Greinasafni: Orka
Þekkingin flutt út
HydroKraft Invest er nýtt alþjóðlegt fjárfestingafelag sem stofnað var 16. febrúar síðastliðinn. Félagið er í eigu Landsvirkjunar og Landsbankans en því er ætlað að fjárfesta í verkefnum á erlendri grundu sem tengjast endurnýjanlegri orkuvinnslu, með sérstaka áherslu á vatnsafl.

Borhola við Kröflu.

Fáar þjóðir í heiminum búa yfir jafnmikilli þekkingu á nýtingu endurnýjanlegra orkugjafa og Íslendingar. Um 72% af frumorkunotkun landsmanna kemur frá endurnýjanlegum orkugjöfum en til samanburðar er heimsmeðaltalið 13%. Með stofnun félagsins taka Landsbankinn og Landsvirkjun höndum saman um útflutning á þessari verðmætu þekkingu.
HydroKraft Invest er ætlað að leiða umbótaverkefni á sviði orkumála erlendis, einkum í Evrópu. Áhersla verður lögð á tæknilegar og rekstrarlegar endurbætur á eldri vatnsaflsvirkjunum í því skyni að bæta nýtingu þeirra og auka framleiðni.
Landsbankinn og Landsvirkjun eiga jafnan hlut í félaginu og lagði hvor aðili til tvo milljarða króna í hlutafé. Áætlað er að skjóta styrkari stoðum undir fjárhag félagsins með söfnun hlutafjár á Íslandi á næstunni og mun Landsbankinn tryggja sölu á hlutafé í félaginu fyrir einn milljarð króna til viðbótar. Í kjölfarið er ráðgert að skrá HydroKraft Invest á erlendan hlutabréfamarkað.
Landsvirkjun hefur á undanförnum áratugum verið í fararbroddi í uppbyggingu á raforkukerfi Íslands og er helsti raforkuframleiðandi landsins. Fyrirtækið hefur jafnframt unnið í mörg ár að uppbyggingu og endurbótum á raforkukerfum í öðrum löndum. Má þar nefna þátttöku í franska félaginu Hecla, sem vinnur að úttekt og endurbótum á háspennulínukerfi frönsku rafveitnanna, en Landsvirkjun er einnig þátttakandi í fyrirtækinu Sipenco í Sviss sem annast endurbætur á vatnsaflsvirkjunum þar í landi.
Fullvíst er að eftirspurn eftir endurnýjanlegri orku mun aukast verulega í heiminum. Þekking og reynsla Landsvirkjunar á sviði orkumála verður burðarstoð HydroKraft Invest í sókn félagsins á alþjóðavettvangi á komandi árum.

Tengt efni

Eldri tölublöð
Öll blöð í vefútgáfu

Netútgáfa. Samhliða prentaða blaðinu verður einnig hægt að nálgast netútgáfu af blaðinu á slóðinni www.landogsaga.is. Greinarnar verða bæði í pdf og HTML formi sem gerir þér til dæmis kleift að senda þær áfram og nýta í markaðsskyni. Netútgáfan verður ítarlegri og verður hægt að senda inn efni sem sett verður á vefinn, umfram það efni sem er í blöðunum. Þessi vefur mun síðan halda áfram að vaxa og dafna. 

© 2007 - 2012 Land og saga