best og hollust. Lykilatriðið í hönnum stólanna frá HÅG er að þeir séu umhverfisvænir og þægilegir og valdi því ósjálfrátt að sá sem situr í honum réttir úr sér. CAPISCO PULS er bygggður á hönnun Peter Opsvik á hinum 25 ára gamla CAPISCO stól.  Okkar sölumennska gengur út á að upplýsa fólk og komast að þörfum hvers og eins. Þessi nýi stóll frá HÅG er kannski ekki allra, en þeir sem hafa reynt hann taka honum afar vel. En ég tel að hér finni allir stóla við sitt hæfi. Fyrirtækið HÅG er eign samsteypu sem á tvö önnur stólafyrirtæki í Svíþjóð og Danmörku og við höfum einnig verið að bjóða stóla frá þeim fyrirtækjum.”

Eru ykkar viðskiptavinir fyrst og fremst fyrirtæki?

,,Það er rétt, en auðvitað koma hingað einstaklingar sem vilja góða, umhverfisvæna og holla stóla fyrir líkamann. Við erum einnig með viðgerðarþjónustu á stólum og sérfræðinga til að laga þá. Ég vil nefna að það er ekki rétt stefna hjá fyrirtækjum að láta starfsmenn kaupa sjálfa þá skrifstofustóla sem þeir nota. Líftími þeirra er langur og það er ekki víst að hann henti þeim sem næstur þarf að nota hann ef fyrsti notandi hættir hjá fyrirtækinu. Stólaveltan er mun hægari en starfsmannaveltan.”

Eru vörurnar hér dýrar?

,,Þær eru frekar ódýrar og flestir okkar viðskiptavina eru með góða kostnaðarvitund, þeim er falið að kaupa vörur innan ákveðins kostnaðarramma. Þess vegna koma þeir hingað til okkar. Við erum að ná meirhluta af þeim tilboðum sem við gerum, og það er mjög ásættanlegt hlutfall því það eru harðir samkeppnisaðilar á markaðnum. Við erum með verðin í lægð en þjónustuna og gæðin eru fyrsta flokks,” segir Einar Gylfason, framkvæmdastjóri og eigandi EG Skrifstofuhúsgagna.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga